Að tala tungum tveim

Mynd:  / 

Að tala tungum tveim

26.11.2018 - 19:50

Höfundar

Leikritið Tvískinnungur slær nýjan tón með tungutaki sem ekki hefur heyrst áður að mati Hlínar Agnarsdóttur, gagnrýnanda Menningarinnar. Hugvitssamleg leikstjórn, góður leikur og frumleg myndræn útfærsla vega upp á móti innri göllum verksins.

Hlín Agnarsdóttir skrifar: 

Borgarleikhúsið virðist hafa tekið yfir lögbundið hlutverk Þjóðleikhússins að sinna íslenskri leikritun og þá einkum frumsköpun ungra höfunda. Á undanförnum árum hefur leikhúsið ekki aðeins haft höfunda á árssamningi og gert þá að hússkáldum sínum heldur einnig leitast við að hafa upp á ungum hæfileikaríkum leikskáldum bæði með opnum leiklestrum og tilraunauppsetningum. Tvískinnungur er eitt þeirra verka sem ratað hefur þannig á fjörur leikhússins en höfundur þess er Jón Magnús Arnarsson sem aðallega hefur fengist við   ljóðaslamm á undanförnum árum og hlotið lof fyrir. Ljóðaslamm er flutningur frumsamins ljóðs á leiksviði, oft í ætt við gjörning  og því nátengt leikhúsinu og tjáningu þess.  

Tungumálið í aðalhlutverkið

Í leikritinu Tvískinnungi fer ekki á milli mála að textinn sjálfur og tungumálið er í aðalhlutverki. Aðalpersónur verksins, þær sem tjá og túlka allan textann, eru elskendur sem við getum kallað Járnmanninn og Svörtu ekkjuna eftir þekktum teiknimyndafígúrum, en elskendurnir tveir eru jafnframt leikarar. Leikritið er marglaga að því leyti að það gerist bæði innan og utan leikhússins, það er leikrit í leikritinu, en auk elskendanna kynnumst við tveimur sviðsmönnum sem vinna baksviðs í leikhúsinu. Kjarni verksins snýst um ástarsamband elskendanna sem er í meira lagi stormasamt og einkennist af sjúkri og sjálfseyðandi ást enda eru þau bæði fórnarlömb fíknar og afleiðinga hennar. 

Nýr tónn og tungutak

Það er engu um það logið að Jón Magnús slær að vissu leyti nýjan tón í þessu leikriti sínu, við höfum ekki heyrt þetta tungutak áður á íslensku leiksviði, ekki þessa blöndu af rímuðu slmanni saman við götumál og slangur, óvenjulegt talmál sem hingað til hefur ekki átt aðgang að leiksviðinu. Þetta er oft kraftmikill texti, miskunnarlaus og áleitinn og hlífir engum. Elskendurnir rífast og slást með orðum, höggva hvort annað í spað þegar verst lætur. Þetta er óvægið og brútal stef við Rómeó og Júlíu eins og kemur fram í verkinu, ást sem getur ekki lukkast. Þessir elskendur kynnast líka á grímuballi eins og persónur Shakespeares. 

Borgarleikhúsið hefur lagt mikið í þessa sýningu og uppsetningin ber þess merki. Ólafur Egill Egilsson leikstýrir og fer alla leið í túlkun sinni á texta og persónum, leggur áherslu á aksjón og hraða, sækir innblástur í ofurhetjukvikmyndir, keyrir verkið áfram eins og eitt allsherjar eiturlyfjatripp og nýtur þar stuðnings Sigríðar Sunnu Reynisdóttur við myndræna útfærslu á leiksviðinu. Leikmynd hennar, klifurgrind úr köðlum sem nær frá sviðsgólfi upp í rjáfur, er táknræn fyrir þann lygavef sem elskendurnir hafa spunnið kringum líferni sitt og sitja nú fastir í en minnir jafnframt á sogandi hvirfilinn sem leiðir fíklana til glötunar. Beiting ljósa, myndbanda og hljóðmyndar ýtir síðan á eftir og styrkir sviðslausnir leikstjórans á áhrifamikinn og stundum yfirþyrmandi hátt.  

Liprir leikarar

En allt þetta hefði ekkert gildi ef ekki kæmu til leikararnir tveir sem bera sýninguna uppi og leika öll hlutverkin. Þau Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Haraldur Ari Stefánsson sveifla sér léttilega á milli gerva, klifra kattliðug í lygavefnum, stökkva og dansa um leikmyndina um leið og þau skjóta úr sér miskunnarlausum textanum.

Mynd með færslu
 Mynd:

 

Þuríður Blær er sannarlega ein af athyglisverðustu leikkonum yngri kynslóðarinnar, hefur einstaka sviðsnærveru og bæði radd- og líkamsbeitingu vel á valdi sínu. Hún miðlar texta Jóns Magnúsar af skilningi og eðlislægri innlifun, ekki aðeins í hlutverki svörtu ekkjunnar heldur ekki síst í hlutverki sviðsmannsins en þar náði undirliggjandi húmor sviðstextans vel í gegn. Haraldur Ari fylgir henni fast á eftir, heldur ekki alltaf í við hana en sýnir þó hér hvers hann er megnugur þegar mikið liggur við. Saman tekst þeim að skapa áhugaverðar og eftirminnilegar persónur á leiksviðinu. Stundum draga búninga- og gervaskiptingar milli einstakra atriða þó úr heildarárhifum leiksins og trufla flæðið í framvindu verksins og samskiptum persónanna og.  

Öll meðul leikhússins nýtt

Í heild er hér um áhugaverða leiksýningu að ræða þar sem öll meðul leikhússins eru nýtt til hins ýtrasta. Jón Magnús Arnarsson er vissulega nýgræðingur í leikhúsinu en með Tvískinnungi hefur hann kveðið sér hljóðs jafnvel þótt finna megi galla í innri gerð þess, atriðaskiptingu og persónusköpun. Í fyrirrúmi er leiktextinn sjálfur sem kemur á óvart. Borgarleikhúsið á sérstakt hrós skilið fyrir að sinna frumsköpun ungra og efnilegra leikskálda eins og hér er gert. Íslensk leikritun er sannarlega ekki í dauðateygjunum á meðan þeir sem stjórna leikhúsum átta sig á mikilvægi þess að rækta nýja höfunda.