Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ætla að bæta merkingar á matvælum

01.02.2019 - 19:45
Dæmi eru um villandi merkingar í matvöruverslunum, segir formaður neytandasamtakanna. Í dag var undirritað samkomulag um að bæta merkingar á matvælum.

Með nýju samkomulagi á að tryggja betri upplýsingar á umbúðum um framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif. Ásamt ráðherra skrifuðu fulltrúar Neytendasamtakanna, Bændasamtaka Íslands, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu undir plaggið. 

„Það hafa komið upp dæmi um villandi merkingar í matvöruverslunum, sem er mjög miður og ætti ekki að finna sér stað. Það er eitt. En svo náttúrulega er það bara réttur fólks að vita, hvar sem það er, hvort sem það kaupir mat í búð eða á veitingahúsi, að vita hvaðan maturinn er sem það neytir,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.

Næsta skref er að skipa samráðshóp með fulltrúum þeirra sem koma að samkomulaginu. „Það er mikil krafa um það í dag að fólk geti áttað sig betur á uppruna þess sem það hefur hug á að kaupa og þetta er skref í áttina að því að mæta þeim óskum,“ segir Kristján Þór Júlíusson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV