Að komast af án garðaúðunar

Mynd með færslu
 Mynd:

Að komast af án garðaúðunar

05.05.2014 - 17:01
Ef eitur er notað á garðinn til að losna við smádýrin sem fara illa með gróður, eru líkur á að mun fleiri tegundir verði fyrir barðinu á eitrinu. Jafnvel þær sem vinna ýmislegt gagn. Því þótt tilgangurinn með inngripinu sé einfaldur geta áhrifin orðið flókin eins og gjarnan í lífríkinu.

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur talar í dag um notkun eiturefna í görðum og bendir á leiðir til að komast af án þeirra.

Sjónmál mánudaginn 5. maí 2014

------------------------------------------------------------  

Pistill Stefáns - Garðaúðun

Nú fer í hönd sá tími sem fólk eyðir hvað mestum tíma í görðunum sínum, það er að segja þeir sem búa svo vel að hafa aðgang að slíku. Ég hef ekki séð neinar nýlegar tölur um það hversu margir Íslendingar stundi garðrækt af einhverju tagi, en ég geri ráð fyrir að þeim fari fjölgandi. Alla vega virðist þróunin vera í þá átt í löndunum í kringum okkur, þar sem fólk ræktar eigin matjurtir í auknum mæli og sífellt meira er rætt um borgarlandbúnað, borgargarða og jafnvel græn þök sem mikilvægan þátt í fæðuöryggi mannkynsins.

Garðar þurfa umhirðu. Annars er hætt við að þar vaxi ekki nógu mikið af því sem maður vill að vaxi þar – og of mikið af því sem maður vill ekki að vaxi þar. Svo skjóta þar stundum upp kollinum alls konar smádýr sem eiga það til að eigna sér hluta af uppskerunni. Baráttan við gróður sem maður vill ekki að vaxi í garðinum og dýr sem maður vill ekki að gæði sér á matjurtum, rósum og runnum sem þar vaxa, er eitt þeirra verkefna sem máli skiptir hvernig leyst er af hendi. Þar sem víðar er ekki til nein ein einföld lausn, enda hafa einfaldar lausnir oft ólíklegustu aukaverkanir.

Fiðrildalirfur eru sjálfsagt eitt algengasta vandamálið sem garðeigendur glíma við á sumrin. Í versta falli éta þær upp heilu limgerðin og jafnvel annan gróður í garðinum. Algengasta viðbragðið við þessu vandamáli er líklega að úða limgerðið með þar til gerðu eitri, enda er líklegt að svoleiðis eitur drepi lirfurnar, að minnsta kosti ef því er úðað á réttum tíma. En þarna gildir það sama og annars staðar í lífríkinu að þó að tilgangurinn með inngripinu sé einfaldur, geta áhrifin verið flókin.

Fyrir nokkrum árum var bankað á útidyrnar hjá mér að kvöldi til. Þar var kominn maður með réttindi til að úða garða. Erindið var að bjóðast til að úða hjá mér limgerðið með einhverju skordýraeitri sem ég man ekki lengur að nefna – og það fyrir sérstaklega lítinn pening, enda sagði maðurinn að allir nágrannar mínir væru búnir að þiggja þessa þjónustu og þar með kæmi hagkvæmni stærðarinnar mér til góða. Ég tók erindinu hins vegar fálega og sagðist ekki vilja neitt eitur. Þá fullvissaði maðurinn mig um að þetta tiltekna efni væri alveg skaðlaust fyrir fólk. Ég sagðist svo sem ekkert ætla að rengja það – og að sjálfsagt myndu lirfurnar drepast og ég lifa að meðferð lokinni. Þetta mál snerist hins vegar ekki bara um mig og lirfurnar. Það snerist líka um hunangsflugur, geitunga, fugla, lífríki í nærliggjandi vötnum, um þörfina fyrir að eitra aftur næsta vor og svo líka um allt hitt sem ég hefði ekki hugmynd um hvernig virkaði í náttúrunni. Manninum þótti ég þver, sem var eflaust rétt hjá honum, og ekkert varð úr viðskiptunum.

Einn helsti vandinn við garðaúðun er sá að skordýraeitur drepur ekki bara skordýr sem valda tjóni í garðinum okkar, heldur líka önnur skordýr og smádýr sem gera gagn og éta jafnvel tjónvaldana. Í þeim hópi eru t.d. hungangsflugur eða humlur sem bera frjókorn á milli plantna, sníkjuvespur og sveifflugur sem nærast á fiðrildalirfum og blaðlúsum og köngulær sem eru útsjónarsamir skordýraneytendur. Ef þessum dýrum er rutt úr vegi með eitri verður lífið trúlega bærilegra fyrir næstu kynslóð af fiðrildalirfum og eiturþörfin að skapi meiri næsta sumar.

