Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Abrini er maðurinn með hattinn

09.04.2016 - 17:39
epa05247718 A photo presented by Belgian Federal prosecutors shows a suspect wanted in connection with the Brussels attacks of 22 March, during a press conference two weeks after terror attacks, at the Federal Prosecutor office in Brussels, Belgium, 07
 Mynd: EPA
Fjórir menn af sex sem handteknir voru í Belgíu í gær hafa verið ákærðir, tveir þeirra fyrir hryðjuverk og morð vegna aðildar sinnar að árásunum í París og Brussel. Annar þeirra, Mohamed Abrini, var þriðji maðurinn sem sást á myndum fyrir sjálfsvígsárásina á flugvellinum í Brussel 22. mars.

Mohamed Abrini hafði verið leitað vegna aðildar að hryðjuverkunum í París í nóvember. Haft var eftir belgískum saksóknurum síðdegis að Abrimi hefði einnig verið við árásina á flugvellinum í Brussel, maðurinn með hattinn sem sást ásamt hinum tveimur ódæðismönnunum á upptökum öryggismyndavéla rétt áður en þeir létu til skarar skríða.

Hann hefði viðurkennt við yfirheyrslur að hafa tekið af sér sprengjubeltið, hent því í ruslatunnu og forðað sér. Hann hefði síðan selt hattinn.

Osama Krayon, sænskur ríkisborgari sem ólst upp í Malmö, var einnig ákærður fyrir morð vegna aðildar að hryðjuverkunum  í Brussel. Að sögn breska blaðsins Daily Mail gekk hann til liðs við Íslamska ríkið fyrir tveimur árum.

Fréttastofan AFP segir hann hafa sést á Maalbeek lestarstöðinni ásamt þeim sem þar sprengdi sig í loft upp og hafa keypt töskurnar sem sprengjumennirnir á flugvellinum földu sprengjur sínar í. Hinir tveir voru ákærðir fyrir að hafa aðstoðað Abrini og Krayon.