Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Áætlanir Björgólfs í uppnámi

10.07.2012 - 14:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Allar fyrirhugaðar áætlanir Björgólfs Thors hvað Fríkirkjuveg 11 varðar eru í uppnámi, að sögn talsmanns hans, Ragnhildar Sverrisdóttur. Hún vill þó ekki tjá sig hvort til greina komi að selja húsið en segir fyrirséð að endurmeta þurfi stöðuna.

Mennta-og menningamálaráðherra ákvað að friða innra byrði hússins að tillögu Húsafriðunarnefndar og var úrskurður þess efnis birtur á vefsíðu Húsafriðunarnefndar. Húsið er þar með alfriðað því ytra byrði hússins var friðað í apríl 1978.

Björgólfur keypti húsið árið 2008 og segir Ragnhildur að allar þær breytingar sem fyrirhugaðar voru á innra byrði hússins hafi verið í samræmi við þær upplýsingar sem lágu fyrir þegar gengið var frá kaupunum.  Ráðinn hafi verið arkitekt sem hafi sérhæft sig í breytingum á gömlum húsum og því komi þessi andstaða nokkuð á óvart.

Hún segir að Björgólfur hafi keypt húsið út frá þessum forsendum en nú, þegar fyrirséð er að þær breytingar verði ekki að veruleika, hljóti menn að þurfa að setjast niður og endurmeta stöðuna. Hún segir jafnframt að framkvæmdir við viðhald á ytra byrði hússins hafi átt að hefjast í sumar en þeim hafi nú verið slegið á frest þar til ákvörðun hefur verið tekin um framhaldið.