Ég er ekki í aðstöðu til að fullyrða neitt um áhrif skordýraeiturs á fugla, en það er alla vega erfitt að ímynda sér að fiðrildalirfur sem nýbúið er að úða eitri á séu holl fæða fyrir ungana sem eru einmitt að vaxa úr grasi um svipað leyti og garðaúðun stendur sem hæst. Sumir fuglar eru afkastamiklar lirfuætur – og fyrir svoleiðis fugla er vont að vera í görðum þar sem boðið er upp á eitraðar lirfur, já eða bara alls engar lirfur. Þess vegna er líklegt að fuglarnir velji sér frekar búsetu í görðum þar sem farið er sparlega með eitur.

Ef niðurstaðan er sú að það borgi sig ekki að úða limgerði til að útrýma fiðrildalirfum, er eðlilegt að spurt sé hvað sé þá til ráða. Við því er náttúrulega ekki til neitt eitt rétt svar, náttúrulega ekki. Svarið er hins vegar eitthvað í þá átt að í fyrsta lagi skipti máli að klippa limgerðið á réttum tíma, það er að segja í síðasta lagi þegar plönturnar byrja að laufgast og egg fiðrildanna eru að klekjast út. Flest eggin sitja nefnilega utarlega á greinunum og fylgja því með afklippunum. Í öðru lagi borgar sig að rækta tegundir sem eru ekki í uppáhaldi hjá fiðrildalirfum. Í þriðja lagi skiptir fjölbreytni plantnanna í garðinum miklu máli. Rósir og aðrar blómstrandi plöntur eru til dæmis vel til þess fallnar að auðga skordýralífið og koma þannig á eðlilegu jafnvægi á milli þeirra sem éta og eru étnir. Í fjórða lagi er snjallt að laða til sín fugla, t.d. með því að auðvelda þeim hreiðurgerð og halda köttum í hæfilegri fjarlægð. Í fimmta lagi skiptir hönnun og fyrirkomulag miklu máli fyrir heilbrigði garðsins. Því fjölbreyttari sem garðurinn er, þeim mun meiri líkur eru á að þar haldist þokkalegt jafnvægi. Fyrirbæri á borð við tjarnir, rennandi vatn, dálitla órækt og haug af garðaúrgangi geta öll stuðlað að því að vel gangi.

Við þetta allt er svo því að bæta að jafnvel þótt fiðrildalirfur éti öll blöðin af limgerðinu í sumarbyrjun eru góðar líkur á að það verði aftur orðið fulllaufgað og skrúðgrænt innan fárra vikna. Og svo eru líka til ýmsar vistvænar og ódýrar leiðir til að ergja lirfurnar án þess að það skaði annað líf í garðinum. Það hefur til dæmis reynst mörgum vel að úða limgerði með vatnsþynntri blöndu af grænsápu og íslenskum þörungaáburði, sérstaklega ef það er gert nógu snemma. Slík blanda hefur fælingarmátt, af því að hún gerir laufblöðin sleip og bragðvond, alla vega um stundarsakir.

Hér hefur mér orðið tíðrætt um fiðrildalirfur, en þær eru síður en svo eina vandamálið sem fólki dettur í hug að eyða með eitri. Enn þann dag í dag sé ég til dæmis fólk sáldra casoroni í beð þar sem illgresi er óvelkomið. Casoron inniheldur virka efnið díklóbeníl, sem Danir bönnuðu notkun á fyrir 18 árum. Sambærilegt bann tók gildi í löndum Evrópusambandsins þann 13. apríl 2011. Rökin fyrir banninu voru meðal annars þau að tiltekið niðurbrotsefni díklóbeníls væri mjög þrávirkt, það mældist víða í grunnvatni, gæti hugsanlega borist langar leiðir í andrúmslofti og væri bráðhættulegt fyrir fugla og önnur dýr sem ætu orma úr jarðvegi. Þrátt fyrir þetta fæst casoron enn víða á Íslandi. Efnið getur enst í jarðvegi í nokkur ár, þannig að hvað sem duttlungum stjórnvalda í útlöndum líður getur maður lent í veseni ef manni dettur í hug að rækta eitthvað í mold sem áður hefur verið meðhöndluð með casoroni. Stundum dettur fólki jú í hug að breyta til í garðinum.

 Eitur kann að vera einföld lausn, en einfaldar lausnir hafa oft ólíklegustu aukaverkanir, jafnt í görðum sem annars staðar.