Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Áberandi mikið af mýi við Mývatn

13.06.2016 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Ívarsdóttir - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Ívarsdóttir - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Ívarsdóttir - RÚV
Óvenju mikið hefur verið um mý við Mývatn síðustu daga og hafa veiðimenn við Laxá þurft að hverfa frá vegna þess. Minna er um varginn í Reykjahlíð og finna Mývetningar mest fyrir honum sunnan við vatnið.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að við Mývatn skuli allt vera morandi í mýi. Síðustu daga hafa þessi skordýr þó verið sérstaklega áberandi og strókarnir sjást greinilega þegar farið er um þjóðveginn sunnan við vatnið. Þegar keyrt er í gegnum ský af mýi hljómar það eins og það sem hellidemba, nema droparnir eru litlar flugur.

Veiðimenn gáfust upp

Hluti af flugunum er bitmý og því er nauðsynlegt að vera vel varinn útivið, með net yfir höfðinu. Veiðimenn sem veiða í Laxá á svæðum næst Mývatni hafa margir þurft frá að hverfa, segir Einar Jónsson á Sjónarhóli.

„Já, þeir fóru fyrr en áætlað var, ég held þeir hafi bara gefist upp fyrir flugu. Það er náttúrulega miklu meira við ánna, því hann á upptök sín þar,“ segir Einar.

Fær köfnunartilfinningu

Einar segir það misjafnt hvernig flugurnar leggjast á fólk. Þó netin haldi flugunum frá húðinni sé ekki þar með sagt að þau bjargi manni alveg.

„Hann liggur bara í netinu þannig að það getur vel verið að þú missir bara andann, ef hann er það mikill, og færð köfnunartilfinningu,“ segir Einar.

Mikill munur milli ára

Á síðasta ári var heldur kaldara í veðri en nú og því greinilegur munur á milli ára. Töluvert meira sé að flugu í ár. Heimamenn kippi sér þó lítið upp við þetta. Þegar hitinn verður mikið meiri en 20 stig ætti vargurinn að liggja niðri.

„Svona fimmtán stiga hiti og smá úði, þá er hann einna grimmastur. Ef það er mjög hlýtt, 20-25 stiga hiti þá vill hann leggjast bara niður og þá verður maður ekkert var við hann. En hann virtist ekki gera það núna í þessum hita, þá virtist hann bara aukast,“ segir Einar.

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV