Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Á þessum árum er framinn hraður“

Mynd með færslu
 Mynd: BSRB - ruv
Umönnunargjáin, tímabilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst í tryggt dagvistunarúrræði grefur undan foreldrum ungra barna, einkum konum sem eru fjórfalt til fimmfalt lengur heima en karlar. Þá hefur dregið úr því að karlar taki orlof. Hvað ætla stjórnvöld að gera í málinu? Ríkisstjórnin stefnir að því að lengja fæðingarorlofið og hækka orlofsgreiðslur í samtali við aðila vinnumarkaðarins, þá greinir á um ýmislegt en allir eru sammála um að eitthvað þurfi að breytast.

Mistök að skera kerfið niður

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, segir að þetta samtal við vinnumarkaðinn tengist ekki kjarasamningum, það séu engar forsendur sem þurfi að uppfylla. „Það er ekki ætlunin annað en að þetta verði að veruleika enda gríðarlega mikilvægt mál.“ Hann segir að það hafi verið mistök að skera niður kerfið eftir hrun.

„Þetta er svo gríðarlega mikilvægt kerfi, ekki bara fyrir jafnréttið, líka fyrir börnin. Þetta er einn af þessum liðum í almannatryggingakerfinu sem vil viljum beinlínis að sé nýttur mikið. Við viljum að þetta sé hátt því við viljum að fólk eignist börn og við viljum geta búið vel að barnafjölskyldum.“ 

Mynd með færslu
Ásmundur Einar Daðason. Mynd: RÚV
Félagsmálaráðherra.

Ásmundur vill gera tillögur starfshóps sem Eygló Harðardóttir, forveri hans í embætti, skipaði árið 2014 að leiðarljósi við endurreisn fæðingarorlofskerfisins. Í honum sátu fulltrúar frá ASÍ, BHM, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, SA, fjármálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Hópurinn lagði til að hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði yrðu hækkaðar í 600 þúsund krónur, að foreldrar fengju fyrstu 300 þúsund krónur af viðmiðunartekjum óskertar og 80% af viðmiðunartekjum sínum umfram það. Þá vildi hópurinn lengja orlofið úr níu mánuðum í tólf, eyrnamerkja hvoru foreldri fimm mánuði en gera þeim kleift að ráðstafa tveimur að vild. Loks lagði hópurinn til að leitað yrði leiða til að bjóða öllum börnum leikskóladvöl við tólf mánaða aldur. Til þess þyrfti þó að yfirstíga ýmsar hindranir varðandi húsnæði, starfsfólk og fjármagn.  Í skýrslu annars starfshóps á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, vegna þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi, frá árinu 2015, kom fram að miðað við að hver árgangur telji um 4.500 börn að meðaltali séu um 35% eins árs barna þegar í leikskólum. „Því þyrfti að bæta við í kringum 3.000 leikskólaplássum á landsvísu auk þess sem fjölga þyrfti starfsfólki um sem nemur um 700 stöðugildum til að uppfylla þarfir fyrir faglega umönnun yngstu barnanna. Því væri áætlaður rekstrarkostnaður við að bjóða upp á leikskólavist fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri allt að 5,8 milljarðar kr. á ársgrundvelli.“ Þetta yrði því stórt skref og líklega erfitt enda hefur mannekla verið vandamál á leikskólum undanfarið.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það þarf talsvert átak til að bjóða öllum börnum pláss frá 12 mánaða aldri. Hver á að sinna þeim þar?

Frumvarp væntanlegt næsta haust

Í skýrslu starfshópsins var lagt upp með að orlofið yrði lengt og greiðslur hækkaðar í áföngum frá 1. janúar 2019 og fram til ársins 2021, það miðaðist við að frumvarp yrði lagt fram strax og afgreitt en af því varð ekki, þá hafa tíð ríkisstjórnarskipti tafið framgang málsins. Þessi áætlun gengur því ekki eftir. Ásmundur hyggst leggja fram frumvarp um breytingar á fæðingarorlofskerfinu næsta haust en ekki liggur fyrir hvort allar tillögur starfshópsins rata inn í það frumvarp. Þá segist hann ekki geta sagt fyrir um hvenær markmið um 12 mánaða orlof og 600 þúsund króna hámarksgreiðslur verði uppfyllt. „Ég held það sé kannski ekki tímabært að segja nákvæmlega til um á hve löngum tíma, við gerum ráð fyrir því að það geti gerst yfir nokkur ár.“ 

Hækkun og lenging samhliða

Hann vill að ráðist verði í hækkun greiðslna og lengingu orlofs samhliða og í skrefum. Af nýrri skýrslu ráðherra um stöðu jafnréttismála má þó ráða að hækkun eigi að koma fyrst og lenging þar á eftir. Fram kemur að stjórnvöld hafi lagt áherslu á að hækka hámarksgreiðslur til foreldra til að auka líkur á að foreldrar, ekki síst feður, fullnýti rétt sinn innan kerfisins. Þannig gæti lenging á rétti foreldra til orlofs orðið að veruleika og hjálpað til við að brúa bilið milli fæðingarorolofs og leikskólavistar. Hækkanir á hámarksgreiðslum eru sagðar nauðsynlegar þar sem sú aðgerð að lengja fæðingarorlof nýtist ekki nema foreldrar sjái sér fært til að nýta rétt sinn innan kerfisins yfir höfuð.

Kerfið þjóni ekki markmiði sínu

Ásmundi er tíðrætt um samráð við aðila vinnumarkaðarins. Hver er þeirra sýn? 

Mynd með færslu
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB. Mynd: RÚV
Sonja vill hækkun og lengingu.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, vill bæði lengja orlofið og hækka greiðslur, helst samhliða. Bandalagið uppreiknaði nýlega upphæðir úr skýrslunni frá 2016, Sonja miðar því við að hámarksgreiðslur hækki í 645 þúsund á mánuði og tryggja verði að dagvistarúrræði taki við eftir orlof. Þá sé mikilvægt að málaflokkurinn heyri undir eitt ráðuneyti, ekki tvö eins síðastliðin þrjátíu ár. Leikskólar heyra undir menntamálaráðuneyti en dagvistunarmál undir velferðarráðuneytið. 

Þarna byrjar launamunurinn 

Núverandi kerfi tryggi ekki báðum foreldrum möguleika til þátttöku á vinnumarkaði að loknu orlofi. Markmiði laga um fæðingarorlof sé ekki náð. „Við sjáum meðal annars að launamunur kynjanna byrjar að myndast um þetta leyti, hann er minnstur meðal ungra einstaklinga á vinnumarkaði en verður meiri og meiri, eykst þarna á þessu tímabili þegar barneignirnar eru að byrja.“ 

Neikvæð viðhorf í sókn

Færst hefur í aukana að feður taki ekki fullt fæðingarorlof. Tölur frá Vinnumálastofnun sýna að árið 2013 nýtti fimmtungur feðra ekki rétt sinn að fullu. Bráðabirgðatölur fyrir árið 2017 benda til þess að nú eigi þetta við um meira en fjórðung þeirra. Endanlegar tölur munu ekki liggja fyrir fyrr en í lok árs 2019 þar sem foreldrar hafa 24 mánuði til að nýta rétt sinn til orlofs. Sonja segir að nútímafeður vilji jafnt og mæður vera með börnum sínum en karlar fái nú frekar neikvæðar athugasemdir í tengslum við töku fæðingarorlofs en áður. Hún efast ekki um að kerfið eins og það er í dag hafi neikvæð áhrif á fæðingartíðni. „Hiklaust, við sjáum að það sem hefur hvað helst áhrif á fæðingartíðni eru aðgerðir og stuðningur stjórnvalda.“ 

Hér má sjá hvernig fæðingum hefur fækkað eftir hrun:

 

 

 

Sonja segir að nú sé meiri samhljómur meðal stjórnmálamanna um að lengja fæðingarorlof og hækka greiðslur en oft áður. Þeir átti sig á því að það skipti ekki einungis máli fyrir foreldra í þessari stöðu heldur fyrir samfélagið allt. 

Hækka fyrst

Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum hjá ASÍ, segir sambandið á því að fyrst ætti að hækka greiðslur en lenging orlofs ætti að fylgja fast á hæla hækkunarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Maríanna.

