Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aðeins á ferðinni er manneskjan frjáls

Mynd: EPA / EPA

Aðeins á ferðinni er manneskjan frjáls

05.07.2018 - 09:29

Höfundar

Bieguni er titill skáldsögu pólska rithöfundarins Olgu Tokarczuk sem í lok maí fékk Alþjóðlegu Man Booker verðlaunin í Bretlandi. Bieguni vísar til sértrúarsöfnuðar í Rússlandi á 17. öld sem trúði því að aðeins með því að vera á stöðugri hreyfingu mætti komast undan hinu illa sem ævinlega setur skorður og sviptir frelsi; ekki aðeins andlegu heldur einnig félagaslegu, því hið illa býr um sig í regluverki samfélagsins.

Bieguni kom út í Póllandi árið 2008 og hefur síðan verið þýdd á allmörg tungumál og vísar titill hinna ólíku þýðinga ævinlega til hreyfingar og ferðalaga. Á ensku nefnist þessi bók Flights, á sænsku Löparna, á þýsku Unrast svo dæmi séu tekin enda fjallar þessi bók um ferðalög. 

Sjaldan er þó í bókinni um að ræða frásagnir af ferðalögum frá einum stað til annars heldur er hér leitast við að kafa ofan í þessa djúpstæðu þrá manneskjunnar að yfirgefa aðstæður sínar og leita tækifæra og upplifunar á öðrum stað. Hér er fjallað um flest það sem við tengjum ferðalögum eins og hótel og flugvelli, lestir og söfn og hér eru sagðar ótal sögur af fólki á ferðalögum, meðal annars áðurnefndum Biegunium sem láta sér í dag jafnvel nægja að ferðast stöðugt um í neðanjarðarlestarkerfi Moskvuborgar. 

Bókin er samsett úr ótal frásögnum, köflum sem bera yfirskriftir í samræmi við innihald sitt. Kaflarnir eru ólíkir að lengd, sumir aðeins hálf eða ein blaðsíða aðrir spanna nokkra tugi blaðsíðna. Pólski gagnrýnandi Mirosław Spychalski sagði í gagnrýni sinni á bókina í Póllandi að lestri hennar mætti líkja við að flakka með fjarstýringunni á milli sjónvarpsstöðva á hótelherbergi og lenda þar ýmist á bænahaldi, kynlífsmyndböndum, pappírsbleyjuauglýsingum eða á sinfóníutónleikum. Annar gagnrýnandi lýsir verkinu sem bræðingi af fjölfræðiriti og vídeóklippum.

Bieguni minnir um margt á hið brotakennda verk þýska heimspekingins og skáldsins Walters Benjamin, Das Passagenwerk, þar sem Benjamin leitaðist við að birta upplausnina í  samtíma sínum, á fyrstu áratugum 20. aldarinnar, í mynd fjölbreyttra sölubásanna í yfirbyggðum verslunartröðum Parísarborgar. Segja má að bók Olgu Tokarczuk leitist við að birta tvístrun heimsins alls á fyrstu áratugum 21. aldarinnar, óróann og endurtekninguna, upplausnina jafnt sem niðurnjörvaðar ferðaáætlanir samgöngutækja. Ólíkt verki Benjamins er bók Olgu haldið saman af sterkri sögumannsrödd, henni sjálfri, þar sem hún gerir grein fyrir óþreyju sinni og óvilja til að skjóta rótum og setjast að heldur einmitt að ferðast, ferðast víða og hlera sögur annarra sem eru að ferðast. Sérstakt áhugamál Olgu og oftar en ekki markmið einstakra ferðalaga hennar er að skoða furðugripasöfn og er í einstökum sögum bókarinnar Bieguni mikinn fróðleik að finna um þessi fyrirbæri sem urðu svo vinsæl í Evrópu á sautjándu öld og áttu sinn þátt í margs konar framförum á sviði læknavísinda.

Bieguni hefur verið lýst sem safni myndhverfinga um ferðalög en líka sem gamaldags alfræðibók. Sjálf hefur Olga lýst þessu verki sínu – eins og reyndar mörgum fyrri verkum sínum líka – sem „constellation novel,“  þar sem einstakir hlutar viðkomandi verks birtist lesendum líkt og stjörnur á himnafestingunni birtust forfeðrum okkar og þeir síðan tengdu  saman og gerðu úr myndir af dýrum og goðsögulegum og þar með merkingarbærum verum.

Olga Tokarczuk fæddist 1962 í Súlueckow, litlu þorpi vestast í Póllandi. Hún telst til merkustu rithöfunda Póllands og Evrópu nú um stundir og er gjarnan vísað til hennar sem framúrskarandi höfundar sem fæstir þekkja. Hún lærði sálfræði og starfaði um hríð við það fag en skrifaði jafnframt. Árið 1989 kom fyrsta bók hennar út, ljóðabókin Miasta w lustrach (Borgir í spegli). Árið 1993 kom svo fyrsta skáldsaga Olgu, Podróż ludzi księgi  (Ferðalög bókafólksins), dæmisaga um leit tveggja elskanda að leyndardómum bókarinnar. Sagan gerist í Frakklandi 17. aldararinnar og náði strax mikilli athygli og vinsældum. Með skáldsögunni Prawiek i inne czasy  (Ur og aðrir tímar) sem kom út 1996 tóku verk hennar einnig að vekja athygli utan Póllands. Sagan spannar mesta alla 20. öldina og er sögð frá sjónarhorni fjögurra erkiengla.

Bækurnar sem Olga Tokarczuk hefur skrifað eftir þetta einkennast  af brotakenndri frásögn, oft líkt við bútasaumsteppi, þar sem hún blandar saman frásögnum af hversdagslífi, skissum og ritgerðum þar sem gjarnan söguleg fortíð, samtíð og framtíð er látið speglast í ólíkum tímum sem og stöðugri endurtekningu þeirra gleði og sorga sem mannfólkið upplifir. Olga skrifar líka fyrir blöð og tímarit og virk í baráttu umhverfs – og lýðræðissinna í Póllandi.

Olga Tokarczuk var gestur á pólskum dögum í Reykjavík árið 2006 en þá hafði nýverið í fyrsta sinn komið út eftir hana bók á ensku. Þetta var Dom dzienny, dom nocny (Daghús, nátthús) frá árinu 1998. Að því tilefni var í þættinum Seiður og hélog sagt frá þessari bók og rætt við Olgu Tokarczuk.  

Mynd: maxpixel / maxpixel
Frá þjóðgarðinum í Karpatafjöllum í vesturhluta Póllands