Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

ADHD samtökin gagnrýna Landlæknisembættið

Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn ADHD samtakanna gagnrýnir Embætti landlæknis fyrir fullyrðingar um meintar ofgreiningar fagfólks og ofnotkun lyfja vegna ofvirknis- og athyglisbrests. Varaformaður samtakanna segir þetta hafa slæm áhrif á börn og fullorðna sem þurfa að taka lyfin. Þeir skammist sín og hætti jafnvel að taka þau. 
Mynd með færslu
 Mynd:
Vilhjálmur Hjálmarsson

Landlæknisembættið birti fyrir helgi upplýsingar um lyfjaávísanir í fyrra og talað var við starfsmenn embættisins í tilefni af því í fjölmiðlum:

„[Þeir] eru ítrekað að setja út á ofnotkun og ofgreiningu vegna ADHD og ADHD lyfja. Þetta er að ganga svo langt núna að það má segja að þeir séu að saka tvær starfsstéttir, sálfræðinga og geðlækna, um kerfisbundið fúsk. Þessir aðilar, sálfræðingar og geðlæknar, byggja hins vega á klínískum leiðbeiningum frá Embætti landlæknis,“ segir Vilhjálmur Hjálmarsson varaformaður stjórnar ADHD samtakanna. 

Notkun tauga- og geðlyfja er hvergi meiri á Norðurlöndum en hér. Vilhjálmur segir ýmsar skýringar á því hvað varði ADHD-lyfin til dæmis ólík greiningarviðmið. En sveiflan í notkun sé sú sama, hún komi bara fyrr fram hér en þar. Og þótt lyf séu langbesta úrræðið, segir hann að það séu til fleiri úrræði þar og þau séu líka niðurgreidd eins og sálfræðiþjónusta. 

Stjórn ADHD samtakana hafnar í ályktun því sem hún segir vera aðdróttanir um ofgreiningar og ofnotkun lyfja vegna ADHD. Þetta hefur slæm áhrif á þá sem þurfa á lyfjunum að halda, segir Vilhjálmur: 

„Nú sem áður fyrr munum við fá inn á okkur hrúgu af fyrirspurnum þar sem að börnin eru hætt að vilja taka lyfin. Foreldrarnir eru hræddir um að þeir séu að gera eittvhað rangt. Einstaklingar, sem eru á þessum lyfjum, þora ekki að segja frá því. Það er ekkert að mér, ég bara tek þessi lyf. Það hjálpar mér að funkera betur.“

Mynd með færslu
 Mynd: