Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ætla að endurskoða alla starfsemi Fiskistofu

17.01.2019 - 21:06
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Starfsemi Fiskistofu, reglugerðir og lög verða endurskoðuð til að bregðast við óviðunandi eftirliti í sjávarútvegi. Þetta segir sjávarútvegsráðherra. Hann segir að engin leið sé fær til að átta sig á magni brottkasts eins og staðan er í dag.

Óviðunandi eftirlit sem samræmist ekki lögum

Úttekt Ríkisendurskoðunar á eftirliti Fiskistofu varpar ljósi á margvíslegar brotalamir í starfsemi hennar. Skýrslan var unnin að beiðni Alþingis eftir að Kveikur fjallaði um umfangsmikið brottkast og framhjálöndun í íslenskum skipum 2017. Ríkisendurskoðun segir eftirlit Fiskistofu óskilvirkt, veikburða og ekki í samræmi við lög. Fjölmargar ábendingar og tillögur að úrbótum eru tilgreindar í skýrslunni og þess er krafist að stjórnvöld grípi inn í.

Allt kerfið tekið til endurskoðunar

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir allt regluverk Fiskistofu verði endurskoðað, sem og önnur laga- og reglugerðarákvæði þessu tengdu, og það hafi verið kynnt fyrir Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í dag. 

„Við ætlum okkur í mjög mikla vinnu með atvinnugreininni og ekki bara það, heldur að taka líka stjórnsýslu hins opinbera. Fiskistofu, Landhelgisgæslunni, bjóða þeim aðild að þessari vinnu, jafnvel Matvælastofnun,” segir hann. 

Gagnrýna stjórnvöld

Í skýrslunni eru stjórnvöld gagnrýnd fyrir að meta brottkast í sjávarútvegi óverulegt. Kristján segir að það sé ekki hægt að vita hversu mikið brottkastið sé í raun, þar sem það er oftast byggt á huglægu mati. Það þurfi að breytast. 
 
„Ráðuneytið er byrjað að rannsaka það og fóta sig í því að átta sig á í hversu miklu magni þetta er.”

Lagabreytingar mögulegar

Ábendingar Ríkisendurskoðunar verði teknar alvarlega og segist ráðherra munu beita sér fyrir lagabreytingum ef þess þurfi. 

„Ef að mat okkar verður það að við þurfum að breyta lögum þá vissulega mun ég gera það.”

Viðtalið við Kristján Þór Júlíusson má sjá í heild hér að ofan.