Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ætla að lækka útsvar og leysa samgönguvandann

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarsson - RUV
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vill lækka útsvar um hálft prósentustig og auka samstarf ríkis og borgar í húsnæðis- og samgöngumálum. Sundabraut fer aftur á samgönguáætlun en fjármálaráðherra segir að skort hafi sýn og vilja af hálfu borgarinnar til að tengja borgina betur.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, boðuðu til sameiginlegs blaðamannafundar í Marshall-húsinu úti á Granda í dag. Eyþór vill lækka útsvar úr 14,52 prósentum í 13,98 í fjórum þrepum á kjörtímabilinu. „Það er ekki gott að rukka of mikið þá flytur fólk annað. Við sjáum að margir eru að flytja í önnur sveitarfélög, við ætlum að fjölga hér á ný, endurræsa Reykjavík, þetta er liður í þeirri áætlun á endanum þá fáum við meiri peninga úr þessum hóflegu gjöldum. Þegar styttist til kosninga er alltaf talað um kosningaloforð sem verði svikin seinna, er kominn einhver kosningaskjálfti í ykkur? Nei bara tilhlökkun, ég fór inn í Árborg og lækkaði skatta þrjú ár í röð, það voru fasteignaskattar. Við ætlum að lækka hér í Reykjavík, það er einfaldlega okkar verkefni,“ segir Eyþór. 

Bæði Bjarna og Eyþóri var tíðrætt um samgönguvandann á höfuðborgarsvæðinu sem þeir vilja leysa með ýmsum hætti, fjölga sérakreinum Strætó, fækka ljósastýrðum gatnamótum og Sundabraut fer á samgönguáætlun. „Það hefur einfaldlega skort sýn og vilja af hálfu borgarinnar til þess að tengja borgina betur og ég er aftur að vísa til Sundabrautar í því efni, það skiptir máli að það sé skýr sýn og samstaða að fara í slík verkefni, hvorugur getur án hins verið til að finna lausnir í slíkum málum og hér er borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins að stíga fram með skýran vilja til þess og það er fagnaðarefni. Ég hef starfað með þremur samgönguráðherrum sem allir hafa sagt mér að þetta samtal hafi ekki gengið nægilega vel fram til þessa. Hallar ekki á ríkið í þeim efnum, borgarstjóri hefur talað um borgin hafi verið með Sundabraut lengi á áætlun en aldrei fengið fjármagn frá ríkinu? Það er bara ekki rétt að borgin hafi verið reiðubúin til að setja það mál í forgang,“ segir Bjarni Benediktsson.