Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Áður óþekktir staðir á yfirborði í Amazon

28.03.2018 - 05:57
epa03895405 A photograph made available on 04 October 2013 shows the river Tiputini as it passes by the northern border of Yasuni National Park in Ecuador, 16 May 2007. The Ecuadoran Congress approved on 03 October 2013 new drilling for oil development
 Mynd: EPA - EFE
Vísindamenn hafa fundið yfir 80 fornar borgir, bæi og þorp á svæðum í Amazon sem áður voru talin með öllu óbyggð. Talið er að hátt í milljón manna hafi búið þar fyrir nokkrum öldum.

Fornleifafræðingar fundu byggðu svæðin á Tapajos vatnasvæðinu. Svæðin voru allt frá pínulitlum þorpum upp í 19 hektara landsvæði. Byggðirnar fundust fyrst með gervihnattamyndum. Þær gáfu skýra sýn á hvað leyndist undir trjánum eftir skógarhögg. Hópur fornleifafræðinga skoðaði 24 svæðanna. Þar fann hópurinn leirmuni, slípaðar steinaxir, og augljóst var af jarðveginum að þar hafi menn haldið til í talsverðan tíma. Samkvæmt aldursgreiningu var byggð þar á fyrri hluta 15. aldar. Mælingar og rannsóknir vísindamannanna sýna að á milli hálf og ein milljón manna hafi búið við syðri brún Amazon á þessum tíma. Þeim hafi svo farið ört fækkandi eftir komu Evrópubúa.

Nánar má lesa um rannsókn fornleifafræðinganna á svæðinu í vísindaritinu Nature Communications. Að sögn breska dagblaðsins Guardian eru miklar líkur á að fleiri áður óþekkt byggð svæði eigi eftir að koma upp á yfirborðið á næstunni. Samkvæmt útreikningum vísindamanna gætu verið yfir 1300 þorp á um 400 þúsund ferkílómetra svæði.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV