Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Aðeins fimmtungur stjórnenda hæfur

04.07.2013 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Aðeins fimmtungur stjórnarmanna Íbúðalánasjóðs á árunum fyrir hrun hefði uppfyllt lögbundin hæfisskilyrði sem sjóðurinn starfar eftir í dag.

Rannsóknarnefnd Alþingis um starfsemi sjóðsins ályktar að takmörkuð menntun og reynsla hafi leitt til þess að eftirlit með rekstri sjóðsins hafi ekki verið fullnægjandi.

Minnihluti stjórnarmanna í Íbúðalánasjóði á árunum fyrir hrun var langskólagenginn en meirihluti þeirra var iðnmenntaður. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um starfsemi sjóðsins. Þar er ályktað að takmörkuð formleg menntun og reynsla stjórnarmanna hafi  leitt til þess að eftirlit með rekstri sjóðsins var ekki fullnægjandi.

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um starfsemi Íbúðalánasjóðs hefur vakið hörð viðbrögð en í skýrslunni er bent á æði mörg mistök og handvömm í rekstri sjóðsins sem hafi verið þjóðinni dýr.

Nefndarmenn benda meðal annars á hæfi stjórnarmanna sjóðsins sem hafi mögulega ekki hentað þeirri starfsemi sem hann sinnti. Skilgreining sjóðsins sem félagslegrar þjónustustofnunar sé í meginatriðum röng, starfsemi hans beri flest merki fjármálafyrirtækis, sem margir stjórnarmenn hafi ekki haft næga þekkingu á. 

Í skýrslunni segir að minnihluti þeirra sem skipaðir voru í stjórn sjóðsins hafi verið langskólagengnir en nær allir stjórnarmenn voru tengdir helstu stjórnmálaflokkunum, sér í lagi stjórnarflokkunum 1999 til 2007. Frá stofnun sjóðsins og þar til í fyrra voru flestir stjórnarmenn eða átta af tuttugu og tveimur stjórnarmönnum iðnmenntaðir.

Lítill hluti eða um fimmtungur stjórnarmanna hefði uppfyllt þau lögbundnu hæfisskilyrði sem sett eru af Fjármálaeftirlitinu og gilda um Íbúðalánasjóð í dag. Skilyrði eftirlitsins fela meðal annars í sér að stjórnarmenn séu lögráða, hafi óflekkað mannorð, hafi fjárhagslegt sjálfstæði og nægilega þekkingu og starfsreynslu auk menntunar. Forstjóri og stjórnarmenn skuli hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi; það er að viðkomandi hafi aflað sér fræðilegrar þekkingar sem tengist starfsemi, uppbyggingu eða rekstri fyrirtækja.

Enn fremur segir í skýrslunni að ætla megi að takmörkuð þekking stjórnarmanna á fjármálahlið rekstrarins hafi rýrt getu þeirra til sjálfstæðs eftirlits. Þeir hafi orðið að treysta um of á stjórnendur sjóðsins, þá sömu og stjórnarmenn áttu í raun að hafa eftirlit með.