Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Æskulýðsmál: Tvær regnhlífar en engin stefna

80 íslensk börn voru á skátamótinu. - Mynd: Baldur Árnason / Baldur Árnason
Það er engin formleg stefna í æskulýðsmálum hér á landi. Þetta segja formenn tveggja regnhlífasamtaka sem hafa samtals 31 æskulýðsfélag innan sinna vébanda. Nær allur stuðningur ríkisins við málaflokkinn beinist að þremur rótgrónum félögum, þau fá samtals um 200 milljónir. Önnur félög fá einstaka verkefnastyrki. Æskulýðsgeirinn á Íslandi er klofinn og sum félög segjast munaðarlaus í kerfinu. 

Ungmenna samtök og samtök fyrir ungt fólk

Tvö regnhlífarsamtök æskulýðsfélaga eru starfandi hér á landi. Landssamband æskulýðsfélaga, LÆF, og Æskulýðsvettvangurinn, ÆV. 
Aðildarfélög LÆF eru 27 talsins, þetta eru hagsmunafélög ungs fólks á aldrinum 18 til 35 ára, svo sem félög sem starfa að alþjóðlegum
ungmennaskiptum, námsmannafélög, bindindisfélög og ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka. Innan vébanda Æskulýðsvettvangsins eru fjögur rótgróin æskulýðsfélög sem einkum beina sjónum sínum að starfi með börnum; KFUM og K, Bandalag íslenskra skáta, Ungmennafélag Íslands og Slysavarnarfélagið Landsbjörg. Það eru þessi rótgrónu félög sem fá um 90% fjárins sem ríkið ver til æskulýðsmála. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Sigurður, formaður LÆF og Hermann, formaður ÆV.

 

Ungt fólk geti ekki látið til sín taka

Hermann Sigurðsson, formaður ÆV og Sigurður Sigurðsson, formaður LÆF sammælast um að stefnuleysi ríki í æskulýðsmálum hér á landi. Sigurður segir ungt fólk ekki hafa tækifæri til þess að láta til sín taka í samfélaginu. 

„Það er fullt af samtökum þarna úti sem eru að reyna að hafa áhrif en vegna fjárskorts og stefnuleysis er ekki mikið um tækifæri til að láta að sér kveða.“

Hermann segir að hér ríki ákveðið stefnuleysi en að það standi til bóta. Hann situr í Æskulýðsráði ríkisins. Fyrr í þessum mánuði skilaði ráðið tillögum að aðgerðaáætlun í æskulýðsmálum inn á borð ráðherra. Hermann vonast til þess að áætlunin verði að formlegri stefnu. Hann segir það til trafala að ekki liggi fyrir hvað nákvæmlega felist í hugtakinu æskulýðsfélag eða æskulýður. 

„Það vantar skilgreiningar fyrir málaflokkinn, nákvæmlega hvað er hvað. Þegar það verður komið á hreint getum við farið að útfæra fleiri hugmyndir.“

Sigurður bætir við að það sé lítil yfirsýn, ekki liggi fyrir hvernig málaflokknum vegni.

Stefnuleysi liður í falleinkunn

Pólitísk þátttaka ungs fólks hér á landi fær falleinkunn í nýrri rannsókn á vegum Skrifstofu bresku samveldislandanna sem tekur til stöðu ungs fólks á heimsvísu. Við stöndum nágrannaríkjum okkar langt að baki. Í rannsókninni er pólitísk þátttaka ungs fólks meðal annars metin út frá því hvort stjórnvöld hafi mótað heildstæða stefnu í málefnum ungs fólks. Hér á landi er engin slík stefna til. Það skýrir lága einkunn Íslands að einhverju leyti. Hvað varðar meint stefnuleysi í málaflokknum svarar ráðuneytið því til að málefni ungs fólks séu í eðli sínu þverfaglegur málaflokkur. Heildstæð stefna í málefnum ungs fólks sé ekki forsenda þess að tryggja þátttöku þess, slík stefna sé til dæmis ekki í gildi í Danmörku. Málaflokkurinn sé ekki miðstýrður og það veiti sveitarfélögum svigrúm til þess að vera með sína eigin stefnu og tryggja þjónustu við ungt fólk í nærsamfélaginu. 

Áður var regnhlífin aðeins ein

Áður var regnhlífin yfir íslenskum æskulýðssamtökum aðeins ein en það breyttist fyrir um áratug. Upp kom ágreiningur. UMFÍ, KFUM og K, Bandalag íslenskra skáta og Slysavarnarfélagið Landsbjörg klufu sig í framhaldinu út úr samstarfinu og spenntu upp sína eigin regnhlíf, Æskulýðsvettvanginn. Ágreiningurinn sneri að því hvort pólitísk félög ættu heima innan samtakanna. 

„Á þeim tíma vildum við meina að þarna væri verið að beita pólitík í röngum tilgangi innan LÆF. Það voru þarna inni einingar sem við töldum ekki tilheyra skilgreiningu æskulýðsfélaga. Þar af leiðandi varð þessi klofningur.“

Segir Hermann. 

Ekki gagnkvæmur vilji til sameiningar

Landssambandið hafði á sér pólitískan stimpil, þótti vinstrisinnað. Nú situr formaður sem ekki er pólitískur. Samskipti og samstarf æskulýðsrisanna tveggja eru góð að sögn formannanna. Afstaða þeirra til þess að sameina félögin á ný er þó misjöfn. Sigurður, formaður LÆF, myndi gjarnan vilja að félögin sameinuðust á ný. Hermann, formaður ÆV, er ekki á sama máli, félögin séu að sinna gjörólíkum hlutum.

Aðkoma ungs fólks að stjórnum mismikil

Félögin eru vissulega ólík. LÆF er samráðs- og samstarfsvettvangur fyrir hagsmunasamtök ungs fólks, málsvari ungs fólks gagnvart stjórnvöldum og fulltrúi íslenskra ungmenna í ýmsu erlendu samstarfi. Aðildarfélögunum er einkum stjórnað af ungu fólki. Aðildarfélögum ÆV er stjórnað af fullorðnu fólki en ungt fólk hefur aðkomu að ákvarðanatöku og stefnumótun, svo sem í gegnum ungmennaráð. Þá sinna aðildarfélög ÆV einnig fullorðinsstarfi þó megináherslan sé á barnastarf.

Leggja áherslu á forvarnir gegn einelti og kynferðisbrotum

Æskulýðsvettvangurinn sinnir fyrst og fremst hagsmunagæslu barna og ungmenna og heldur úti fræðslu og forvarnarstarfi. Svo sem um hvernig megi koma í veg fyrir einelti og kynferðisbrot og hvernig taka eigi á slíkum málum. Það starfrækir einnig sérstök fagráð sem lúta að þessum málaflokkum. 

„Þegar við stofnuðum Æskulýðsvettvanginn, 2012 vantaði úrræði í þeim efnum. Við erum fyrst og fremst að fókusa á verndun barna.“

Mennta- og menningarmálaráðuneytið starfrækir fagráð vegna eineltismála sem upp koma í grunnskólum, félagsmiðstöðvum og frístundastarfi. Fagráðin sem æskulýðsvettvangurinn starfrækir eru af sama meiði en lúta eingöngu að málum sem koma upp í starfi aðildarfélaga þess. Hermann telur fyrirkomulagið óheppilegt. Hann er þeirrar skoðunar að samræma eigi þessi fagráð, þau eigi ekki heima hjá Æskulýðsvettvangnum heldur hjá ríkinu. Hann óttast að fjármagnið til fagráðanna og hagsmunagæslustarfs ÆV kæmi til með að þynnast út, sameinaðist það LÆF. 

„Við erum allavega ekki tilbúin til að ræða eitt eða neitt fyrr en það er búið að setja þessi fagráð í viðeigandi farveg, þá viljum við sjá að ríkið sé með samræmt fagráð fyrir æskulýðsmál, íþróttamál og grunnskóla svo við séum með sömu aðgerðaráætlun og sömu úrræði.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Fagráðin eru veigamikill þáttur í starfsemi ÆV.

Aðildarfélög LÆF fá engin bein framlög

Framlög ríkisins til æskulýðsfélaga eru ekki föst, ríkið gerir samstarfssamnings til eins árs við þau félög sem það styrkir. Bein framlög ríkisins til Landssambandsins námu í ár fimm milljónum og framlögin til Æskulýðsvettvangsins námu sex milljónum. Stuðningurinn við regnhlífasamtökin tvö er því frekar jafn. Öðru máli gegnir um framlög til aðildarfélaga þeirra. Af þeim 225 milljónum króna sem ríkið varði til æskulýðsmála í ár runnu 205 milljónir til aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins. Rúmlega helmingur framlaga rann til Ungmennafélags Íslands, UMFÍ, 117 milljónir en til viðbótar við það fær UMFÍ lottótekjur, fimmtung af ágóða Íslenskra getrauna. Bandalag íslenskra skáta hlaut 51 milljón og KFUM og KFUK fengu 37 milljónir í sinn hlut. Aðildarfélög Landssambands æskulýðsfélaga fengu engin bein framlög en þau geta, líkt og aðildarfélög Æskulýðsvettvangsins sótt um styrki úr Æskulýðssjóði, sem er samkeppnissjóður. Æskulýðsráð ríkisins, sem í sitja fulltrúar stjórnvalda og æskulýðsfélaga, fékk eina milljón, framlög til ráðsins hafa farið lækkandi síðastliðinn áratug. Ráðið skipar stjórn Æskulýðssjóðs. Níu milljónir runnu í sjóðinn í ár en hann hefur rýrnað nokkuð síðastliðin þrjú ár. Menntamálaráðherra gerði grein fyrir því hvernig framlög úr sjóðnum dreifðust í svari við fyrirspurn Ástu Guðrúnar Helgadóttur, þingmanns Pírata. Árið 2015 rann ein milljón og 850 þúsund krónur til Landssambands æskulýðsfélaga eða aðildarfélaga þeirra. 4,7 milljónir runnu til Æskulýðsvettvangsins eða aðildarfélaga hans. Restin rann til ungmennaráðs Barnaheilla, ungliðahreyfingar Samtakanna 78 og æskulýðsstarfs Þjóðkirkjunnar. Við þetta má bæta að ríkið varði í ár 10 milljónum til æskulýðsrannsókna.

„Fólk gefst upp og brennur út“

Sigurður segir að vissulega fái sum félögin styrki annars staðar frá, ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna séu til dæmis styrktar af flokkunum. Sum félög LÆF fái þó ekki krónu. Hann segir að stækka þurfi kökuna.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

„Flest félögin okkar fá ekki krónu og það truflar starf þeirra gríðarlega að þurfa að elta peninga daginn út og daginn inn til þess að lifa af, hreinlega. Það hefur áhrif á samfélagslega þátttöku ungs fólks því fólk gefst upp og brennur út. Okkar sýn er að stækka kökuna, að ÆV haldi sínu en ungt fólk 18 til 35 ára fái líka fjármuni til þess að auka lýðræðisþátttöku og láta til sín taka í samfélaginu.“

Hermann tekur undir það að veita þurfi auknu fé í málaflokkinn og báðir sammælast þeir um að Norðurlöndin standi Íslandi framar í þessum málum. 

LÆF vilja fá eins og ÆV og ÆV vilja fá eins og ÍSÍ

Forsvarsmenn beggja félaga telja að ríkið geri upp á milli íþróttastarfs og æskulýðsstarfs í fjárveitingum sínum. Hermann bendir á að frá aldamótum hafi styrkveitingar til Skátanna þrefaldast, styrkveitingar til KFUM og K fjórfaldast og styrkveitingar til UMFÍ rúmlega fimmfaldast. Á sama tíma hafi fjárveitingar til Íþróttasambands Íslands, ÍSÍ, tæplega nífaldast.

Fjárhagsstaða stærstu félaga sögð góð

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjárframlög til æskulýðsfélaga frá árinu 2013 kemur fram að fjárhagsstaða stærstu æskulýðssamtakanna hér á landi virðist góð, eignir meiri en skuldir og hlutfall eiginfjár hátt. Samkvæmt nýútgefnum ársreikningi UMFÍ var afkoma félagsins jákvæð um 37 milljónir. Er virkilega þörf á auknu fjármagni? Hermann og Sigurður sammælast um að svo sé. 

„Við erum kannski bara orðin of góð í að nýta of lítið fjármagn, við sjáum tækifæri fara framhjá okkur á hverjum degi því við höfum ekki tíma eða fjármagn til að sinna þeim,“

segir Sigurður.  

„Við sníðum stakk eftir vexti en það þýðir ekki að við þurfum að forgangsraða. VIð viljum gera meira,“

Segir Hermann. 

