Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Aðdáendur Frozen vilja að Elsa verði lesbía

Mynd með færslu
 Mynd: Disney

Aðdáendur Frozen vilja að Elsa verði lesbía

03.05.2016 - 14:07

Höfundar

Hafin er Twitter herferð í því skyni að fá framleiðendur Frozen 2 til að hafa kvenhetjuna Elsu lesbíu í framhaldsmyndinni. Þessir Twitter notendur vilja að Disney færi Elsu kærustu í framhaldsmyndinni sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu.

Frozen fékk gríðarlega aðsókn og góða dóma þegar myndin kom út árið 2013. Þar segir frá baráttu prinsessunnar Elsu við að beisla töframátt sinn til að tengjast systur sinni Önnu á ný. Fjölmargir hafa túlkað þetta sem daður kvikmyndarisans við femínisma. Hefðbundnum ævintýraendi, þar sem prinsessan lifir hamingjusamlega til æviloka í örmum prinsins, var fórnað fyrir systrakærleika. 

Nú vilja aðdáendur að skrefið verði stigið til fulls og Elsa eignist kærustu í Frozen 2 sem nú er í framleiðslu. Það var Alexis Isabel sem fyrst hvatti Disney til að sýna Elsu sem lesbíska prinsessu í framhaldsmyndinni. 

Óvíst er hvort Disney lætur undan og leyfir Elsu vera lesbíu í Frozen 2. Það yrði þá í fyrsta skipti í sögu Disney sem aðalsöguhetjan yrði opinberlega samkynhneigð. Margir segjast þó hafa skynjað lesbíska tilhneigingu í persónunni í fyrstu myndinni.

Þegar Frozen kom út töldu ýmsir íhaldsmenn að í myndinni fælist samkynhneigður boðskapur og prestur nokkur sagði myndina af hinu illa í útvarpsþætti í Colorado. Fróðir menn þykjast sjá endalausar tilvísanir um samkynhneigð í myndinni og titillag myndarinnar Let It Go hefur verið hálfgerður þjóðsöngur samkynhneigðra. 

Höfundurinn Jennifer Lee gefur ekkert upp um tilvísanir í samkynhneigð í fyrstu myndinni. „Ég veit um hvað myndin er. En þegar við höfum skilað af okkur myndinni er það áhorfenda að meta. Ég vil ekki gefa neitt upp. Það er aðdáendanna að skilgreina myndina."

Tilkynnt var um framleiðslu á Frozen 2 fyrr á þessu ári og er gert ráð fyrir að hún verði frumsýnd árið 2018. Framleiðendurnir segja að ekkert liggi á. Aðalmálið sé að þetta verði meistaraverk.