Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ætla að krefja ríkið um endurgreiðslu

18.10.2017 - 17:40
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Akureyrarbær hyggst krefja ríkið um endurgreiðslu á rekstrarfé sem bærinn hefur greitt með rekstri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar. Forseti bæjarstjórnar segir að málið fari fyrir dómstóla neiti ríkið að borga.

Akureyrarbær fékk endurskoðunarsvið KPMG til að taka saman upplýsingar um fjárframlög sveitarfélagsins í rekstri öldrunarheimilanna á árunum 2012 til 2016. Þar kom fram að á þessum árum hefur bærinn greitt 843 milljónir króna með rekstrinum, umfram það sem honum ber að greiða.

Greiðslur frá ríkinu ekki fylgt þróuninni 

Í bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar Akureyrarbæjar kemur fram að daggjöld hafi ekki fylgt þeirri launaþróun sem orðið hefur í kjarasamningum á liðnum árum. Því sé svo komið að daggjöld dugi rétt fyrir launum, en annar rekstarkostnaður sé borinn uppi af rekstraraðilum hjúkrunarheimila. „Fyrir liggur að ríkinu ber að annast þessa þjónustu og daggjöld eiga að endurspegla raunverulegan rekstrarkostnað heimilanna sem byggir á þjónustustöðlum sem settir eru af ríkinu,“ segir jafnframt í bókuninni.

Krafa að ríkið greiði fyrir lögbundna þjónustu

Bæjarstjórn hefur falið bæjarstjóra og bæjarlögmanni að leita réttar sveitarfélagsins til greiðslu á þeim kostnaði sem fallið hefur á það vegna reksturs Öldrunarheimila Akureyrarbæjar. „Það er ófrávíkjanleg krafa að ríkið standi undir greiðslum vegna þeirrar þjónustu sem það ber ábyrgð á samkvæmt lögum,“ segir í bókun bæjarstjórnar.

Stjórnvöld karfin um greiðslu á 843 milljónum

Matthas Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar, sagði í samtali við fréttastofu að nú yrði farið með þessa niðurstöðu til stjórnvalda. Fari svo að ríkið samþykki ekki kröfu Akureyrarbæjar, um endurgreiðslu á þessum 843 milljónum, verði henni vísað til innheimtu hjá lögfræðingi og áfram til dómstóla gerist þess þörf. Búið sé að fara rækilega yfir verklag og greiðslur varðandi rekstur öldrunarheimilanna og niðurstaðan sé skýr.

 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV