Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aðgerðahópur vegna uppbyggingar á Akureyrarflugvelli

20.12.2019 - 08:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skrifað hefur verið undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á Akureyrarflugvelli og aðgerðahópur stofnaður. Þingmaður segir lykilatriði að hópurinn skili inn tillögum vegna flugvallarins áður en samgönguáætlun verður samþykkt.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli til að hann geti verið leið inn í landið og eflt svæðið og ferðaþjónustu á Íslandi.

Í yfirlýsingunni segir að góðar aðstæður séu til uppbyggingar á Akureyrarflugvelli og þegar hafi mikil vinna verið unnin. Aðgerðahópur hefur verið skipaður til að vinna að tillögu um endurbætur á flugstöðinni, greina markaðssetningu á Norðurlandi sem áfangastað og loks gera kostnaðaráætlun um mögulega stækkun eða endurbætur á mannvirkjum og þjónustu. Í hópnum verða fulltrúar ráðuneytanna tveggja, Akureyrarbæjar, Eyþings, ferðaþjónustu á Norðurlandi og Isavia. Hann á að ljúka störfum fyrir lok mars 2020.

Í kappi við tímann

Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er í aðgerðahópnum fyrir hönd atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis. Hann segir samgönguáætlun verða samþykkta í lok febrúar eða byrjun mars, það sé lykilatriði að hópurinn skili af sér tillögum fyrir þann tíma svo samgönguáætlun geti tekið tillit til þeirra. Það sé að hans mati tilgangurinn með hópnum.

Tímapunkturinn sé kominn

Spurður um það, hvort ekki skjóti skökku við að samgönguráðherra stofni aðgerðahóp og undirriti viljayfirlýsingu um uppbyggingu á Akureyrarvelli og leggi á sama tíma 0 krónur í hann samkvæmt samgönguáætlun, segist Njáll ekki sáttur við þann hluta áætlunarinnar. Það hljóti samt að vera kominn skilningur á allri þeirri vinnu sem hafi verið unnin á Akureyrarvelli um áratugaskeið. Nú sé tími kominn til að ganga í verkið og hann er bjartsýnn á að störf hópsins skili árangri.

Kostnaðurinn ekki mikill

Hann segir fé til staðar, aukafjármagn hafi verið lagt í samgöngumál sem enn eigi eftir að útdeila. Þá sé kostnaðurinn við uppbygginguna ekki mikill í stóra samhenginu. Flughlað fyrir 10-11 flugvélar kosti um 1600 milljónir og flugstöð um 600 milljónir. „Það er mjög kallað eftir þessu, ferðaþjónustan, atvinnulífið og ég tel fjármagni mjög vel varið í þessa framkvæmd, bæði upp á framtíðaruppbyggingu svæðisins og landsins alls,“ segir Njáll Trausti.