Aðeins Íslendingar eigi fasteignir

26.01.2013 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Innanríkisráðuneytið leggur til að einungis íslenskir ríkisborgarar eða þeir sem eigi lögheimili á Íslandi geti eignast fasteignir hér á landi. Vitnað er í lögfræðiálit sem telja EES-samninginn heimila slík takmörk.

Drög að frumvarpi um þetta hafa verið samin í innanríkisráðuneytinu og eru þau nú til kynningar á vef þess. Þar er vitnað í tvær álitsgerðir sem háskólakennarar í lögfræði hafa unnið, en þar kemur meðal annars fram að samkvæmt EES-samningnum hafi ráðherra heimild til að takmarka eign útlendinga að fasteignum þó að þeir séu frá landi innan EES.

Samkvæmt frumvarpinu mega aðeins íslenskir ríkisborgarar eða þeir sem hafa lögheimili á Íslandi hafa eigna- eða afnotarétt yfir fasteignum. Erlendir ríkisborgarar sem búa hér mega svo aðeins halda heimili eða frístundahús, en ekki hafa önnur réttindi eins og veiði- eða vatnsréttindi. Ráðherra geti svo veitt undanþágu frá þessum skilyrðum, til dæmis ef viðkomandi hefur sérstök tengsl við Ísland.

Ráðuneytið segir að það sjónarmið sé til skoðunar að gengið hafi verið lengra en skylt var í þessum efnum í aðlögun íslensks réttar að EES-rétti. Þá hafi forsendur undanþáguheimlda breyst sem leitt hafi til þess að lögin veiti rýmri heimildir en löggjafinn ætlaði í upphafi.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi