Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Á sjötta hundrað í fjöldahjálparstöð í Reykjanesbæ

13.01.2020 - 07:09
Mynd: Kristján Ingvarsson / RÚV
Rauði krossinn opnaði í gærkvöld átjándu fjöldahjálparstöðina á mánaðar tímabili, þegar ófært varð milli Suðurnesja og Reykjavíkur. Jón Guðmundsson stjórnar aðgerðum Rauða krossins í Reykjanesbæ þar sem rúmlega 180 manns gistu í Íþróttahúsinu við Sunnubraut í nótt, en mun fleiri fóru þar í gegn.

„Þetta hefur gengið eins og smurð vél, við erum búin að vera í yfir átján svona útköllum síðasta mánuð, að opna fjöldahjálparstöðvar með þessu veðri sem er búið að vera. Þannig að við erum í hörkugóðri æfingu eins og er,“ segir Jón.

Yfir 500 flugfarþegar komu í fjöldahjálparstöðina í nótt, bæði farþegar sem eiga morgunflug í dag og þeir sem fara af landi brott seinni partinn. Aftakaveður var á Suðurnesjum í gær og Reykjanesbraut lokuð. Þá var veginum frá Fitjum að flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli lokað og á tímabili fjöldi bíla sem var fastur.

Mynd með færslu
Í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli í nótt.  Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV

Þegar fréttastofa náði tali af Jóni á áttunda tímanum í morgun sagði hann að nóttin hafi gengið vel en að aðgerðir Rauða krossins standi enn yfir. „Við komum flestum hérna inn í hús og bara beint í rúm. Núna er mjög mikil ró yfir fólki enn þá.“

Fyrstu rútur fóru á milli fimm og hálf sex í morgun með 30 flugfarþega. „Þannig að eins og staðan er núna þá erum við enn þá með 150 manns hérna í fjöldahjálparstöðinni hjá okkur.“ Búist er við að hægt verði að loka fjöldahjálparstöðinni um klukkan 11. „Fulltrúar frá Icelandair eru hérna hjá okkur að vinna með farþegum að endurbókunum og þess háttar auðveldar þetta.“

Fólkinu var boðið upp á veitingar og drykki í fjöldahjálparstöðinni og segir Jón að margir hafi vissulega verið að velta því fyrir sér hvenær flugferðin þeirra verði en að það sé í raun ótrúlegt hve rólegt fólk hafi verið. Margir hafi lagt hönd á plóg og hjálpað við að setja upp aðstöðuna, rúm fyrir tæplega tvö hundruð manns. 

Rauði krossinn í Reykjanesbæ er með útbúnað í bænum, auk þess sem Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kom með gáma með 700 rúmum og teppum. Bílalest með búnaðinn hafi komið frá Reykjavík. 

Fréttin hefur verið uppfærð.