Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Að sjálfsögðu er ég með plan B og C“

23.08.2018 - 17:34
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air, segist vera með varaáætlun ef fyrirhugað skuldabréfaútboð félagsins upp á allt að 12 milljarða skilar ekki árangri. „Að sjálfsögðu er ég með plan B og C og jafnvel D,“ segir hann í viðtali við fréttastofu. Hins vegar hafi hann enga trú á að reyna muni á þau, enda muni útboðið ganga vel og viðræður á endanum fyrst og fremst snúast um vaxtakjör og önnur slík samningsatriði.

Fjárhagsstaða Wow og Icelandair hefur verið mikið til umfjöllunar upp á síðkastið og stjórnvöld undirbúa viðbragðsáætlanir við því ef allt færi á versta veg og koma þyrfti flugfarþegum á milli staða. En er einhver hætta á að Wow sé að fara á hausinn?

„Ég tel svo ekki vera en ég held jafnframt að það sé mjög eðlilegt að stjórnvöld fylgist vel með,“ segir Skúli.

Staða Wow sé mjög góð, að því gefnu að skuldabréfaútboðið klárist. „Svo framarlega sem við klárum það, sem við ætlum okkur að gera, þá hefur félagið aldrei staðið betur,“ segir Skúli. Þegar hafi orðið viðsnúningur í rekstrinum – þriðji ársfjórðungur sé langt kominn og líti betur út en sama tímabil í fyrra. Eðlilegt sé að félag hagnist ekki þegar það vex jafnört og Wow air hafi gert – hann nefnir sem dæmi að fimm manns hafi verið ráðnir að meðaltali á degi hverjum undanfarin þrjú ár.

„Öll umræðan í kringum þetta útboð er svolítið sérstök því að augljóslega erum við að fara í útboðið af því að við teljum okkur þurfa að styrkja lausafjárstöðuna. Það er rétt og það er augljóst. Af hverju erum við að gera það? Jú, af því að við teljum okkur hafa vöru og strategíu og stefnu sem er góð og gild og viljum halda áfram á þeirri braut.“

Hann segir að ekki standi til að draga saman seglin í rekstri félagsins en hins vegar verði hægt á vextinum. Staðan breyti engu um þau áform hans að halda áfram að lækka miðaverð. Hann býst við að samkeppnin á flugmarkaði verði áfram mjög grimm og hann geri ekki ráð fyrir því að meðalfargjöld hækki.

Hægt er að horfa á viðtalið við Skúla í heild sinni í spilaranum hér að ofan.