Í skýrslu ASÍ um vinnumarkaðinn sem kom út í síðustu viku kemur fram að það vanti enn mikið upp á að kjör foreldra í fæðingarorlofi verði sambærileg og þau voru fyrir hrun. Þá námu mánaðarlegar hámarksgreiðslur um 500 þúsund krónum og innan við tíu prósent foreldra þurftu að þola skerðingar. Hámarksgreiðslurnar voru svo lækkaðar í skrefum og náðu botninum árið 2010 þegar þær námu 300 þúsund krónum á mánuði. Árið 2012 var svo komið að hámarkið hafði áhrif á tæpan helming feðra og rúman fimmtung mæðra. Frá árinu 2013 hefur þakið verið hækkað í skrefum, nú síðast í byrjun árs upp í 520 þúsund krónur. Því þurfa nú færri að þola skerðingar, 14% kvenna og 34% karla. Í skýrslunni er þó vakin athygli á því að þrátt fyrir þetta hefur kaupmáttur hámarksgreiðslna lækkað um 40% frá árinu 2007 og bilið milli meðallauna á vinnumarkaði og hámarksgreiðslna úr fæðingarorlofssjóði breikkað. 

Bakslag 

Maríanna segir að eftir að feðrakvótinn var settur á árið 2000 hafi menningin í samfélaginu og á vinnumarkaði breyst, það þótti sjálfsagt og eðlilegt að nýta þennan rétt. Niðurskurðurinn í hruninu hafi kippt fótunum undan þessum ávinningi. Rannsóknir staðfesti að börn sem á fyrstu mánuðum séu í nánum samskiptum við báða foreldra séu í meira jafnvægi, þetta skipti því miklu máli. 

Á þessum árum er framinn hraður

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

„Á þessum árum þar sem flestir eru að eignast börn er framinn oft býsna hraður. Stöðuhækkanir og annað eru að falla í skaut þeirra sem eru á milli þrítugs og fertugs oft. Fjarvera frá vinnumarkaði hægir auðvitað á þessu. Ég held að hluti skýringarinnar, hvers vegna það hefur hallað jafnmikið og raun ber vitni á konur í stjórnunarstöðum megi meðal annars rekja til þessa þáttar. Í fullkomnum heimi væri jöfn fjarvera foreldra frá vinnumarkaði samhliða barneignum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Leikskóli frá níu mánaða aldri

Samtökin leggja áherslu á að brúa umönnunarbilið með því að tryggja öllum börnum pláss á leikskóla frá níu mánaða aldri. Þetta mætti gera með því að hliðra innan kerfis þannig að börn byrjuðu í grunnskóla fimm ára gömul og útskrifuðust þaðan fimmtán. „Þá þyrfti ekki að ráðast í jafnmiklar fjárfestingar við að reisa leikskóla úti um allt,“ segir Halldór. 

Rannsóknir sýna að tekjur feðra hækka en mæðra lækka við barneignir hafa jákvæð áhrif á tekjur karla en neikvæð áhrif á tekjur kvenna. SA telja því að það að gera fólki kleift að komast strax út á vinnumarkaðinn að orlofi loknu myndi jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Launamunur kynjanna á þátt í því að karlar taka síður fæðingarorlof og konur eru frekar heima en bæði fulltrúi SA og fulltrúi BSRB nefna að launabilið milli kynjanna byrji að breikka þegar fólk eignast börn. Þarna virðist vera ákveðinn vítahringur. 

Óvissan slæm fyrir atvinnurekendur

Úrræðaleysi í dagvistunarmálum kemur sér illa fyrir foreldra sem þurfa jafnvel að vera heima með barn launalaust mánuðum saman og geta ekki sagt til um það með nokkurri vissu hvenær þeir geta komið aftur til vinnu. Óvissan er líka slæm fyrir atvinnurekendur. Það er því þeirra hagsmunamál að brúa þetta bil. 

Mynd með færslu
 Mynd: Dafne Cholet - Flickr
Foreldrar sem ekki fá daggæslu fyrir börn sín að loknu fæðingarorlofi búa við óvissu og geta ekki sagt til um það hvenær þeir geta hafið störf á ný.