Óljóst hvað nákvæmlega veldur aðstöðumun

En hvers vegna er þessi aðstöðumunur á milli til dæmis Ungra umhverfissinna og Skátanna? Á milli ungliðahreyfingar Unicef og UMFÍ?  Æskulýðslög snúa einkum að fólki á aldrinum 6-25 ára en aðildarfélög LÆF taka til fólks á aldrinum 18-35. Hluti meðlima í aðildarfélögum LÆF fellur því ekki undir lögin. Þá segir í lögunum að einungis landssamtök æskulýðsfélaga, félög sem eru með starfsemi um allt land, geti fengið fjárframlög úr ríkissjóði, sveitarfélögin styðji við svæðisbundin félög. Undir lögin heyra félög og félagasamtök sem sinna æskulýðsmálum á frjálsum áhugamannagrundvelli, fjármagna sig sjálf og byggjast fyrst og fremst á sjálfboðastarfi. Þessi grein virðist ekki útiloka hagsmunasamtök ungs fólks.

Ekki annað fé til ráðstöfunar

Spegillinn sendi ráðuneytinu fyrirspurn um aðstöðumun félaganna og fékk þau svör að ráðuneytið styddi við heildarsamtök frjálsra félagasamtaka, UMFÍ, Skátana og KFUM og K. Þessi framlög geri félögunum kleift að starfa um allt land og stuðla að þátttöku barna og ungmenna í æskulýðsstarfi. Ekki sé annað fé til ráðstöfunar til frjálsra félagasamtaka. Það hversu miklu skattfé sé varið til málaflokksins sé háð ákvörðun fjárveitingarvaldsins hverju sinni. 

Samfés utangátta

Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - Samfés

Við þetta bætist að sum samtök upplifa sig utangátta. Samfés, samtök félagsmiðstöðva á Íslandi, vilja njóta sambærilegs ríkisstuðnings og stóru rótgrónu félögin en ríkið telur heppilegra að sveitarfélögin sjái um þau. Svava Gunnarsdóttir, formaður samtakanna, segir þau munaðarlaus í kerfinu, staða samtakanna sé að því leyti ólík stöðu systursamtaka annars staðar á Norðurlöndunum. Svava segir að þetta séu frjáls félagasamtök rekin að stærstum hluta af sjálfsaflafé. Gjöld aðildarfélaga nægi til að fjármagna um 10% starfseminnar. Samtöki eru með 118 aðildarfélög um allt land. Þau hafa að sögn Svövu sóst eftir fjárveitingum og samstarfi við Menntamálaráðuneytið en ekki haft erindi sem erfiði. Hún segir óskiljanlegt að samtökunum sé ekki hleypt inn í kerfið. Hún telur stjórnvöld ekki sinna ungu fólki nægilega vel. Börn á aldrinum 10 til 12 ára og 16 til 18 ára virðist til dæmis hafa gleymst í kerfinu.

Segja ráðuneytið brjóta á réttindum sínum

Hún telur að ungt fólk geti haft áhrif með ýmsum hætti, gefið kost á sér í ungmennaráð stofnana og félagasamtaka. Það sé þó tilfinning þeirra að ekki sé á þau hlustað. Í byrjun október komu 400 unglingar saman á landsþingi Samfés, þau sögðu stjórnvöld ekki hlusta á unglinga, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þeirra til að ná eyrum þeirra. Niðurstaða þingsins var að senda ályktun til Menntamálaráðuneytisins þar sem stjórnvöldum er gefið að sök að hafa brotið gegn 12. grein Barnasáttmálans. Hún fjallar um að ekki megi taka neinar ákvarðanir án samráðs við ungt fólk, sérstaklega er tiltekið að ekki hafi verið leitað samráðs ungs fólks þegar ákvörðun var tekin um að breyta einkunnakerfi í grunnskólum og stytta framhaldsskólann. 

Mæltu með skýrari umgjörð

Í tíð síðustu ríkisstjórnar fól Alþingi mennta- og menningarmálaráðherra að láta gera óháða heildarúttekt á ráðstöfun opinberra fjárveitinga til starfsemi æskulýðs- og ungmennasamtaka. Kanna átti hversu stór hluti fjárveitinga nýttist til rekstrar- og stjórnunarkostnaðar, hversu stórum hluta væri varið til verkefna sem nýttust ungmennum beint og hversu mikið ungt fólk kæmi að stefnumótun og ákvarðanatöku innan samtakanna. Loks átti að bera stöðuna hér saman við stöðuna á Norðurlöndunum. Ríkisendurskoðun skilaði úttekt um málið vorið 2013. Þar kom fram að verklag stjórnvalda við úthlutun styrkja til æskulýðsmála væri almennt að komast í gott horf,  þeim væri úthlutað á grundvelli umsókna og faglegt mat lægi þeim til grundvallar. Þau félög sem hæsta styrki hlutu gerðu grein fyrir því hvernig fjárveitingum var varið og hver hlutdeild ungs fólks væri bæði í starfinu almennt og í stjórnum. Misjafnt var hversu ítarlegar upplýsingar félögin gátu veitt um þetta. Árið 2010 voru ungir þátttakendur í því starfi sem ríkið styrkir helst á bilinu frá 60 til 70 þúsund talsins. Þess ber þó að geta að félögunum bar ekki saman um hvernig skilgreina skyldi ungmenni. Í skýrslunni kom fram að fjöldi þátttakenda í aðildarfélögum LÆF lægi ekki fyrir. Ríkisendurskoðun beindi þeim tilmælum til stjórnvalda að þau gerðu samninga við helstu æskulýðssamtök landsins þannig að umgjörðin um framlög ríkisins til þeirra yrði skýrari. Félögin yrðu skylduð til að veita upplýsingar um hversu stór hluti fjármagnsins sem ríkið veitir þeim fer í að standa undir stjórnun og skrifstofuhaldi og hversu stór hluti nýtist í ákveðin verkefni. Sömuleiðis þyrftu þau að veita upplýsingar um fjölda og aldursdreifingu þeirra sem taka þátt í starfinu. 

Renna framlögin til ungs fólks?

Samkvæmt samningum ráðuneytisins við félögin frá þessu ári eiga þau að skila ráðuneytinu áætlun um helstu starfsmarkmið félagsins og það hvernig framlaginu verði ráðstafað. Undir lok samningstímabilsins eiga þau svo að skila ráðuneytinu greinargerð um verkefnastöðu og hvernig fjármagni var ráðstafað. Í samningum ríkisins við KFUM og K, Bandalag íslenskra skáta og Landssamband Æskulýðsfélaga kemur fram að markmiðið með samningnum sé að tryggja að félögin geti unnið í þágu barna og ungmenna. Í samningnum við UMFÍ er ekki tekið sérstaklega fram að starfið skuli beinast að ungu fólki. Í samningunum er ekki að finna ákvæði um að ungt fólk skuli hafa aðkomu að ákvarðanatöku eða stefnumótun á vegum félaganna. Þá er þar ekki að finna upplýsingar um hvort fjárframlög taki mið af fjölda ungra félagsmanna. Ráðuneytið hefur ekki svarað spurningum Spegilsins þar að lútandi. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að árið 2010 hafi um 70 þúsund börn tekið þátt í starfi samtakanna þriggja sem mest fé fengu. Upplýsingar um heildarfjöldann nú virðast ekki liggja á lausu. 

Fullorðinsstarfið sjálfbært

Tómas Torfason, framkvæmdastjóri KFUM og K, segir framlög ríkisins nýtast til þess að halda úti miðlægri skrifstofustarfsemi, halda utan um erlent samstarf og þjálfa starfsmenn í æskulýðsstarfi sem margir eru ungir að árum. Þeir þurfi til dæmis að vita hvernig bregðast eigi við vakni grunur um að barn sé vanrækt. Um 8000 börn og unglingar taka þátt í starfi samtakanna, sum í skipulögðu starfi, önnur í sumarbúðum. Hann segir fullorðinsstarf samtakanna sjálfbært. Tómas segir að án ríkisstyrks stæðu samtökin mjög illa. Oft sé auðsóttara að fjármagna ýmis verkefni en þá miðlægu starfsemi sem þurfi að vera til staðar til að halda utan um þau. Þá segir hann samtökin skila ríkinu miklu í formi skatta og gjalda, mun meiru en ríkið greiðir til þeirra. Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, upplýsingafulltrúi UMFÍ, segir fjármagnið sem félagið fær frá ríkinu fara í rekstur aðalskrifstofu, til aðildarfélaganna og í ýmis verkefni, svo sem til þess að halda Unglingalandsmót UMFÍ og starfrækja ungmennaráð. Það hvað nýtist börnum og hvað fullorðnum hafi ekki verið sundurliðað sérstaklega en ljóst sé að meginþorri ríkisfjárins nýtist börnum og ungmennum. Landsmót 50 ára og eldri sé til dæmis ekki fjármagnað af ríkinu. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV