Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Aðstoðarmaður ráðherra biðst afsökunar

21.06.2013 - 17:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að hún ein beri ábyrgð á því að fundarboð á annan forsvarsmanna undirskriftasöfnunar gegn breytingum á veiðigjöldum hafi farið á yfirmann annars forsvarsmannsins.

Helga Sigurrós segir í yfirlýsingu sem hún sendi fjölmiðlum að það hafi verið fyrir hennar mistök að yfirmaður Agnars Kristjáns Þorsteinssonar hafi fengið fundarboð sem var ætlað Agnari. Hún segist hafa reynt að ná í Agnar og Ísak Jónsson, hinn aðstandanda söfnunarinnar, í gegnum síma en án árangurs. Þá hafi hún ákveðið að senda þeim tölvupóst. Hún hafi fundið tvö netföng sem hún taldi tilheyra Agnari og sent skeyti á þau bæði. Annað netfangið hafi þó verið netfang yfirmanns hans og það hafi hún ekki uppgötvað fyrr en síðar.

Yfirlýsing Helgu Sigurrósar:

Vegna umræðu um boðun forsvarsmanna undirskriftarsöfnunar um óbreytt veiðigjald vil ég koma því á framfæri að ég boðaði til fundarins.

Upphaflega reyndi ég að ná í forsvarsmenn söfnunarinnar í síma en án árangurs. Þeir höfðu áður komið fram í fjölmiðlum undir nafni og mér var því kunnugt um hverja ég vildi ná í. Í framhaldi af því reyndi ég að finna netföng sem ég gæti haft samband við. Ég sendi á tvö netföng sem ég fann og taldi tilheyra viðkomandi aðila. Í pósti mínum ávarpa ég með bæði upphafs og millinafni og býð til fundar með ráðherra og mæli fyrir tíma.

Mér finnst afar leitt, að komið hefur í ljós, að annað netfangið sem ég taldi vera rétt tilheyrði yfirmanni þess aðila sem ég vildi ná sambandi við. Ætlun mín var engin í þá átt að tala við nokkurn annann en hann eða sverta eða reyna að koma á óorði að nokkru leyti. Ráðherra var sjálfur ekki staðnum, en bað mig fyrir verkinu. Ég ber virðingu fyrir fólki sem hefur hugsjón og sýnir þjóðfélagsmálum áhuga. Um hrein mistök af minni hálfu var að ræða, ég átti rösklegan dag í gær, ég vandaði ég ekki nægilega til verka og gerði mistök. Ég bað viðkomandi afsökunar um leið og mér var málið kunnugt, þ.e. á opnum fundi um undirskriftarsöfnunina í dag og óska þess að þetta hafi ekki neikvæðar afleiðingar fyrir hann.