„Við þurfum að nálgast þessa áskorun frá mörgum áttum. Ein leið er sú að auka sveigjanleika á vinnumarkaði, til dæmis varðandi dagvinnutímabil, svo við séum ekki föst í þessu formi að allir þurfi að vinna frá átta til fjögur eða níu til fimm, að foreldrum ungra barna sé gefinn aukinn sveigjanleiki. Þarna erum við kominn inn á viðkvæmt svið kjarasamninga en ég tel að það væri mikið til bóta að auka sveigjanleika þeirra enn frekar meðal annars í því augnamiði að koma til móts við unga foreldra.“ 

Hækkun forgangsmál

Samtökin hafa áður lýst því yfir að þau fallist ekki á lengingu í 12 mánuði vegna aukins kostnaðar og lengri fjarveru foreldra frá störfum. Alls sé óljóst hvort slík lenging muni stuðla að jafnrétti kynjanna. Þeim finnst forgangsmál að hækka hámarksgreiðslur þar sem oft taki tekjuhærra foreldrið, oftast feður, ekki orlof. „Takmarkið væri að allir feður sem eiga þess kost tækju fæðingarorlof, um það snýst jafnrétti og það er sú átt sem við viljum ná þessu í. Hættan við að lengja bara en hækka ekki er sú að fjarvera mæðra frá vinnumarkaði verði lengri og við séum enn að auka á þennan halla.“ 

Á að skera minna af tekjum láglaunafólks? 

Ekki liggur fyrir hvort tillaga starfshópsins um að foreldrar fái fyrstu 300 þúsund krónur af viðmiðunartekjum óskertar nær fram að ganga. Ásmundur segir að um það séu skiptar skoðanir, „en ég held það séu gild rök fyrir því að menn fái hærra þegar þeir eru með lægri tekjur“. ASÍ og BSRB telja mikilvægt að tryggja fólki lágmarkslaun í orlofi.  Samtök atvinnulífsins eru á öndverðum meiði, Halldór telur að ekki eigi að nota fæðingarorlofskerfið til tekjujöfnunar, önnur tæki ríkisvaldsins séu betur til þess fallin. Þá telja samtökin að ekki hafi verið sýnt fram á að kostnaðaraukinn sem fylgi þessari tillögu muni frekar stuðla að jafnrétti kynja en hækkun hámarksfjárhæðarinnar. 

Hvaða formúla er best? 

Loks er það skiptingarformúlan. Í skýrslu starfshópsins frá 2016 voru færð rök fyrir 5+5+2 mánaða skiptingu og einkum horft til jafnréttissjónarmiða. Markmiðið með því að lengja samanlagðan fæðingarorlofsrétt foreldra sé meðal annars að tryggja þeim báðum möguleika á að annast barn sitt án þess að það hafi í för með sér verulega röskun hvað varðar þátttöku á vinnumarkaði. Fram kemur að í gegnum tíðina hafi sameiginlegur réttur einkum verið nýttur af mæðrum. Til að ná markmiðunum sé því mikilvægt að sem minnstur hluti orlofsréttar verði sameiginlegur. Þá segir að ætla megi að óframseljanlegur réttur feðra til orlofs styrki stöðu þeirra gagnvart atvinnurekendum og geri þeim kleift að taka meiri þátt í umönnun barna sinna. Það fyrirkomulag ryðji sennilega úr vegi eldri viðhorfum um að faðirinn beri alfarið eða meginábyrgð á efnahag heimilisins með tekjuöflun sinni. 

Ólík viðhorf kristallast í umsögnum

Mynd með færslu
 Mynd:

Í janúar lagði þingflokkur Samfylkingarinnar fram frumvarp um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði með 5+5+2 skiptingunni. Frestur til þess að senda inn umsagnir rann út í byrjun mars. Níu bárust og í þeim kristallast þau sjónarmið sem helst takast á þegar kemur að skiptingu orlofsins. Sumir telja að skiptingin ætti að vera sem jöfnust, það sé í þágu jafnréttis kynjanna, komi í veg fyrir að móðir nýti allan þann rétt sem hún getur nýtt, sinn og þann sameiginlega, styrki stöðu feðra gagnvart atvinnurekendum og grafi undan þeirri hugmynd að þeir ættu að vera helsta fyrirvinna heimilisins. Réttindum á vinnumarkaði ætti ekki að deila með öðrum og því telur félagið eðlilegt að hvort foreldri um sig eigi sex mánaða sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs, segir í umsögn Kvenréttindafélags Íslands. Þeir sem eru á öndverðum meiði; Landspítalinn, Félag Hjúkrunarfræðinga og Landlæknisembættið, til dæmis, tala um hagsmuni barnsins og að helst ætti þessi réttur að vera merktur barninu. Þau segja að með því að eyrnamerkja hvoru foreldri stóran hluta orlofsins og hafa lítinn hluta sameiginlegan sé réttindum barnsins til þess að njóta umönnunar foreldra fyrstu mánaðanna fórnað í þeim tilgangi að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þegar annað foreldrið getur ekki tekið orlof eða er ekki þátttakandi í lífi barnsins, eins og í tilviki sumra einstæðra foreldra, fái barnið einungis sjö mánuði heima. Þannig sé börnum mismunað eftir aðstæðum foreldra. Þessir aðilar tala fyrir því að foreldrar hafi aukið frelsi til þess að skipta orlofinu á milli sín. FÍH vill að þrír af þeim fimm mánuðum sem eyrnamerktir eru hvoru foreldri verði framseljanlegir til hins. 

