Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Aðalmeðferð á morgun í síðasta hrunmálinu

09.10.2018 - 08:01
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Aðalmeðferð hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun í máli ákæruvaldsins gegn Hreiðari Má Sigurðssyni og Guðnýju Örnu Sveinsdóttur fyrir umboðs- og innherjasvik. Þetta er síðasta hrunmálið sem fer fyrir dómstóla og fimmta málið gegn Hreiðari. Í dag eru tíu ár síðan íslenska ríkið tók yfir Kaupþing banka.

Ákæra í málinu var gefin út 19. september 2016 og var sú síðasta sem Héraðssaksóknari gaf út í hrunmáli. Í málinu er Hreiðar, sem var forstjóri Kaupþings, ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa í ágúst 2008 látið bankann lána eignarhaldsfélagi í hans eigu, Hreiðari Má Sigurðssyni ehf., 572 milljónir króna án samþykkis stjórnar bankans eða fullnægjandi tryggingar fyrir láninu.

Þann 6. ágúst nýtti Hreiðar kauprétt í bankanum og keypti bréf í honum í eigin nafni fyrir 246 milljónir. Þau voru keypt á kaupréttargengi. Sama dag notaði eignarhaldsfélagið lánið frá bankanum til að kaupa bréfin af Hreiðari á 572 milljónir, sem var markaðsvirði þeirra. Í ákærunni segir að mismunurinn hafi runnið inn á reikning Hreiðars sjálfs og hann grætt þá upphæð á viðskiptunum.

Hreiðar er einnig ákærður fyrir innherjasvik. Hann hafi á þessum tíma búið yfir innherjaupplýsingum um að markaðsverð bréfa í Kaupþingi hafi á þessum tíma verið mun hærra en efni stóðu til vegna langvarandi markaðsmisnotkunar hans og annarra með bréf í bankanum árið á undan. Hreiðar hefur hlotið dóm fyrir þátt sinn í þeirri markaðsmisnotkun.

Guðný Arna, sem var fjármálastjóri bankans, er ákærð fyrir hlutdeild í umboðssvikum Hreiðars með því að ganga frá láninu.

Hreiðar Már hefur haldið fram að milljónirnar 324 sem til hans runnu hafi verið notaðar til að borga skattaskuld sem hafi stofnast til þegar hann nýtti kaupréttinn. Hluti af starfskjarastefnu bankans hafi verið að bankinn greiddi líka skattana af nýtingu kaupréttarins. Guðný Arna hefur haldið því fram að hún beri enga ábyrgð á lánveitingunni til eignarhaldsfélags Hreiðars Más þótt hún hafi tryggt að gengið væri frá láninu í samræmi við ákvörðun annarra þar um.

Aðalmeðferðin hefst klukkan níu í fyrramálið og áætlað er að hún standi fram á fimmtudag.

Alls fengið sjö ára fangelsisdóma

Hreiðar hefur samtals fengið sjö ára fangelsisdóma í hrunmálum. Hann fékk fimm og hálfs árs fangelsisdóm í Al Thani-málinu og hálfs árs refsingu til viðbótar í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Þeim málum er lokið fyrir Hæstarétti. Þá fékk hann eins árs dóm í svokölluðu Marple-máli og með þeim dómi var nýtt heimild til refsingar umfram refsiramma hafi maður lagt í vana sinn að fremja brot eða framið þau í atvinnuskyni. Þeim dómi var áfrýjað til Landsréttar sem hefur ekki kveðið upp dóm. Fjórða málinu gegn Hreiðari, svokölluðu CLN-máli, var vísað frá héraðsdómi 11. september, en ákæruvaldið kærði þá niðurstöðu til Landsréttar.

Uppfært kl. 9.07:
Aðalmeðferð málsins hefst ekki fyrr en á morgun, ólíkt því sem sagði í fyrri útgáfu fréttarinnar. Málið var í gær á dagskrá héraðsdóms hálfan daginn í dag en það virðist hafa verið röng skráning. Fréttinni og fyrirsögninni hefur verið breytt til samræmis við þetta.