Að búa sér til rútínu er númer eitt, tvö og þrjú

Mynd: RÚV / RÚV

Að búa sér til rútínu er númer eitt, tvö og þrjú

27.03.2020 - 14:32
Kristín Hulda Gísladóttir frá Geðfræðslufélaginu Hugrúnu var gestur í fyrsta þætti Núllstillingarinnar. Í þættinum ræddi hún meðal annars mikilvægi þess að taka rútínuna föstum tökum á tímum sem þessum.

Kristín Hulda segir sálfræðina almennt segja að á óvissutímum sem þessum þar sem hin hefðbundna rútína flestra er fokin út um gluggann sé mikilvægt að búa sér sjálfur til rútínu og hafa einhverja fasta punkta yfir daginn. Reyna að vakna alltaf á ákveðnum tíma, fara að sofa á ákveðnum tíma, reyna að hreyfa sig og gera eitthvað sem manni finnst ánægjulegt. 

„Það sem gerist þegar svona ástand ríkir er að það verður samfélagsleg virknisskerðing. Þú ert kannski almennt að gera tíu hluti í lífinu, ferð í skólann, ræktina, hittir þennan vinahóp og hinn vinahópinn og svo ertu allt í einu að gera ekkert.“

Kristín Hulda segir það gott að setjast einfaldlega niður, ákveða sig og skrifa niður hvenær maður ætlar að vakna, hvenær maður ætlar að borða, ákveða hvaða bók maður ætlar að lesa, ekki vera bara með einhverjar óljósar hugmyndir á bak við eyrað í gegnum daginn. Þá skipti máli að vera með allavega tvo ánægjulega hluti á plani dagsins, hvort sem það er að dansa, hugleiða, fá sér ís eða baka. „Það eru til heilu listarnir á netinu af hlutum sem gæti verið skemmtilegt að gera,“ bætir hún við.

Kristín Hulda var gestur Atla og Snærósar í Núllstillingunni á RÚV 2, viðtalið við hana í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn er í beinni útsendingu á RÚV 2 alla virka daga á meðan samkomubanni stendur. Gestir þáttarins í dag eru þau Patrekur Jaime samfélagsmiðlastjarna, Jón Jónsson tónlistarmaður, Salný Kaja ung og upprennandi leikkona sem er að fara að taka þátt í leikinni þáttaröð á vegum RÚV núll, Indíana Rós kynfræðingur og Arnar Eggert tónlistarspekúlant. Þátturinn hefst klukkan 16.