Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ábyrgist ekki saltið í matvæli

14.01.2012 - 19:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Ölgerðin neitar að upplýsa hvað rúmlega 90 matvælaframleiðslufyrirtæki keyptu af henni iðnaðarsalt. Framleiðandinn segist ekki ábyrgjast að varan sé nothæf í matvæli.

Ölgerðin hefur árum saman flutt inn salt frá fyrirtækinu Akzo Nobel. Það framleiðir ýmsar tegundir salts, bæði til notkunnar í mat og eins til notkunar í iðnaði. Ölgerðin flutti inn iðnaðarsaltið, sem framleitt er í Danmörku, og seldi það til hérlendra matvælaframleiðslufyrirtækja, en það er ekki vottað til slíkrar notkunar.

Eins og sagt var frá í gær komst Matvælastofnun að því fyrir fáeinum vikum hvernig í pottinn var búið.  Samkvæmt innihaldslýsingu er mjög lítill munur á efnasamsetningu iðnaðarsaltsins og matarsaltsins. Framleiðsluferli matarsaltsins er í samræmi við svokallaðan HACCP staðal en iðnaðarsaltsins ekki, sagði talsmaður Akzo Nobel, þegar fréttastofa náði við hann símasambandi í dag.

Hann segir að þrátt fyrir gæði iðnaðarsaltsins ábyrgist fyrirtækið ekki að það sé nothæft í matvæli. Iðnanaðarsaltið sé notað í ýmsum efnaiðnaði, í fatagerð, dýrafóður, klórframleiðslu og lyfjaframleiðslu. Ölgerðin hefur stöðvað dreifingu á saltinu og sent bréf til níutíu og eins viðskiptavinar þar sem þeim er gerð grein fyrir málinu. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir fréttastofu neitar Ölgerðin að upplýsa hverjir kaupendurnir voru.