Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Að ögra listasögunni

Mynd: Starkaður Sigurðarson / Starkaður Sigurðarson

Að ögra listasögunni

11.03.2018 - 09:20

Höfundar

„Þó list Guðmundar hafi hugsanlega eitthvað sameiginlegt við Ásmund, eða tilvitnun í, þá aðallega vinnu Ásmundar að koma módernismanum til Íslands, þá eru þessir listamenn andstæður, algjörar.“ Á sýningunni Innrás í Ásmundarsafni er verkum Guðmundar Thoroddsen stillt upp með verkum Ásmunds og úr verður áhugavert samtal. Myndlistarrýnir Víðsjár leit við.

Starkaður Sigurðarson skrifar:

Það stendur yfir sýning í Ásmundarsafni er heitir Innrás. Þar eru verk eftir Guðmund Thoroddsen sýnd innan um yfirlitsýningu af verkum Ásmundar Sveinssonar sem opnaði síðasta sumar. Sú sýning heitir List fyrir Fólkið og var stýrt af Finni Arnari Arnarssyni og Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur, safnstjóra Listasafns Reykjavíkur. En nú þetta er ein sýning, í einu húsi. Innrás inn í list fyrir fólkið.

Það fyrsta er titillinn, Innrás. Þegar maður gengur inn þá lítur sýningin ekki þannig út, að hér standi yfir kapp, víg, hernaður jafnvel. Það er illa hægt að gera Ásmund vígalegan, og Guðmundur Thoroddsen gerir ljúfa listhluti sem ekki pota of fast í þig nema þú viljir það. Hér sér safngestur öll kunnuglegu verkin hans Ásmundar í mismunandi útgáfum: Helreiðin, Svört ský, Vatnsberinn, eik, steinn, steypa, járn. Og innan um þessar kunnuglegu sjónir eru verk Guðmundar. Líka oft unnin úr leir, en líka úrklippum, glerungi, uppi á vegg, en ekki lágmynd endilega. Guðmundur sýnir bikara, eins og verðlaunabikara, nema þeir eru afskræmdir, hráir, grófir, sumir myndu segja ljótir. Fyrir hvað myndi maður vinna slíkan bikar? Að bora í nefið? Eða kasta framhjá körfunni?

Annað tungumál

Líkt og með Ásmund þá sést skýrt að mennskar hendur gerðu þessa hluti. En verk Guðmundar eru í litum, eitthvað sem Ásmundur gerði ekki mikið. Og verkin hans Guðmundar eru á stöplum í litum, jarðlitum, gráum, en líka einn blár, á meðan stöplarnir hans Ásmundar eru svartir inni í þessu sveigða hvíta rými. Stöplarnir og litirnir segja: hér er eitthvað annað í gangi, annað tungumál. Maður tekur eftir hversu ólíkir þessir listamenn eru, já, en þeir eru líkir líka. Þeir eiga sameiginleg form, eiga sameiginlegt að hér eru jarðefni unnin af höndunum, birtingamyndir mannsins, en líka gleði þess að skapa hlut sem hægt er að skoða og túlka sjálfstætt. Og allavega inni í þessu rými, einkennilega rými sem Ásmundur hannaði sjálfur, eru þessir hlutir í sama skala, safngestur skoðar þá frá sama sjónarhorni.

En hvar er innrásin? Innrás inn í hvað? Af hverju Guðmundur og Ásmundur? Það sem opnar þessa sýningu, gerir hana flókna, lýsir upp baráttuna, er verk frá 1928, og hefur verið skrifað um það áður. Í viðtali við Morgunblaðið í apríl í fyrra, 2017, sagði Ólöf sýningarstjóri að „Við vorum búin að ræða þetta alveg rosalega mikið. Við erum búin að fara í marga hringi með þetta.“ Áhugavert. Verkið er brons stytta sem Ásmundur vann á námsárum sínum í París. Það sýnir naktann mann sem stendur uppréttur og horfir áfram. Ásmundur sagði að þetta hafi veri bein stúdía, einhverskonar ljósmynd, af þessu módeli. Maðurinn er svartur, það er að segja, hann á uppruna sinn ef til vill að rekja til Afríku, og Ásmundur gefur þessu verki titil sem ég ætla ekki að segja. Þar sem flestar stytturnar hans Ásmundar eru að gera eitthvað, Veðurathugunarmaðurinn er að hofa upp í himininn á veðrið, Vatnsberinn ber vatn, Dauði Grettis er Grettir deyjandi, þá stendur þetta verk sér þannig að titillinn gefur þessari styttu enga aðild að heiminum. Titillinn lýsir styttunni sem svörtum manni einungis, ekki vatnsberi, eða Grettir, eða móðurást. Veðurathugunarmaðurinn er ekki hvítur maður fyrst og svo veðurathugunamaður. Og Ólöf talar um þetta, sagði hún: „Tilgangur heitisins er eingöngu að lýsa þessum einstaklingi sem verkið er af, út frá kynþætti.“ Þetta er verk af öðrum tíma.

Lykill að sýningunni

Hér hitnar sýningin. Þessi stytta er ekki úti í horni eða bakvið einhvern skjöld í rýminu, rými sem er þétt skipað af verkum, þar sem margt væri hægt að fela, heldur er henni stillt upp miðsvæðis með pláss í kringum sig, og nálægt aðalmyndfleti Guðmundar. Safngestur á að sjá þessa styttu. Það hefði verið auðvelt að sýna hana ekki. Þetta var námsverkefni, eitt af fyrstu tilraunum Ásmundar, eitthvað sem kom áður en hann varð sá listamaður sem við þekkjum hann til að vera. Og safngestur þá spyr sig: af hverju er þetta verk hérna? Svarið hlýtur að vera að sýningastjóri sér það sem lykil af því sem sýningin sýnir. Lykill af því hvernig Guðmundur og Ásmundur tala saman.

