Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Að meðaltali sjö tíma á dag í símanum

21.11.2018 - 22:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Margir kannast við það að eyða of miklum tíma í símanum en með nýlegri uppfærslu getur fólk nú stjórnað skjátíma sínum betur. Sviðsstjóri hjá landlæknisembættinu segir að skjátími sé áskorun en ekki sé rétt að hræðast afþreyingu eins og samfélagsmiðla. Háskólanemi segist verja sjö klukkustundum á dag í símanum og sautján tímum á viku á samfélagsmiðlum.

Nýjar uppfærslur í snjallsímum gera fólki betur kleift að fylgjast með skjátíma sínum. Mörgum er brugðið hvað það eyðir löngum tíma fyrir framan skjáinn en þarna er hægt að sjá svart á hvítu í hvað nákvæmlega sá tími fer.

„Ég er að meðaltali sjö tíma á dag. Ég er að eyða 17 klukkustundum á viku á samfélagsmiðlum, ef ég skil þetta rétt. Ég hélt ég væri að eyða kannski níu tímum á viku. Þetta er meira en ég áttaði mig á,“ segir Gabríela Ósk Víðisdóttir, nemi í félagsfræði.

Erfitt að gefa út viðmið um skjátíma

Almenningur hefur þrýst á embætti landlæknis að gefa út viðmið um skjátíma fyrir bæði börn og fullorðna. Til er viðmið fyrir börn að fimm ára aldri.  Þar kemur meðal annars fram að ekki sé æskilegt að halda skjáum að börnum fram að 18 mánaða aldri. Sviðsstjóri hjá landlækni segir að erfitt sé að byggja slík viðmið á áreiðanlegum rannsóknum vegna þess hve ört símanotkun og samfélagsmiðlar breytist.  

„Það er í rauninni ekki hægt að gefa út, heyrðu svona margar mínútur eru slæmar og svona margar mínútur eru slæmar. Þetta þarf að skoða í víðara samhengi,“ segir Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur og sviðstjóri hjá áhrifaþáttum heilbrigðis hjá embætti landlæknis.

Háður skjánotkun af augljósum ástæðum

Nemendur sem fréttastofa ræddi við í dag voru að meðaltali fimm og hálfa klukkustund í símanum á dag.  „Smá sláandi kom samt ekki mikið á óvart. Ég eyði að meðaltali sex klukkustundum á dag,“ segir Númi Sveinsson, nemi í vélaverkfræði. Helduru að þú minnkir notkunina núna? „Nei. Maður er eitthvað svo háður þessu en af augljósum ástæðum.“

Lovísa Fanney Árnadóttir, nemi í þýsku er mest fjóra tíma á dag í símanum. „En það er mismunandi hvað ég er dugleg í skólanum. Læt símann vera og set hann á ekki trufla-stillinguna. Ég reyni að passa mig. Ég held að fólk átti sig ekki á þessu,“ segir Lovísa.

Jákvætt að auka meðvitund

Dóra segir jákvætt að símafyrirtækin séu farin að gefa út öpp sem hjálpi fólki að fylgjast með skjánotkun. „Ég held að það sé jákvætt að við séum meðvituð. Og áttum okkur á því, er ég sátt við það að eyða svona miklum tíma eins og síminn minn gefi mér upp á þessi forrit? Ég held að það sé jákvætt að geta slökkt á á ákveðnum tíma.“

Er þetta áhyggjuefni eða bara breyttir tímar? „Ég held að þetta sé áskorun. Við eigum ekki að hræðast samfélagsmiðla og skjái heldur eigum við að taka þessari áskorun og finna hvernig við lifum með því á sem uppbyggilegastan hátt,“ bætir Dóra við.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV