Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Aðeins ein þyrla á vakt

09.08.2012 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Einungis ein áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar var á vakt í gær þegar útkall kom vegna gróðurelda í Súðavíkurhreppi og hún var í hvíld. Auðunn Kristinsson, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs, segir að ef hætta hefði verið á ferðum hefði mannskapur verið kallaður út.

Bráðatilfelli sem snerta fólk ganga fyrir

Til stóð að þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði við slökkvistarfið í Laugardal í gær en hún kom ekki vestur fyrr en á sjötta tímanum. „Það var nú vegna þess að áhöfnin sem var á vaktinni var í útkalli nóttina áður og var í hvíld fram eftir degi. Venjulega erum við með tvær fullmannaðar vaktir á vakt en tímabundið í gær vorum við með eina vakt og þá gengur fyrir að sinna bráðatilfellum sem snerta fólk,“ segir Auðunn.  

„Þetta verkefni var ekki þess eðlis á þessum tímapunkti að við legðum þannig áherslu að fara í það á þessum tíma en svo um leið og við vorum með fullmannaða vakt þá sendum við vélina norður,“ bætir hann við.

Mögulegt að kalla út aukamannskap

Þá segir Auðunn að ef um bráðatilfelli hefði verið að ræða hefði verið kallaður út aukamannskapur: „Við erum með fólk sem við getum kallað í  og hérna ef þess þarf en í svona verkefni erum við ekki að brenna upp mannskapinn okkar, ekki nema mikið liggi við.“