Verk Guðmundar Thoroddsens tala um feðraveldið, rökskekkjur í óskiljanlegum heimi þar sem karlar í karllægum búningum ráða flestu. Hann gerir grín, potar göt í sjálfan sig, karlmaður, sem er þó ekki frekur, heldur sem sér fjarstæðukenndu stoðirnar sem líf okkar byggist á. Þó list Guðmundar hafi hugsanlega eitthvað sameiginlegt við Ásmund, eða tilvitnun í, þá aðallega vinnu Ásmundar að koma módernismanum til Íslands, þá eru þessir listamenn andstæður, algjörar. Svo miklar andstæður að það opnar spurningar á hvað orðið andstæða þýðir. Hvernig er hægt að bera saman listamenn af þeim ólíku tímum eins og Ásmundur Sveinsson og dagurinn í dag? Heimurinn sem Ásmundur, hvíl í friði, bjó í er brostinn. Hans módernismi og vissuhyggja brotnaði undan hans stöplum fyrir mörgum árum. Verkin hans voru pedagógísk, ekki búin til fyrir heiminn í dag. Þau vilja segja manni eitthvað, eitthvað sem var hægt að vita fyrir víst. Að heimurinn væri kannski ekki alltaf fallegur en það væri hægt að gera hann fallegan, að vinna saman að betri heimi með list og praktík og skynsemi.

Mynd með færslu
 Mynd: Starkaður Sigurðarson

 

Guðmundur Thoroddsen segir eitthvað þveröfugt, eitthvað skítugra. Hann veit að listheimurinn og heimurinn og sjálfið flýtur á afar þunnri himnu. Ef Ásmundur Sveinsson trúði því að allt væri fallegt, jafnvel það sem „ljótt“ væri, þá segir Guðmundur að allt fallegt sé ljótt. Að ljótt er ekki orð sem er til, ekki fallegt heldur, það er huglægt mat sem ekki er hægt að véfengja. Að öll þessi orð og hugtök og efnistök eru hugsunarskekkja og það er aldrei hægt að vera einlægur, bara falskur, þröngsýnn. Og hér birtist kjöt sýningarinnar á beininu.

Verðlaun fyrir eitraða karlmennsku?

Hvað hafa leirverk Guðmundar að segja við Ásmund? Þar er eitt einkennilegt við sýninguna, það eru hvergi titlar sjáanlegir fyrir verkin hans Guðmundar. Er þetta tilraun til að ögra myndlæsi íslendinga? Eitthvað sem Ásmundur sagði alltaf skorta hér á landi. Eins og mátti sjá í Vatnsbera málinu. En í dag þar sem internetið er til þá er auðvelt að finna titla þessa á heimasíðu listamannsins. Bikararnir hafa nöfn. Einn heitir Skítfés, annar Hvítfés, annar Hvítur Maður. Hér er skyndilega kominn annar helmingur af þessari sýningu. Eru bikararnir verðlaun fyrir eitraða karlmennsku? Eða yfirlýsing um að karlmennska sé einungis orð eða afstaða? Meðal þeirra karlmanna sem Guðmundur lækkar í tign, potar í, er Ásmundur. Það er komin brú á milli splúndraða veruleika Ásmundar til okkar og þeirrar tvíræðni sem ríkir í dag, heimur sem er á endanum kannski ekki minna splúndraður. Heimur þar sem er hægt að vera einlægur bara ef maður er líka aðeins að grínast. Þar sem hægt er að vera viss um eitthvað bara ef maður viðurkennir sömuleiðis sína eigin fáfræði. Innrásin dregur út úr Ásmundi spurningu um daginn í dag, spurning sem hann myndi ef til vill aldrei spyrja sjálfur. Í þessum verkum birtist þakkarskuld til Ásmunds auðvitað, en líka beinskeytt gagnrýni.

Það er verið að tala við brostnu útópíu Ásmundar. Ögra hugmyndum safngestsins um hugmyndina af Ásmundi. Hugmynd sem við sjáum á götum bæjarins á hverjum degi. Við skoðum Ásmund út frá þessu sjónarhorni, hvar við erum niðurkominn í dag. Það væri ómögulegt að afneita honum, en það er áhugavert að reyna sjá hann allan fyrir okkur í okkar heimi. Heimur sem við viljum halda hefur breyst.

Lúmsk innrás

Á þessari sýningu er þá hægt að að spyrja stórra spurninga. Hvernig er hægt að skilja fortíðina í ljósi nútímans? Hverskonar samtal þarf það að vera? Hvað má hunsa? Hvað ekki? Hvað er íslensk listasaga ef henni er ekki ögrað? Hver er munurinn á því að sýna verk eftir látinn mann og lifandi? Í heimi sjálfsmyndarpólitík er Ásmundur Sveinsson ekki heilsteyptur. Norrænn, hvítur, gagnkynhneigður, heimur. Það er engin höggmynd Piltur og Piltur. Við í dag getum ekki skilið Ásmund á hans forsendum. En spurningin er ekki hjá Ásmundi, hann getur ekki svarað því afhverju lúmska innrás Guðmundar inn í þennan heim opnar spurningar um sjálfsmynd Íslendinga. Spurningin er hjá okkur hér sem þurfum að kljúfa úr fortíðinni skilning, ákveða hvað á að taka með okkur og hvað ekki. Og þá er 1928 ekki svo langt síðan.