Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Aðeins fært í Fjörður í tvo mánuði

19.09.2013 - 14:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Vegurinn út í Fjörður var mokaður í dag svo gangnamenn komist þangað á morgun að sækja fé. Leirdalsheiði var kolófær en ekki eru nema tæpir tveir mánuðir síðan vegurinn var opnaður.

Guðni Sigþórsson, verkstjóri á Grenivík, tók meðfylgjandi myndir er hann var við snjómokstur á heiðinni í morgun ásamt fleirum. Hann segir að mikill snjór sé á þessum slóðum og erfitt að komast um.

Smalað var í Fjörðum í lok ágúst þegar spáð var vitlausu veðri en ekki var búið að fara í seinni göngur. Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi á Grýtubakka, segir að þar gætu enn verið um 200 kindur. Féð verður líklega sótt yfir heiðina á bílum á morgun því ekki þykir fýsilegt að reka það á snjó alla þessa löngu leið. 

Það er ekki hægt að segja annað en að sumarbeitin í Fjörðum hafi verið stutt. Þegar fé var rekið þangað í lok júní var enn mikill snjór á heiðinni. Vegurinn út í Fjörður var einn síðasti fjallvegurinn sem Vegagerðin opnaði í sumar. Þangað var ekki fært fyrr en 25. júlí.