Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aðkoman hræðileg og aðstæður erfiðar

27.12.2018 - 15:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri heilbrigðisstofnunar Suðurlands, segir í greinargerð sem hún sendi fjölmiðlum um slysið við Núpsvötn að aðkoman hafi verið hræðileg. Tveir hafi verið fyrir utan bílinn þegar komið var á slysstað og fljótlega hafi náðst að losa tvo til viðbótar úr bílnum. Umtalsverðan tíma tók að ná hinum slösuðu út úr jeppanum sem var afar illa farinn.

Í greinargerðinni segir Herdís að aðstæður hafi verið afar erfiðar á vettvangi. Fáliðað hafi verið á vettvangi um tíma en fljótlega hafi bæst í bjargir á slysstað „þegar bætti í hóp lögreglumanna, heilbrigðisstarfsmanna, sjúkraflutningamanna og björgunarsveitarfólks ásamt slökkvilið með tækjabúnað.“

Í greinargerðinni segir að töluverðan tíma hafi tekið að koma búnaði að slysavettvangi vegna árbakkanna. Fjórir hafi verið alvarlega slasaðir og segir Herdís að náðst hafi um hádegisbil að flytja þau með þyrlu á Landspítalann. „Það tók því umtalsverðan tíma að ná hinum slösuðu út úr jeppanum sem var afar illa farinn.“

Þrír erlendir ferðamenn létust í slysinu og segir Herdís að það hafi verið börn og fullorðnir.  Í bílnum voru breskir ferðamenn en fréttastofa hefur einnig upplýsingar um að indverska sendiráðið sé að vinna í málinu. 

Herdís rifjar upp í greinargerð sinni að fyrir nákvæmlega ári hafi orðið alvarlegt rútuslys á Suðurlandi eða í Eldhrauni vestan við Kirkjubæjarklaustur. Þar lést kínverskur ferðamaður og þrír voru í lífshættu.  „Ljóst er að aðkoman að slysinu við brúna yfir Núpsvötn var afar erfið,“ segir Herdís og það hafi tekið  verulega á alla að sjá hversu illa fólkið var slasað.

Lögreglan á Suðurlandi staðfesti á Facebook-síðu sinni fyrir skömmu að þrír hefðu látist í slysinu, tveir fullorðnir og eitt ungt barn.  Fjórir voru fluttir á Landspítalann í Reykjavík en í þeim hópi voru tvö börn á aldrinum 7 til 9 ára.  Suðurlandsvegur hefur nú verið opnaður en einhverjar tafir verða vegna viðgerðar á handriði brúarinnar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV