Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Aðstoðarmaður Sigmundar hringdi í ritstjórann

05.06.2016 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RÚV
Aðstoðarmaður fyrrverandi forsætisráðherra segir að það hafi verið hann en ekki blaðafulltrúi ráðuneytisins sem hafði samband við ritstjóra sænsks fréttaskýringarþáttar eftir viðtal við forsætisráðherra. Hann þvertekur fyrir að hafa reynt að koma í veg fyrir birtingu viðtalsins. Ritstjórinn stendur við frásögn sína og segir yfirmann sérstakra rannsóknarverkefna sem hlustaði á síðari hluta símtalsins á hátalara einnig hafa heyrt aðstoðarmanninn krefjast þess að viðtalið birtist ekki.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, fór hörðum orðum um þá fjölmiðla sem komu að viðtali við sig í Ráðherrabústaðnum sem var sýnt í Kastljósþætti í byrjun apríl. Þetta gerði hann á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gær. Í viðtalinu var fjallað um tengsl hans við aflandsfélagið Wintris. Sigmundur sagði að svo virtist sem fréttamennirnir hefðu unnið eftir fyrirframákveðnu handriti og svör hans ekki skipt máli. Fréttastofa hefur óskað eftir viðtali við Sigmund Davíð vegna þessa.

Reykjavík Media birti síðar í gær yfirlýsingu með afritum af tölvupóstum þar sem Sigmundur Davíð var beðinn um viðtal, gögn og upplýsingar vegna félagsins Wintris. Því hafi Sigmundur ekki orðið við. Í yfirlýsingunni segir að blaðafulltrúi forsætisráðherra hafi hringt í Nils Hanson, ritstjóra Uppdrag Granskning, sænska fréttaskýringaþáttarins sem vann að málinu með Reykjavík media og krafist þess að sá hluti viðtalsins sem sneri að Wintris yrði ekki birtur.

Þvertekur fyrir að hafa reynt að stöðva birtingu

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, sagði við fréttastofu í morgun að það hefði verið hann en ekki blaðafulltrúi sem hefði hringt í sænska ritstjórann. Það staðfestir Hanson. Jóhannes segist aðeins hafa komið óánægju sinni með viðbrögð fjölmiðlamannanna og aðdraganda viðtalsins á framfæri en þvertekur fyrir að hafa reynt að koma  í veg fyrir birtingu þess.

Tveir hlustuðu á Jóhannes

Fréttastofa náði tali af Hanson rétt fyrir hádegisfréttir í útvarpi. Hann var þá ekki með gögn sín fyrir framan sig en sagði að samkvæmt sínu minni hefði Jóhannes Þór reynt að stöðva birtinguna. Ritstjórn þáttarins tæki hins vegar sínar eigin ákvarðanir um hvað yrði birt og hvað ekki. Hanson bar þetta síðan undir Fredrik Laurin, yfirmann sérstakra rannsóknarverkefna, sem hlustaði á síðari hluta samtalsins og hafði þá samband við fréttastofu. Hanson sagði að Laurin hefði hlýtt á síðari hluta samtalsins eftir að það var sett á hátalara og hann minnist þess einnig að Jóhannes Þór hefði krafist þess að viðtalið yrði ekki birt. Báðir hlustuðu á hann lýsa óánægju sinni með starfsaðferðirnar.