Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aðbúnaður starfsmanna Amazon ekkert batnað

18.02.2020 - 05:18
Erlent · Amazon · Bretland · Evrópa
epa06898241 (FILE) - A general exterior view of the new Amazon Logistic and Fulfillment Center in Dortmund, Germany, 14 November 2017 (re-issued 19 July 2018). Reports on 19 July 2018 state Amazon crossed the 900 billion USD line on 18 July after its
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nýjar upplýsingar um slys í vöruhúsum Amazon í Bretlandi sýna að öryggi þeirra hefur ekki batnað, þrátt fyrir nýlega auglýsingaherferð fyrirtækisins. Amazon rekur um 50 vöruhús í Bretlandi.

Yfir 600 starfsmenn Amazon hafa annað hvort slasast alvarlega eða sloppið naumlega undan slysum síðustu þrjú ár. Þetta kemur fram í gögnum sem verkalýðsfélagið GMB fékk frá fyrirtækinu. Amazon fór í mikla auglýsingaherferð þar sem starfsmenn lýstu skemmtilegum vinnustað, eftir fjölda vandræðalegra uppljóstrana um aðbúnað í vöruhúsum Amazon. GMB kallar nú eftir því að breska þingið hefji rannsókn á öryggismálum í vöruhúsunum.

Nóg komið segir formaðurinn

Alls hafa yfirvöld fengið 622 tilkynningar um vinnuslys í vöruhúsum Amazon síðustu þrjú ár. 2016-2017 voru slysin 152, 230 ári síðar og 240 í fyrra. Mick Rix, formaður GMB, segir Amazon eyða milljónum í ímyndarherferðir til að sannfæra fólk um að vinnuaðstæður í vöruhúsum séu öruggar.
Staðreyndirnar tali hins vegar öðru máli, og ástandið sé jafnvel að versna. „Við höfum ítrekað reynt að fá fund með Amazon til þess að auka öryggi starfsmanna. Nú er nóg komið - nú verður þingið að grípa inn í með rannsókn," hefur Guardian eftir Rix.

Amazon segist í fararbroddi

Talsmaður Amazon sagði við Guardian að Amazon sé öruggur vinnustaður. Enn eina ferðina reyni gagnrýnendur að sýna vinnuaðstæður fyrirtækisins í röngu ljósi. Sömu tilfinningarökin séu notuð í hvert skipti. Hann sagði dyr fyrirtækisins opnar almenning, stjórnmálamönnum og raunar öllum sem vilja sjá hversu öruggt vinnuumhverfið er. Hann sagði fyrirtækið vera fyrirmynd annarra flutninga- og vöruhúsafyrirtækja, þar sem yfir 40% færri slys verða að meðaltali í vöruhúsum Amazon en í öðrum sambærilegum fyrirtækjum.

Amazon varð annað fyrirtækið í sögunni til þess að vera metið á eina trilljón dollara. Stofnandi fyrirtækisins og aðaleigandi, Jeff Bezos, er jafnframt ríkasti maður í heimi, en eignir hans eru talda 137 milljarða dollara virði. Hann ákvað í gær að veita tíu milljarða dollara í baráttuna gegn loftslagsbreytingum.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV