Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ætla að kæra Hafnarfjarðarbæ

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hafnarfjarðarbæ er ekki heimilt að semja við aðra um akstursþjónustu fyrir fatlaða, meðan samningur er í gildi við Strætó. Lögmaður nokkurra bílstjóra sem sinnt hafa þjónustunni hyggst kæra bæinn til kærunefndar útboðsmála.

Hafnarfjarðarbær hefur lengir verið ósáttur við kostnað sveitarfélagsins vegna ferðaþjónustu fatlaðra. Hann hefur hækkað um hátt í hundrað milljónir króna. Fjölskylduráð bæjarins ákvað um miðjan janúar að fela sviðsstjóra fjölskyldusviðs að gera samning við leigubílastöð um að sjá um akstur fyrir fatlað fólk sem getur nýtt sér leigubíla. Þetta yrði tilraunaverkefni í fjóra mánuði. Lögmaður bílstjóra sem sinnt hafa þjónustunni segir rammasamning í gildi við á þriðja tug bílstjóra um þjónustuna og engin heimild sé í samningnum til að fela öðrum að sinna því. 

„Hafnarfjarðarbær og önnur sveitarfélög eru ekki undanþegin þeirri reglu að samningar skulu standa. Að mínu mati, og okkar mati er þetta algjörlega ólögleg aðgerð.“

Sveinn Andri segir óljóst hvort leigubílstjórar hjá Hafnarfjarðarbæ uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til bílstjóra sem sinni þjónustunni. Þeir sem nú sinna henni hafi uppfyllt öll skilyrði. „Svo kemur einhver geðþóttaákvörðun hjá stjórnmálamönnum um að hætta við það sem búið er að semja. Það er ekki á dagskrá.“

Sveinn Andri býst við viðbrögum fljótlega haldi bærinn ákvörðun sinni til streitu. „Ef bærinn ætlar að standa fast á þessu þá er ekkert annað að gera fyrir mína umbjóðendur en að kæra þetta til kærunefndar útboðsmála. Það verður gert innan mjög skamms tíma væntanlega.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV