Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Aðalræðisskrifstofa Grænlands væntanleg

18.04.2017 - 18:30
Mynd: Halla Ólafsdóttir / RÚV
Verulegar líkur eru á því að Grænlendingar opni aðalræðisskrifstofu á Íslandi innan tíðar. Íslenskur aðalræðismaður hefur starfað í Nuuk frá því 2013. Grænlenska þingið tekur til umræðu í byrjun maí tillögu um að veita fé til aðalræðisskrifstofu í Reykjavík. Slík tillaga var í fjárlagatillögum sem lagðar voru fyrir þingið síðasta haust en hún var tekin út. Inga Dóra Markussen, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, segir að ný tillaga sé betur rökstudd en sú fyrri.

Síaukin samskipti

Samskipti Grænlendinga og Íslandi aukist ár frá ári, bæði flugsamgöngur og skipaferðir séu tíðari og von enn frekari ferðum á næstu árum. Þessi starfsemi þurfi stundum aðstoð yfirvalda. Inga Dóra minnir einnig á að grænlenskir togarar komi mjög oft til Íslands og áhafnirnar þurfi stundum á aðstoð stjórnvalda að halda.

Vittus Qujaukitsoq, sem fer með utanríkismál í grænlensku stjórninni, segir að í hinu hræðilega morðmáli Birnu Brjánsdóttur hafi komið í ljós að danska sendiráðið í Reykjavík og borgaraþjónusta danska utanríkisráðuneytisins hafi ekki geta valdið hlutverki sínu. Nauðsyn sé að grænlenskur sendiherra sé í Reykjavík. En hann segir einnig að stöðugt nánari samskipti Grænlendinga og Íslendinga kalli á grænlenska sendiskrifstofu á Íslandi. Því fylgi kostir, bæði pólitískt og efnahagslega.

Vonir um samvinnu í heilbrigðismálum

Inga Dóra Markussen segir að ekki sé allt talið enn. Í rökstuðningi fyrir tillögunni um aðalræðisskrifstofu í Reykjavík sé getið að aukin samvinna verði á heilbrigðissviði á næstu árum. Nú fari margir Grænlendingar til lækninga á Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn. Fari svo að fleiri grænlenskir sjúklingar komi til Íslands eins og vonir standa til þurfi þeir á þjónustu aðalræðisskrifstofu að halda.

Grænlendingar eru fyrir með aðalræðisskrifstofur í Brussel og Washington. Gert er ráð fyrir að sendiskrifstofa í Reykjavík kosti Grænlendinga um 40 milljónir íslenskra króna á ári.