Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ætla að bólusetja 45 milljónir barna gegn mislingum

05.02.2020 - 05:43
epa08026199 A medical worker of Myanmar public health department inoculates a girl for measles and rubella during a nationwide vaccination campaign, at Lanmadaw in Yangon, Myanmar, 26 November 2019. The three-day campaign is expected to cover 95 percent of children between the ages of nine months to five and half-years-old. The campaign is aimed at reduce mortality rates of children under the age of five and the country wide eradication of measles and rubella by 2023.  EPA-EFE/LYNN BO BO
 Mynd: epa
Gavi, alþjóðleg baráttusamtök fyrir bólusetningum, tilkynntu í gær að þau hygðust standa fyrir bólusetningu allt að 45 milljóna barna í Asíu og Afríku gegn mislingum á næstu sex mánuðum. Samtökin starfa náið með heilbrigðisyfirvöldum víða um heim og alþjóðastofnunum á borð við Alþjóðaheilbrigðsstofnunina og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Höfuðáhersla verður lögð á bólusetningu viðkvæmasta hópsins; barna undir fimm ára aldri.

Mislingatilfellum hefur fjölgað gífurlega á síðustu árum. 360.000 tilfelli voru staðfest 2018 og 430.000 á síðasta ári, samkvæmt bráðabirgðatölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. „Bóluefnið gegn mislingum er öruggt, skilvirkt og ódýrt - það er engin ástæða til þess að börn séu enn að deyja úr þessum sjúkdómi,“ sagði Seth Berkley, framkvæmdastjóri samtakanna þegar hann kynnti bólusetningarátakið.

„Þótt fyrirsagnirnar fjalli oftast um fjölgun tilfella í Evrópu og Bandaríkjunum þá er það því miður enn svo, að yfirgnæfandi meirihluti dauðsfalla af völdum mislinga verður í fátækustu ríkjum heims,“ sagði Berkley. 

Bólusetningarherferð samtakanna verður hrint af stokkunum í Bangladess, Eþíópíu, Kenía, Mið-Afríkulýðveldinu, Nepal, Sómalíu og Suður-Súdan.