Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Æ erfiðara að gegna skyldum sveitarfélags

30.12.2018 - 14:30
Hreppsnefndarmaður í Árneshreppi segir hreppsnefnd vanhæfa í öllum málum enda sveitarfélagið mjög fámennt. Engin takmörk eru fyrir hve fámenn sveitarfélög mega vera. Stjórnvöld leggja áherslu á að fækka fámennum sveitarfélögum og styrkja. 

Leggur áherslu á að fækka sveitarfélögum

Sama hversu fámenn sveitarfélög eru þá hafa þau vissum skyldum að gegna. „Árneshreppur er kannski gott dæmi um það hversu erfitt er að halda uppi venjulegri þjónustu venjulegri stjórnsýslu í svo litlu samfélagi og þess vegna höfum við verið að leggja áherslur á, meðal annars, á sameiningar sveitarfélaga til að það sé stærra bakland að baki öllu því sem þarf að gera í sveitarfélagi.“

Vanhæf í öllum málum

Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag landsins. Tæplega fimmtíu manns eiga lögheimili Árneshreppi en innan við tuttugu fasta búsetu, margir þeirra gegna störfum fyrir sveitarfélagið og þá er stór hluti þeirra í hreppsnefnd. „Við erum of fámenn og nándin er of mikil milli fólks til að taka ákvarðanir í ýmsu í svona litlum sveitarfélögum. Það má eiginlega segja að við séum vanhæf í öllu sem við erum að gera,“ segir Guðlaugur Agnar Ágústsson, varaoddviti Árneshrepps.

Sveitarfélag ákveður sjálft hvort það vilji sameinast

Engar reglur eru um lágmarksstærð sveitarfélaga og Sigurður Ingi bendir á að það sé undir sveitarfélaginu sjálfu að ákveða hvort það sameinist öðru sveitarfélagi: „Það verða íbúar að velja sjálfir eins og við höfum haft það til þessa, að það er grasrót sveitarfélagsins, sveitarstjórnin, sem tekur ákvörðun um það hvort hún óski eftir því að hefja sameiningaviðræður við aðra.“ Engin áform eru um að Árneshreppur sameinist öðrum sveitarfélögum en oddviti sveitarfélagsins útilokar ekki að svo verði í framtíðinni. „En það þarf líka að vera eitthvað sem tryggir okkur það að við stöndum jafnfætis því fólki sem við ætlum að sameinast,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps.

Verði skilgreint hvað þarf til að vera sveitarfélag

Sigurður Ingi bendir á að nú sé verið að setja á fót starfshóp sem á að starfa með sambandi íslenskra sveitarfélaga að framtíð og eflingu sveitarstjórnarstigsins. „Og ég sé fyrir mé að eitt að því sem kemur útúr þeim starfshópi væri einhver skilgreining á því hvað þarf til að vera sveitarfélag.“