Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ætla að grafa upp 40 beinagrindur - myndir

07.07.2015 - 15:37
Frá fornleifauppgreftri í Hofstaðakirkjugarði í sumar. Mynd af facebooksíðu uppgraftarins.
Fornleifafræðingar að störfum í Hofstaðakirkjugarði. Mynd af facebook-síðu verkefnisins. Mynd: Fornleifastofnun - Hofstaðir Excavation Facebook
Sýrueyðing á tönnum, arfgeng slitgigt og tíðar ennisholusýkingar eru meðal þeirra kvilla sem hrjáðu ábúendur á Hofstöðum í Mývatnssveit á landnáms - og þjóðveldisöld. Þetta er meðal þess sem fornleifarannsóknir síðustu ára á kirkjugarðinum á Hofstöðum hafa leitt í ljós.

Áætlað er að ljúka uppgreftri við kirkjugarðinn í sumarlok.  Rannsóknir á kirkjugarðinum hafa staðið síðan 1990, með sex ára hléi á árunum 2004-10. Í sumar er áætlað að grafa upp 40 beinagrindur en alls hafa fundist 142 síðan uppgröftur hófst. Einnig standa yfir rannsóknir á kirkjubyggingum á staðnum. Markmiðið er að varpa ljósi á byggingaraðferðir á kirkjum miðalda auk greftrunarsiða sama tímabils.

Hildur Gestsdóttir stýrir uppgreftri í Hofstaðakirkjugarði og segir að hann hafi gengið vel það sem af er sumri. „Við byrjuðum 22. júní og það er stefnt að því að vera hér í fjórar vikur,“ segir Hildur. „Rannsóknin er styrkt af Fornminjasjóði og svo njótum við stuðnings frá bandarískum háskóla sem sendir til okkar nema til þess að aðstoða við rannsóknirnar.“ Vel hefur viðrað til fornleifarannsókna undanfarið, þótt mývargurinn reyni oft dálítið á þolinmæði vísindamanna sem þurfi að búa sig vel, eins og sjá má á mynd af facebook-síðu fornleifauppgraftarins hér að neðan.

Yes, there are flies

Posted by Hofstaðir excavation on Thursday, 25 June 2015

 


Bein manna og dýra

Alls er búið að rannsaka grafir á yfir 540 fermetra stórum hluta garðsins og nú stendur yfir vinna á 350 fermetra svæði í suður - og vesturhluta hans. Þegar vinnu við kirkjugarðinn lýkur er stefnt að því að rannsaka betur bæjarhólinn utan við kirkjugarðsvegginn. Þar hafa fundist leifar af þeim sem grafnir voru utangarðs. Í óvígðri mold handan veggjarins fannst til að mynda beinagrind ungbarns sem að líkindum hefur verið óskírt þegar það lést. „En vegna þess að garðurinn er utan í bæjarhólnum höfum við átt við ýmsar aðrar minjar,“ segir Hildur. „Þar má til dæmis nefna ruslalög, sem eru auðvitað mjög nytsamleg - dýrabeinafræðingarnir eru sérstaklega spenntir fyrir þeim. Þau gera okkur kleift að rannsaka mataræði og slíkt. Svo höfum við einnig grafið upp syrpu af soðholum þar sem fólk hefur soðið mat með því að grafa holur og elda í þeim með heitum steinum.“ Í ruslalagi fannst til að mynda höfuðkúpa af ketti sem talið er að ábúendur hafi haft sem húsdýr.

I thought I saw a pussy cat?

Posted by Hofstaðir excavation on Friday, 26 June 2015


Nýtist í fjölbreyttum rannsóknum

Ýmislegt er enn ókannað í því safni 142 beinagrinda sem þegar hafa verið grafnar upp. Að sögn Hildar verður hægt að leggjast í fullnaðarúrvinnslu á þeim þegar vinnu á vettvangi lýkur í sumar. Þó hafa beinin þegar nýst í alls kyns rannsóknir og varpað margvíslegu ljósi á líf – og dauða – Mývetninga á landnáms- og þjóðveldisöld. Þar á meðal má nefna beinagrind konu sem þjáðist af illkynja beinmergsæxli en afar fátítt er að krabbamein finnist í fornum beinagrindum. Að sögn Hildar er rannsóknin á krabbameininu líklega ein af tíu útgefnum tilfellum á heimsvísu. Fræðigreinina, sem birtist í Læknablaðinu 2005, má lesa hér

Aðrar rannsóknir á beinagrindunum skýra lýðheilsuáhrif lifnaðarhátta miðaldamanna á Íslandi. Rannsökuð hafa verið ummerki um miklar kinn- og ennisholusýkingar ábúenda sem líklega tengjast ævilangri vist í reykfylltum húsakynnum. Sumir af lífstílstengdum kvillum miðaldamanna eru þó ekki ólíkir þeim sem nútímamenn eiga við að etja. Þannig nefnir Hildur rannsóknir á sýrueyðingu tanna. „Sýrueyðingin er vegna mataræðis - við borðuðum svo mikið af súrmat að það hafði sömu áhrif á tennurnar og kókdrykkja gerir í dag.“

Fjölmargar erfðafræðirannsóknir hafa verið gerðar á beinum úr kirkjugarðinum og orðið efni í mörg meistara- og doktorsverkefni. Sjálf varði Hildur doktorsritgerð um arfgenga slitgigt sem herjaði á Hofstaðamenn en beinin í Hofstaðasafni bera merki um mikla slitgigt í höndum og mjöðmum.

Góð varðveisla í basískum jarðvegi
Þessar rannsóknir eru mögulegar vegna ágætrar varðveislu beinanna.  Basískur jarðvegur á Hofstöðum er forsenda hennar.

Although the preservation at the site is in most instances very good, this isn't always the case, as demonstrated by...

Posted by Hofstaðir excavation on Monday, 6 July 2015

„Varðveislan er misjöfn en hún er að mestu leyti mjög góð,“ segir Hildur. „Það sem stýrir því er að sýrustigið er jákvætt í jarðveginum. Þar sem varðveislan er slæm eru grafirnar ýmist grunnar eða grafið hefur verið niður á bergklöpp svo vatn seytlar um gröfina en kemst ekki í gegn.“ Dæmi um ólíka varðveislu beinagrinda er að finna á meðfylgjandi myndum, fengnum af facebook-síðu uppgraftarins. Hildur segir fyrri myndina dæmi um gröf sem náði niður á klöpp svo varla er annað eftir af henni en skuggi af beinagrind í jarðveginum. Til samanburðar er einstaklega vel varðveitt handarbein úr hvítvoðungi þar sem hvert einasta bein virðist hafa haldið formi.

 

To demonstrate the level of preservation we sometimes see on site, these are neonatal hand bones

Posted by Hofstaðir excavation on Friday, 3 July 2015


Aldargamall fornleifaáhugi
Kirkjugarðurinn að Hofstöðum var uppgötvaður fyrir tilstilli bræðranna Guðmundar og Ásmundar Jónssona, sem bjuggu að Hofstöðum og aðstoðuðu fornleifafræðinga á margvíslegan hátt. Þeir eru nú eru báðir látnir. Bræðurnir mundu þá tíð að hringlaga garðurinn var sýnilegur utan í bæjarhólnum. Þannig var það framundir 1950 þegar jarðvegurinn var sléttaður. Hildur segir það ábendingum bræðranna að þakka að gerðar voru gerðar jarðsögumælingar í hólnum og leiddu þær kirkjugarðinn í ljós. Hann er stór af miðaldakirkjugarði að vera - rétt rúmlega 30 metrar í þvermál. Með gjóskulagagreiningu og kolefnisgreiningu komust vísindamenn að því að fyrstu grafirnar eru frá því seint á tíundu öld og þær síðustu frá því vel fyrir 1300.

Áður höfðu bæjarhúsin að Hofstöðum verið til rannsóknar hjá Fornleifastofnun Íslands en þær hófust 1990. Þar er að finna einn stærsta víkingaaldarskála sem fundist hefur hér á landi.  Sá var reistur fljótlega eftir 950. Áhugi manna á fornleifum að Hofstöðum nær þó lengra aftur því hinn danski Daniel Bruun gerði margvíslegar rannsóknir á skálanum í kringum aldamótin 1900. Auk skálans hafa síðan fundist ýmis minni íveruhús, jarðhýsi, tvær smiðjur og kamar. Rannsóknarvinnu við bæjarhúsin lauk 2002 og kom afrakstur rannsóknanna út á bók 2010.

 Hægt er að fylgjast með uppgreftrinum á facebook-síðu hans.