Vill skoða heildina

Ásmundur vill að skiptingin verði eins jöfn og hægt er. Það þurfi að tryggja að karlar taki orlof til jafns við konur. Ef eitthvað annað veldur því að það er ekki gert þurfi að ráðast í breytingar á öðrum sviðum til að laga það.  

Hann er efnislega sammála því sem kemur fram í frumvarpi Samfylkingarinnar varðandi lengingu og skiptingu orlofs en ætlar að leggja fram sitt eigið frumvarp, enda ráðherra, og er með aðrar áherslur, vill ekki taka einn þátt út fyrir sviga heldur endurskoða kerfið í heild. Hækkun og lengingu saman, eins og fram hefur komið, en líka skoða stöðu hópa sem telja kerfið ekki þjóna sér eins og það er í dag, einstæðra foreldra og námsmanna, til dæmis.

Kvótar einir ekki nóg

Kvótar geta haft áhrif en norrænir fræðimenn á sviði jafnréttismála benda á að þeir dugi ekki einir og sér. Í skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði frá því í fyrravor segir að þessir fræðimenn hafi bent á að þróun jafnréttismála einkennist af stöðnun og  áhrif tiltekinna aðgerða á borð við kynja- og feðrakvóta séu einangruð og smiti ekki út frá sér.  Samkvæmt því verði að grípa til aðgerða sem varði alla þá þætti sem hafi áhrif á jafnrétti kynjanna vinnumarkaði til að upprétta kynjamisrétti. 

Aðilar vinnumarkaðar ósammála

ASÍ og BSRB styðja líka 5+5+2 skiptinguna en myndu helst vilja ganga lengra og skipta orlofinu hnífjafnt. Halldór vill halda skiptingunni óbreyttri, 
3+3+3 og líklega þá 4+4+4 ef af lengingu verður. Sveigjanleiki sé nauðsynlegur en algert frelsi væri óheillaskref þar sem þá myndu mæður líklega fullnýta allt orlofið. 

Skiptar skoðanir meðal foreldra í vanda 

Spegillinn lagði spurningar fyrir meðlimi í Facebook-hópnum Foreldrar sem fá ekki daggæslu fyrir börn sín að loknu fæðingarorlofi. Í honum eru rúmlega 1100 manns. Flestir þeirra sem svöruðu sögðust vilja lengja orlofið og margir töldu það mikilvægara en að hækka greiðslur, sögðu það einungis gagnast þeim tekjuhæstu. Margir töluðu þó líka um gríðarlega tekjuskerðingu og fjárhagsvanda sem umönnunarbilið skapaði þeim og einn faðir sagði þetta ekki spurningu um að vilja ekki taka orlof heldur að þurfa að vinna. Viðhorf foreldranna til þess hvernig skipta skyldi orlofsmánuðum á milli foreldra voru ólík. Sumir töldu að tengja ætti greiðslurnar barninu og gera foreldrum kleift að skipta þeim eins og þeim sýnist, bent var á að aðstæður fólks væru margbreytilegar og ekki ein formúla sem hentaði öllum. Ekki voru allir hrifnir af 5+5+2 kerfinu. Þannig sagði ein móðir ólíklegt að margir feður ættu eftir að taka sér fimm mánaða fæðingarorlof. Móðirin væri þá kannski heima í sjö mánuði en dagvistarpláss væri ekki niðurgreitt fyrr en barnið yrði 12 mánaða. Þannig myndi bilið sem þarf að brúa lengjast geti pabbinn ekki tekið orlof. Sumir höfðu ekki áhuga á að senda barn til dagforeldra, vildu vera heima með það lengur eða senda það beint í leikskóla. Það voru sumsé skiptar skoðanir en um eitt voru alllir í hópnum sammála, að það vanti fleiri daggæslu- eða leikskólapláss. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV