Á sitt hvorum vængnum

Mynd:  / 

Á sitt hvorum vængnum

29.03.2017 - 08:05

Höfundar

„Þetta snýst allt um opnun,“ sagði einn listamaðurinn þegar við spurðum af hverju hann hefði lagt myndlist fyrir sig. Við vorum forvitin um að komast að því hvað drífur myndlistarmenn áfram til að skapa listaverk? Hvað er það sem myndlist getur opnað fyrir manni með hvaða hætti?

Til þess að komast að þessu og fá í leiðinni innsýn í myndlist samtímans hér á landi vörðum við tíma með nokkrum ólíkum listamönnum. Við fórum í heimsókn á vinnustofur, fengum leiðsögn um sýningar og fylgdum eftir gerð nýrra listaverka. Í leiðinni spurðum við misgáfulegra spurninga og komumst að því að þótt ótrúlega margt sé í gangi í myndlist, þá liggja víða sameiginlegir þræðir á milli listamanna.

Í öðrum þætti Opnunar leiðum við saman listamenn sem segja mætti að séu algjörlega á sitt hvorum vængnum í listinni. Ingólfur Arnarsson og Hrafnhildur Arnardóttir, mínimalistinn og maxímalistinn, eiga það sameiginlegt að verk þeirra stjórnast að miklu leyti af því hvert efniviðurinn sem þau hafa í höndunum leiðir þau. Í fyrsta þætti fylgdumst við með tveimur listamönnum sem skapa verk út frá vangaveltum um rými og umhverfi - nú ræður efnið för. Hrafnhildur, eða Shoplifter eins og hún er kölluð, hefur verið búsett í Bandaríkjunum síðan hún var þar í námi. Hún hefur alla tíð verið hugfangin af hári sem efnivið og fléttar það í ótal áttir. Hún lætur efniviðinn og myndmálið flæða gegnum heim myndlistar, hönnunar og tísku.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ingólfur byggir verk sín á teikningum sem unnar er á lítil blöð sem síðan eru sett þannig upp að þau taka yfir heilu salina. Þá notar hann einnig steinsteypu sem hann slípar og málar á, eins konar framlengingar af veggjum sýningarrýmanna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hrafnhildur og Ingólfur segja bæði frá þeirri unun sem felst í því að sökkva sér í eitthvert efni og vinna á mörkum þess að stjórna ferðinni sjálf og vera leidd áfram. Þau læra af tilraunum og mistökum og prófa sig endalaust áfram þar til þau eru komin á einhvern stað sem þau óraði ekki fyrir í upphafi. Í næsta þætti leiðum við síðan hugann að lit og ræðum við tvo listamenn sem hafa velt mikið fyrir sér málverkinu, Hildi Bjarnadóttur og Helga Þórsson.

Tengdar fréttir

Myndlist

Því meira flækjustig – því skemmtilegra

Myndlist

Heimurinn þarf ekki að vera í 90° vinklum

Myndlist

Þversnið af íslenskri samtímamyndlist