Aðdáunarvert samspil myrkurs og birtu

Mynd: Den Jyske Opera / Den Jyske Opera

Aðdáunarvert samspil myrkurs og birtu

13.06.2018 - 16:09

Höfundar

María Kristjánsdóttir, leiklistargagnrýnandi, sá óperuna Brothers á Listahátíð Reykjavíkur og þótti hún áhrifarík. „Dramatísk atburðarásin innan fjölskyldu og í hugarheimi hermannsins Michaels lyftir sér áreynslulaust í örstuttum sterkum myndum og með einstaka látæði.“

Annan af þessum sólardögum sem verið hafa í síðasta mánuði varð mér litið út um gluggann niður á torgið fyrir framan húsið mitt. Þá sat þar á hvita bekknum, í því miðju, kona klædd svörtu frá hvirfli til ilja og horfði út á sjóinn, og svo sem í tveggja metra fjarlægð sat svartklæddur maður í hjólastól og horfði líka út á sjóinn. Þau sátu þarna lengi, bein í baki, hreyfingarlaus og horfðu. Hvað þau hugsuðu, heyrði ég ekki og hvaðan þessir nýju íbúar í hverfinu mínu koma, veit ég ekki. En ég veit þau hafa flúið heimili sín, sennilega undan bandamönnum okkar og kannski eru það jafnvel rústir heimilis þeirra sem finnski myndhöggvarinn Anssi Pulkinen hefur látið flytja frá Sýrlandi  og hefur nú til sýnis á Listahátíð á vörubílspalli fyrir utan Norræna húsið. 

En það er ekki um þessi fórnarlömb styrjaldanna í Miðausturlöndum nema með óbeinum hætti sem fyrsta ópera Daniels Bjarnasonar fjallar, sem sýnd var í Eldborgarsalnum síðastliðinn laugardag einnig á Listahátíð. Heldur um önnur fórnarlömb styrjalda, gerendurna. Óperan er samstarfsverkefni Den jyske Opera, Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og var frumsýnd í fyrra í Árósum.  

Mynd með færslu
 Mynd: Jyske Opera

Librettóið er samið af Kerstin Perski á ensku og byggir á samnefndri kvikmynd danska leikstjórans Súsönnu Bier, sem ég hef því miður ekki séð. Þar segir frá því þegar eftirlætissonur fjölskyldu, Michael fer í stríð ásamt félaga sínum Peter. Þeir yfirgefa eiginkonurnar Söru og Önnu, sem er barnshafandi; eftir verða líka heima ung dóttir Michaels, bróðir hans Jamie og foreldrar.  Hermennirnir tveir eru brátt taldir af, en Michael snýr að lokum aftur einn heim, bugaður maður. Líf hans og fjölskyldu verða smám saman rústir einar vegna gjörða hans í stríðinu.  

Snjóhvítt er sviðið sem blasir við úr salnum, snjóhvítt og kassalagað. Leiksvæði umkringt tröppum, með þremur þrepum, sætum, og líkist áhorfendasvæði í fornu grísku leikhúsi.  Í upphafi streyma söngvararnir og kórinn þangað inn frá báðum hliðum. Svartklæddur kórinn, blágráir einsöngvarar, dreifa sér um sviðið og sem hópur  eru þau lokuð inni í rými harmleiks frá upphafi til enda. Samfélagið og fjölskyldan, samfélagið og einstaklingurinn, verða ekki sundurslitin.  

Leikstjórinn, Kasper Holten, mynd- og búningahöfundurinn Steffen Aarfing, ljósahönnuðurinn Ellen Ruge tefla á aðdáunarverðan og magnaðan hátt saman í leik og mynd: myrki og birtu, þyngslum og léttleika, harmi og gleði tónverksins. Það svarta og hvíta einstaka sinnum rofið af skærbláum eða logandi rauðum táknum, eða pastellitum skellt á verndaða fjölskylduna og áhrifamiklir skuggar verða til. Dramatísk atburðarásin innan fjölskyldu og í hugarheimi hermannsins Michaels lyftir sér áreynslulaust í örstuttum sterkum myndum og með einstaka látæði, uppúr þeim þunga straumi sem hópurinn virðist mynda frá upphafi til enda og þar sem myrkur kórinn er í aðalhlutverki. Einhver kaldur skýrleiki ríkir þar einnig sem mér var geðfelldur.

Mynd með færslu
 Mynd: Jyske Opera

Ég ætla ekki að fullyrða að ég hafi skilið allt í hinum enska texta, þrátt fyrir að honum væri varpað upp á skjá eða uppá hvítt baktjaldið, enda nægði mér það sem ég heyrði, sá og skynjaði frá áhrifamikilli tónlistinni og leiknum: Enginn getur sent drengi í stríð nema skaða þá og skaðast af því sjálfur. Engin vestræn fjölskylda getur verið stikkfrí í þeim grimmilegu stríðum sem valdamennirnir senda syni okkar, bræður, systur til í Miðausturlöndum eða annars staðar. Hún er meðsek meðan hún gerir ekkert til að stöðva þau og ferst sennilega að lokum. Eða var það ekki gríski harmleikjahöfundurinn Æskilos sem setti í munn þræls eins eftir mikil dráp: „Dauðinn, segi ég, deyðir lifendur,“  Við höfum sem sagt vitað þetta lengi. Og ég þakka Daníel Bjarnasyni og öðrum aðstandendum fyrir að minna mig á það einu sinni enn á svo áhrifaríkan hátt.   

Sjálfur stjórnaði Daniel hljómsveitinni. Söngvarar í aðalhlutverkum eru bæði danskir og íslenskir. Oddur Arnþór Jónsson og Elmar Gilbertsson fara með hlutverk bræðranna. Í öðrum hlutverkum eru Marie Arnet, Þóra Einarsdóttir, James Laing, Jakob Zethner, Selma Buch Ørum Villumsen, Hanna Dóra Sturludóttir og Paul Carey Jones.