Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Á sér ekki hliðstæðu

08.06.2015 - 21:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Afnám gjaldeyrishafanna á sér enga hliðstæðu í sögunni segir lögmaðurinn Lee Buchheit, rágjafi stjórnvalda. Hann telur ekki hættu á kæru frá kröfuhöfum eins og hafi gerst í Argentínu.

 

Buchheit telur að málið muni ganga hratt fyrir sig. „Að sex árum liðnum ættu helstu hindranir að hafa verið smátt og smátt fjarlægðar,“ segir hann. 

Hann segir áætlunina sem kynnt var í dag umfangsmikla. Á síðustu sex árum hafi upphæð sem jafngildi nærri 70 prósentum af vergri landsframleiðslu safnast upp að baki höftunum. En er eitthvað sambærilegt dæmi að finna í sögunni? „Ég er ekki viss um að einhver hliðstæða við þetta finnist. Það sem ég held að gerist er að í framhaldi af samkomulagi um þrotabúin sérstaklega, að það verður mikið innflæði bæði íslenskra króna og erlends gjaldmiðils í ríkissjóð. Og þeir fjármunir eru bæði óvæntir og þeim óráðstafað. Hve oft í sögunni hefur maður orðið vitni að því að þjóð haf haft ávinning af slíku innflæði?“ veltir hann fyrir sér. 

Buchheit bendir á að bankarnir séu í slitameðferð og eins og alvanalegt sé alls staðar þegar lokaáætlun er kynnt þá þurfi stóran meirihluta kröfuhafa til að samþykkja hana en ekki hvern og einn. Því séu réttarhöld um áætlunina ólíkleg eins og hafi orðið í nýlegu máli gegn Argentínu. „Kröfuhafar á þessi þrotabú eiga engar kröfur á íslenska lýðveldið. Kröfur þeirra eiga bara við um þrotabúin í slitameðferð. Svo þetta er ekki eins og hjá Argentínu, að Ísland skuldi þetta fé. Svo er ekki.“