Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Á þriðja tug tækja við snjómokstur á Akureyri

30.11.2015 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Mikið annríki er hjá framkvæmdadeild Akureyrar við snjómokstur. Miklum snjó kyngdi niður þar í gærkvöldi og nótt og flestar götur voru því ófærar. Allar helstu leiðir voru orðnar færar þegar leið á morguninn.

Jón Hansen, verkstjóri hjá framkvæmdadeildinni, segir þá vera með 20-25 tæki á götum og gangstígum við snjómokstur. „Það eru allar aðalgötur orðnar færar og tengigötur. Strætisvagnagötur eru færar en húsagötur almennt illfærar. Við förum að moka fjölbýlishúsagötur á morgun og hinar í framhaldi af því. Ég reikna með að við byrjum að moka húsagötur á morgun og fram á miðvikudag,“ segir Jón.

Lokið var við að moka veginn um Ólafsfjarðarmúla á ellefta tímanum, en hann ásamt Siglufjarðarvegi, lokaðist í gærmorgun vegna snjóflóða og snjóflóðahættu. Og í hádeginu var langt komið með að opna Siglufjarðarveg að sögn Víglundar Rúnars Péturssonar hjá Vegagerðinni á Sauðárkróki.

„Við getum stungið í gegnum þetta svona um og upp úr hádeginu. Við mokum úr sitt hvorri áttinni og það gengur ágætlega.  Við erum búnir að fara í gegnum eitt eða tvö snjóflóð sem voru ekkert gríðarlega stór. En þetta gengur ágætlega,“ segir Víglundur Rúnar.

Með deginum á að draga úr líkum á snjóflóðum á Tröllaskaga í bili, en óstöðug snjóalög eru til fjalla og varað er við fjallaferðum. Á vestanverðu landinu er gert ráð fyrir stormi og skafrenningi í fyrramálið og ofankomu þegar líður á morgundaginn. Á þeim landshluta gæti því orðið vonskuveður og ófærð á morgun.