Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Aðildarviðræðum ekki slitið án þingsins

24.08.2013 - 18:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ef slíta eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið þurfi að bera þá ákvörðun undir þingið. Næsta skref sé hins vegar að bíða niðurstöðu skýrslu utanríkisráðherra um árangur viðræðnanna fram til þessa.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur sagt að hann sé ekki bundinn af þingsályktun fyrri ríkisstjórnar um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hann hefur sagt að samninganefnd Íslands verði leyst upp, aðeins sé spurning um hvenær og hvernig. 

Fjármálaráðherra telur að málið þurfi að koma til kasta þingsins á endanum. „Mér finnst það vera hluti af því sem er framundan hjá okkur í þinginu. Næsta skref eigi að vera þetta. Tökum þessa skýrslu sem utanríkisráðherra er að taka saman um árangur að viðræðum til þessa og breytingarnar á Evrópusambandinu síðan við sóttum um en þær eru umtalsverðar. Mér finnst að menn eigi ekki að fara fram úr sér með málin í öfugri röð. Þetta var rætt í stjórnarsáttmálunu að við myndum hætta virkum viðræðum, að við myndum taka saman stöðuna, leggja fram skýrslu. Ég veit ekki nema að hún komi tiltölulega fljótlega, “ segir Bjarni. 

Hvað ef viðræðum verður hætt? „Þá ert þú að tala um ef viðræðunum yrði endanlega slitið. Ég tel að það væri ákvörðun sem þyrfti að bera undir þingið.“ Bjarni segist hafa verið þeirrar skoðunar, að í upphafi hefði átt að spyrja um vilja þjóðarinnar til að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hann segir að málið sé þess eðlis að þjóðin verði að fá að hafa á því skoðun. Það sé hins vegar alveg skýrt að kosning um um aðild að evrópusambandinu sé á engan hátt forgangsmál kjósenda.