Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aðeins ætluð þér

27.01.2014 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd:

Guðbjörg Magnúsdóttir – flytjandi

Guðbjörg er gift fimm barna móðir og býr í Reykjavík. Hún er lærð söngkona og stundar söngkennaranám við Complete Vocal Institute.

Guðbjörg man það eins og hafi gerst í gær þegar hún söng fyrst opinberlega, en það gerði hún skjálfandi eins og hrísla á Hressó árið 1993 með hljómsveitinni Kandís. Viðtökurnar voru framar vonum og datt henni þá í hug hvort söngurinn væri kannski bara málið fyrir hana. Í byrjun þessa árs kom fyrsti geisladiskur Guðbjargar út en hann ber nafnið Vindurinn veit. Hún hefur starfað við söng og meðal annars sungið inn á nokkrar vinsælar teiknimyndir auk útvarps- og sjónvarpsauglýsinga. Guðbjörg átti einnig samstarf við hljómsveitina Dúndurfréttir í sýningunni Dark side of the moon sem sýnd var í Borgarleikhúsinu við frábærar undirtektir. Hún hefur líka tekið þátt í fjöldanum öllum af Broadway sýningum til dæmis með Ragga Bjarna og Álftagerðisbræðrum og einnig í hinni margfrægu ABBA sýningu.

Guðbjörg segist tengja vel við lagið Aðeins ætluð þér og er þakklát Maríu Björk fyrir að hafa treyst henni fyrir flutningnum og gefið henni þetta frábæra tækifæri.

 

María Björk Sverrisdóttir – höfundur lags og texta

María Björk býr í Garðabæ, en hún er fædd árið 1963 og uppalin í Reykjavík. María lauk á sínum tíma 6. stigi í klassíkum söng og var lengi vel í einkatímum hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, en er einnig menntuð í jazz-söng.

María stofnaði Söngskóla Maríu Bjarkar árið 1993 en hann óx hratt og er nú einn stærsti söngskóli landsins. Hún á mikið og gott samstarf við annað þekkt tónlistarfólk, hefur meðal annars unnið með Sigríði Beinteinsdóttur við Söngvaborg í fjölda ára og er umboðsmaður Eurovision-stjörnunnar Jóhönnu Guðrúnar. María hefur nokkrum sinnum áður tekið þátt í Söngvakeppninni og þess er skemmst að minnast að hún samdi lagið Stund með þér sem Sylvía Erla Scheving flutti í keppninni í fyrra. Söngkonan í lagi Maríu, Aðeins ætluð þér, Guðbjörg Magnúsdóttir, hefur verið söngkennari í Söngskóla Maríu síðastliðin sjö ár og þekkjast þær því mjög vel, en Guðbjörg lýsir Maríu sem glæsilegum frumkvöðli með góða nærveru.

María Björk segir að lagið Aðeins ætluð þér fjalli um ástarsamband sem fór úrskeiðis eftir að annar aðilinn fór út af sporinu og drap það sem þau áttu, en María tengir lagið sérstaklega við ónefnda vinkonu sína. María naut aðstoðar Marcusar Frenell og fleira góðs fólks við lagasmíðina.

 

Aðeins ætluð þér

Þú, ég veit þú átt þitt leyndarmál,
sem þú engum segir frá

Hvar er hugurinn,

er hann farinn burtu þá

Þú, mín sál er aðeins ætluð þér,
eldur brennur inn’í mér

Hitinn magnast meðan þú ert hjá mér

Ég man þær stundir sem við áttum tvö

Viltu finna það eina sem með þér fer
Viltu finna það hvenær og hvar sem er
Ohoh

Til í það, ekkert fæ fæ fæ
Viltu fara þá leið sama er mér hver er
Ekki koma til baka ég verð ei hér

oh oh
Þetta er gott, farðu bæ bæ bæ

Hvað? Þú lætur eins og ekkert sé,
hjartað hamast inn’í mér

Von mín burtu fer og ég finn til með þér

Ég man þær stundir sem við áttum tvö

Viltu finna það eina sem með þér fer
Viltu finna það hvenær og hvar sem er
Oh oh

Til í það, ekkert fæ fæ fæ
Viltu fara þá leið sama er mér hver er
Ekki koma til baka ég verð ei hér
oh oh

Þetta er gott, farðu bæ bæ bæ

Segðu mér eitt, hvað fannstu þar
Var það betra, en þú hafðir hér

Viltu finna það eina sem með þér fer ...