Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Aðstoðarmenn þrýstu á lögreglustjóra

26.08.2014 - 13:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Þórey Vilhjálmsdóttir og Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmenn innanríkisráðherra, þrýstu á Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um að senda frá sér yfirlýsingu þar sem hann vísaði frétt DV á bug. Jón Steinar Gunnlaugsson setti sig einnig í samband við hann.

Hætti ekki vegna afskipta ráðherra - en fékk „dágóðar gusur“
Tilefnið að rannsókn Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, á hugsanlegum afskiptum innanríkisráðuneytisins af rannsókn lögreglu á lekamálinu var frétt DV um að Stefán hefði ákveðið að hætta sem lögreglustjóri vegna afskipta ráðherra. Tryggvi spurði Stefán því út í efnisatriði fréttarinnar og hvort hún hefði vakið einhver viðbrögð í ráðuneytinu.

Umboðsmaður segir í bréfi sínu til ráðherra í gær að Stefán hafi tekið skýrt fram í fyrsta samtali þeirra tveggja að hann hefði ekki hætt vegna afskipta ráðherra. Hann hefði verið búinn að lýsa vilja sínum til að breyta um starfsvettvang áður en að rannsókninni kom. „L [Stefán] tók líka fram að þér hefðuð ítrekað það margoft í samtölum að þér væruð ekki að skipta þér af rannsókninni og væruð „ekki að reyna að hafa áhrif á rannsóknina og annað í þeim dúr en svo kom svona dágóð gusa af gagnrýni í framhaldinu"," segir í bréfi umboðsmanns

Aðstoðarmenn vildu að Stefán sendi frá sér yfirlýsingu
Þegar umboðsmaður Alþingis spurði lögreglustjóra hvort innanríkisráðherra hefði óskað eftir ákveðnum viðbrögð svaraði Stefán svo: „Það voru nú aðallega aðstoðarmennirnir hennar sem settu fram óskir um að ég myndi þarna á þriðjudeginum þegar þetta birtist senda frá mér einhverja yfirlýsingu um þetta mál þar sem ég ætti að hafna öllu þessu sem þar kom fram. Ég sagði að í fyrsta lagi hefði ég aldrei sent frá mér einhverjar yfirlýsingar, ég bara væri í símaskránni, síminn minn væri opinn, fjölmiðlamenn hringdu í mig jafnt á nóttu sem degi og ég ætlaði ekki að fara að taka upp á því á síðustu dögum í embætti að fara að senda frá mér yfirlýsingar og svara ekki símtölum þeirra þannig að ég myndi bara svara þeim ef þeir hringdu. Ég setti síðan inn á Twitter-síðu sem ég er með stutt innlegg um það að ég hefði ekki hætt út af ráðherranum heldur af öðrum ástæðum. Það var alveg skýrt að þau vildu mjög gjarnan að það kæmi eitthvert innlegg frá mér inn í þessa umræðu alla og einhverjar yfirlýsingar sem komu síðan frá ráðherranum. Þannig að ég hef fengið símtöl frá báðum aðstoðarmönnunum og ráðherra eftir að þetta allt saman fór í gang."

Höfðu bæði réttarstöðu sakbornings
Báðir aðstoðarmenn Hönnu Birnu, þau Þórey og Gísli Freyr, höfðu réttarstöðu sakbornings við yfirheyrslur hjá lögreglu. Tryggvi spyr Hönnu Birnu hvort rétt sé að þau hafi rætt við Stefán um viðbrögð við frétt DV og hvort þau samtöl hafi farið fram með hennar vitneskju. „Ég óska því eftir að þér lýsið afstöðu yðar til þess hvernig þessi samtöl þeirra við lögreglustjórann samrýmast þeirri stöðu sem þeir höfðu við umrædda rannsókn lögreglu og hæfi þeirra til að koma að málum sem starfsmenn ráðuneytisins.“

Fyrrverandi hæstaréttardómari spyr spurninga
Umboðsmaður hefur eftir Stefáni að Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, hefði haft samband við hann. Taldi Stefán að hann hefði verið a aðstoða við að skrifa svarbréf ráðherra. Jón Steinar hefði spurt spurninga um efnisatriði þess bréfs og hvort Stefán gerði athugasemdir. Stefán sagði umboðsmanni að hann hefði svarað því svo til að hann gerði ekki athugasemdir við bréfið en að það mætti bæta einu og öðru við.

Bréf umboðsmanns Alþingis til innanríkisráðherra

[email protected]