Aðgerðir gegn 25 hótelum og rútufyrirtækjum

22.02.2019 - 17:51
Mynd:  / 
Um 7 milljarðar króna eru í verkfallssjóðum félaganna sem slitu í gær viðræðum við atvinnurekendur og hafa ákveðið að efna til staðbundinna verkfalla. Verkfallsaðgerðir munu beinast að allt að 25 hótelum á höfuðborgarsvæðinu og stærstu rútufyrirtækjunum. Endanleg aðgerðaráætlun verður kynnt eftir helgina.

Áætlun ekki tilbúin

Stjórnir og samninganefndir félaganna fjögurra hafa fundað um fyrirhugaðar verðfallsaðgerðir. Aðgerðaráætlunin er þó ekki full mótuð þó að grófar línur hafa verið dregnar upp. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að staðbundnu verkföllin muni beinast  að stórum fyrirtækjum í ferðaþjónustunni.  Hann segir að ekki hafi verið  tekin ákvörðun um hvorki lengd verkfallanna né heldur hvenær þau taka gildi. Um helgina verði unnið að því að útfæra fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir. Samninganefnd verður kynnt áætlunin á mánudag og í framhaldinu verði aðgerðaráætlunin kynnt opinberlega. Meira vill formaður ekki segja.

Allt að 25 hótel

Samkvæmt heimildum Spegilsins er verið að tala um að staðbundnu verkföllin bitni á 20 til 25 hótelum á félagssvæði VR og Eflingar. Um er að ræða nær öll helstu og stærstu hótelin. Líka er um að ræða meðalstór hótel.  Verkföllin gætu náð til allt að 3 þúsund félagsmanna VR og Eflingar.   Efling hefur þegar boðað verkfall á öllum hótelum og gistiheimilum hjá verkafólki sem vinnur við þrif. Atkvæðagreiðsla um það hefst á mánudaginn og lýkur á miðvikudag. Ranglega hefur verið sagt að atkvæðagreiðslan nái einungis til þeirra sem fara hugsanlega í verkfall. Það er heimilt samkvæmt lögum en ákveðið var að atkvæðagreiðslan nái til allra félagsmanna sem heyra undir samning starfsfólks á hótelum og gistiheimilum. Atkvæðagreiðslan nær til um 7 þúsund félagsmanna og meirihluti greiddra atkvæða ræður því hvort farið verður í verkfall eða ekki.

Verkföll fyrir miðjan næsta mánuð

 Það er ljóst að  félagsmenn VR og Eflingar munu leika aðalhlutverkið í verkfallsaðgerðum, að minnst kosti til að byrja með. Litlu félögin á Akranesi og Grindavík gætu komið til sögunnar ef  verkföllin dragast á langinn.

Til að boða sameiginleg staðbundin verkföll VR og Eflingar þarf að kjósa í hvorum hópnum fyrir sig og væntanlega, eins og í kosningu VR á mánudaginn, taka allir félagsmenn sem heyra undir sama kjarasamning þátt í atkvæðagreiðslunni. Eftir því sem næst verður komist gæti atkvæðagreiðsla hafist í næstu viku og þessi verkföll, ef verkfall verður samþykkt, gætu hafist fyrir miðjan næsta mánuð.

 Ef samþykkt verður verkfall á hótelunum nær það væntanlega til þrifa sem Eflingarfólkið vinnur við og afgreiðslu og skrifstofuvinnu sem félagsmenn VR sinna.

Líka rútufyrirtækin

En það er ekki bara verið að tala um hótelin. Líklega verða stóru rútufyrirtækin fyrir barðinu líka. Þá er eftir því sem Spegillinn kemst næst helst litið til flutninganna milli Reykjavíkur og flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Hvorki VR né Efling geta stöðvað starfsemina á Keflavíkurflugvelli. Hlað-menn og fleiri heyra undir Verkalýðs og sjómannafélag Keflavíkur og þeir sem starfa við innritun eru félagsmenn í Verslunarmannafélagi Suðurnesja.  Reyndar er það svo að líkur eru á að VR yfirtaki Verslunarmannafélagið á næstunni. Atkvæðagreiðsla um inngöngu í VR hefst upp úr mánaðamótum. Ef meirihluti kýs að fara þessa leið verður málið tekið fyrir á aðalfundi VR 27. mars og inngangan myndi öðlast gildi 1. apríl.

Um 7 milljarðar í verkfallssjóðum

Það hefur komið fram að félögin fjögur munu standa sameiginlega að verkfallsaðgerðunum. Þó að það muni mest mæða á félagsmönnum VR og Eflingar muni öll félögin greiða úr sínum verkfallssjóðum hlutfallslega miðað við stærð félaganna. Það hefur líka  komið fram að þeir sem fara í verkfall munu halda fullum launum. Það er ekki algengt. Yfirleitt er það svo að verkfallsfólk fær ekki greitt nema hluta af laununum.

Verkfallssjóðirnir standa nokkuð vel enda hafa þessi félög ekki farið mikið í verkföll síðustu ár. Síðasta verkfall VR var 1988. Það að efna til staðbundinna verkfalla þar sem einungis tiltekinn hópur félagsmanna tekur þátt er talsvert ódýrara en að efna til allsherjarverkfalls. Ætla má að  verkfallssjóðir eða vinnudeilusjóðir félaganna nemi um 7 milljörðum króna. Sjóður VR er stærstur.  Þar eru um 3,6 milljarðar. Næst kemur Efling með um 2,7 milljarða. Í sjóði Verkalýðsfélags Akraness eru um 300 milljónir og eitthvað minna  í sjóðum Verkalýðsfélagsins í Grindavík.

Það á eftir koma í ljós hvernig Samtök atvinnulífsins bregðast við. Ekki er líklegt að þau boði verkbann. Hins vegar er líklegt að þau noti hvert tækifæri sem gefst til að kæra verkfallsboðun sem gæti tafið fyrir því að verkföll hefjist.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi