Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Aðstæður í Holuhrauni óútreiknanlegar

04.09.2014 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Eitraðar lofttegundir, flúgandi hraunmolar og hætta á skyndilegum flóðum gera aðstæður í Holuhrauni óútreiknanlegar. Litlu munaði að ljósmyndari yrði innlyksa í vatnavöxtum á hættusvæðinu í gær.

Alla langar að sjá gosið og myndatökufólk laðast að því eins og mý að mykjuskán. Vissulega er gosið í Holuhrauni fallegt en eldstöðvarnar eru lokaðar öllum nema vísindamönnum og fjölmiðlafólki. Íslenskir fjölmiðlamenn fara þar inn á eigin ábyrgð og þurfa ekki að vera með leiðsögumanni líkt og erlendir starfsbræður þeirra.

Í kröppum dansi

Í gær voru allir kallaðir í skyndi af svæðinu vegna ótta við flóð frá Dyngujökli. Páll Stefánsson, ljósmyndari og ritstjóri Iceland Review, var heppinn að fá boðin því hann vissi ekki af vatnavöxtum í flæðunum við syðsta gíginn en þeir voru vegna leysinga. „Þegar ég er á leiðinni til baka munaði mjóu að ég hefði orðið innlyksa vegna þess að það hafði flætt svo mikið vatn. Ef kallið hefði komið klukkutíma seinna þá hefði ég ekki komist lönd eða strönd. Ég hefði kannski hitað mér mat í gígnum; þeir segja að þetta séu 1000 gráður sem koma þarna upp,“ segir Páll.

Fjölbreyttar ógnir

Gosstöðarnar í Holuhrauni eru ekki kjörlendi almennings eða ferðamanna. Gosstrókarnir ná í 120 metra hæð og litlið hraunmolar fljúga mörghundruð metra frá gígunum. Vísindamenn eru útbúnir gasgrímum og skilja bíla sína eftir í gangi til að geta komist burt með hraði. Þá er ekki gott að vera einbíla því sandurinn getur verið blautur og auðvelt að festa sig.

Grjóthrun skemmdi vatnsveituna

Þrátt fyrir hætturnar virðast vísindamennirnir rólegir. Á kvöldin sofa þeir í öruggri fjarlægð í Drekaskála. Þar halda Vísindamenn og fjölmiðlafólk til en jarðskjálftar halda vökufyri sumum og ollu skemmdum á vatnsveitu skálans. „Það er algengt að það verði grjóthrun inni í Drekagili ekki síst þegar eru skjálftar. Það gerðist um daginn að það féll grjót á lögnina og hún fór í sundur. Þannig að fólk er búið að vera að bera vatn í fötum,“ segir Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir, hálandisfulltrúi hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Í gær tókst svo lokst að koma vatninu í Drekaskála í lag og vísindamenn halda áfram að vakta gosið.