Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Aðeins 2% gefa engar jólagjafir

02.01.2011 - 17:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Nánast enginn Íslendingur sleppir því alveg að gefa jólagjafir, á meðan aðeins þriðjungur sækir messur yfir hátíðarnar.

Í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup er fjallað sérstaklega um jólavenjur Íslendinga. Þar kemur ýmislegt áhugavert fram. Meðal annars að af öllu því sem tengist jólunum eru það jólapakkarnir sem flestir sinna. Aðeins 2% landsmanna gefa enga slíka. Menn gefa ekki bara sínum nánustu gjafir á hátíð ljóss og friðar, því 7 af hverjum 10 fullorðnum íslendingum styrkja góð málefni fyrir eða um jólin. Þar kemur í ljós að þeir sem eru eldri eru gjafmildari en þeir sem yngri eru. Menn hafa líka áhuga á jólaljósum og jólaskrauti. Yfir 90% heimila eru skreytt með slíku. Og svo eru það jólatrén - engin slík eru á 12% heimila og aðeins 4 af hverjum 10 eru með lifandi jólatré.


Rúmur helmingur landsmanna fer á jólahlaðborð á aðventunni meðan ríflega 40% fer á jólatónleika. 30% landsmanna sker út eða steikir laufabrauð og sama hlutfall fer á jólaball. Tæplega 70% landsmanna bakar smákökur. Ríflega 30% málar piparkökur og sama hlutfall föndrar. Svo finnst 14% landsmanna það algerlega ómissandi að búa til konfekt á aðventunni.Og svo er það kirkjusóknin. Um þriðjungur Íslendinga sækir guðsþjónustu um jólin. Það kemur ekki á óvart að eldra fólk fer oftar í kirkju en það yngra. En það kemur líka í ljós að fleiri íbúar landsbyggðarinnar sækja messur en íbúar á höfuðborgarsvæðinu - 41% á móti 30%.