Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ábyrgð Facebook á þjóðarmorðinu á Róhingjum

28.09.2018 - 15:34
epa06198377 Rohingya refugees sit under trees in a forest during hot weather in Ukhiya, Cox's Bazar, Bangladesh, 11 September 2017. Rohingya refugees experience huge problems to find shelters as they stay on the streets, inside small forest and in
 Mynd: EPA
Stjórnarherinn í Mjanmar hefur verið sakaður um þjóðarmorð á Róhingjum, tugþúsundir hafa verið myrtar og meira en 700.000 Róhingjar hafa verið hraktir á flótta yfir til nágrannaríkisins Bangladess. Facebook sætir nú ásökunum um að hafa verið notað til þess að kynda undir hatri á þessum minnihlutahópi og að eiga ákveðna sök á morðum og misþyrmingum á þessu fólki.

Hatursáróður gegn Róhingjum

Ofsóknir gegn Róhingjum, sem eru múslimar sem búa í Rakhine-héraði á vesturströnd Mjanmar, hafa nú staðið yfir í fimm til sex ár. Einn þeirra fyrstu sem hóf skipulagða dreifingu á áróðri gegn Róhingjum er Búddamunkurinn Ashin Wirathu. Hann hefur hvatt til ofbeldis gegn Róhingjum og að þeim verði útrýmt. Hann hefur notað Facebook grimmt til þess að breiða út hatur sitt á Róhingjum.

Farsíma- og netþróun í Mjanmar hefur verið ógnarhröð á síðustu árum. Árið 2012 notaði einungis 1,1 prósent þjóðarinnar netið. Árið 2013, eftir að herforingjastjórnin mildaði heljartak sitt á þjóðinni, hófu tvö erlend símafyrirtæki starfsemi í landinu og þá má segja að allar flóðgáttir hafi opnast. Verð á símum snarlækkaði og þremur árum síðar átti helmingur þjóðarinnar farsíma, flestir snjallsíma með aðgangi að netinu. Markaðssókn Facebook tókst afar vel og skyndilega var það orðið mikilvægt stöðutákn að vera á Facebook. Almenningur setti samasemmerki á milli netsins og Facebook og notaði Facebook sem helstu uppsprettu frétta. Stjórnvöld í Mjanmar nota Facebook enn þann dag í dag til þess að senda frá sér mikilvægar tilkynningar og yfirlýsingar.

Þegar árið 2013 fóru að streyma tilkynningar til Facebook um að verið væri að nota eða misnota samfélagsmiðilinn til þess að dreifa hatursáróðri gegn Róhingjum. Það væri sérlega varasamt í landi þar sem almenningur hélt í raun að allt sem birtist á Facebook væri sannleikur. Því var til að mynda haldið stíft að almenningi að Róhingjar væru ólöglegir innflytjendur frá Bangladess og að þeir ætluðu að sölsa undir sig völd í Mjanmar. Það er nú orðin útbreidd skoðun á meðal almennings í Mjanmar.

Sök Facebook í þjóðarmorðinu

Alþjóðlega fréttastofan Reuters, sem nýlega fjallaði ítarlega um þátt Facebook í þjóðarmorðinu á Róhingjum, segir að Facebook hafi gert afar lítið til að spyrna við því að hatri gegn Róhingjum væri dreift í Mjanmar. Í ársbyrjun 2015 hafi aðeins tveir starfsmenn Facebook kunnað búrmönsku, sem er hið opinbera tungumál í Mjanmar. Enn þann dag í dag er enginn starfsmaður Facebook í Mjanmar, landi sem telur 50 milljónir íbúa, þar af eru 18 milljónir virkar á Facebook. Allt eftirlit með innihaldi fer fram utanlands.

Stjórnendur Facebook viðurkenna að þeir hafi brugðist allt of seint og illa við og hafa lofað bót og betrun. Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, kom fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings í apríl. Þar var hann spurður beint út hvaða sök Facebook bæri í þjóðarmorðinu á Róhingjum.

Hann sagði þá að Facebook væri að ráða tugi búrmönskumælandi starfsmanna til þess að fylgjast með hatursræðu sem dreift væri í Mjanmar. Hann viðurkenndi að Facebook þyrfti að taka sig verulega á.

Sameinuðu þjóðirnar sendu nýlega frá sér ítarlega skýrslu um framferði hersins í Mjanmar gegn Róhingjum. Það er hrikaleg lesning. 700.000 Róhingjar hafi þurft að yfirgefa heimili sín og flýja til nágrannaríkisins Bangladess. Tugþúsundir hafi verið drepnar og konum nauðgað. Lýsingar í nýlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna voru svo hræðilegar að sum dagblöð vöruðu við lestri greina um skýrsluna.

Skýrslan fer hörðum orðum um hlut Facebook í þjóðarmorðinu á Róhingjum. Fullyrt er að samfélagsmiðillinn hafi verið gagnlegt verkfæri þeirra sem vildu dreifa hatri og óhróðri um Róhingja og að viðbrögð hafi verið hæg og léleg. Rannsaka þurfi til hlítar sök Facebook í þjóðarmorðinu. 

Facebook hefur brugðist við þessum ásökunum með því að lofa því að 100 búrmönskumælandi starfsmenn verði ráðnir á næstunni til þess að hreinsa hatursræðu um Róhingja af Facebook. Þá hefur 20 Facebook-reikningum verið lokað, þar á meðal reikningar nokkurra hershöfðingja og munksins Wirathu sem gengur orðið undir gælunafninu Bin Laden Burma.

Hvernig hefur Facebook gengið að standa við loforð Zuckerbergs frá því í apríl um að taka til og grisja hatursræðuna gegn Róhingjum?

Alþjóðlega fréttastofan Reuters fann nýlega meira en 1.000 innslög á Facebook-síðum í Mjanmar sem myndu flokkast undir hatursræðu. Þar er ráðist á Róhingja og aðra múslima og óhróðri dreift um þá. Rannsókn Reuters leiddi í ljós að sum ummælin hafa verið á Facebook í meira en sex ár. Í ummælunum eru Róhingjar og aðrir múslimar kallaðir hundar, maðkar og nauðgarar og að réttast væri að útrýma þeim af yfirborði jarðar. Öll þessi ummæli stríða gegn stefnu Facebook um að leyfa ekki hatursræðu gegn ákveðnum þjóðfélags- og minnihlutahópum. Það er því deginum ljósara að Facebook á langt í land með að uppfylla loforð sitt og standa við stefnu sína. 

Miðað við það sem gerst hefur í Mjanmar, að einhverju leyti fyrir tilstuðlan Facebook, er ljóst að einkunnarorð samfélagsmiðilsins um að tengja fólk eru hálfgerð öfugmæli. Það er öllu nær að segja að Facebook sundri fólki.