Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Á réttri hillu

Mynd: Rich Grundy (Flickr) / Flickr

Á réttri hillu

06.04.2017 - 16:00

Höfundar

Sigurbjörg Þrastardóttir fjallaði um bækur og réttar hillur í pistli sínum í Víðsjá. Það er ekkert grín að ætla að raða bókum. Pistilinn má lesa og heyra hér.

Sigurbjörg Þrastardóttir skrifar:

Bókelsk kona fyrir austan, sem rekur stundum skemmtilegar hversdagsraunir á stóra samfélagsmiðlinum, skrifaði í stöðuuppfærslu: „Stundum langar mig að setja bókasafn heimilisins inn í Dewey. Eins og til dæmis þegar ég veit ekki hvort ég á Tímaþjófinn eftir Steinunni Sigurðardóttur (…) og því síður hvar í hinum fjölmörgu bókaskápum heimilisins hana væri að finna, ef svo væri.“

Kerfi kerfanna

Dewey er sem kunnugt er flokkunarkerfi bókasafna, þið vitið, 813 Ste, eins og væri líklega prentað á kjöl téðrar bókar, ef bókakostur heimilisins væri í Dewey. Vandamálið er sannarlega af lúxustoga, eins og vinir konunnar bentu á í athugasemdum, en þegar þeir undirstrikuðu að eitthvert kerfi þyrfti hún nú samt að hafa, sagði hún að á heimilinu væri reyndar alveg kerfi: „Í stofunni eru flottu stofubækurnar sem aldrei neinn les, á ganginum eru bókmenntalegu bækurnar sem við viljum að fólk haldi að við lesum og inni í svefnherbergi er krappið sem við lesum í alvöru.“

Við þessa lýsingu kannast eflaust margir. Bæði það að vilja ekki láta sjá hvað maður er að lesa í alvöru (í gamanmyndunum felur fólk slíkar bækur inni í kápum annarra bóka) – og líka þetta, að stilla fram bókum sem maður vill láta aðra sjá að maður eigi. Hillumetri er þekkt skreytieining, fólk slær sér svo og svo marga hillumetra af heimsbókmenntum til að ganga í augun á gestum.

Bækurnar í lífi manns

En hvað kemst maður yfirleitt yfir að lesa margar bækur? Segjum að þráin eftir inntaki taki skreytihégómanum fram – hvenær á maður að hætta að kaupa bækur og hversu skaðlegt er samviskubitið yfir að hafa lesið of fáar bækur? Það er kannski ekki skaðlegt, en það er algengt. Hér kemur t.d. upp í hugann kaflinn klassíski í upphafi bókarinnar Ef að vetrarnóttu ferðalangur, þar sem aðalpersónan, Lesandinn, mætir úti í bókabúð heilu herdeildunum af ólesnum bókum – og á fótum fjör að launa. Ég rakst á þennan kafla í tiltekt um daginn, hafði snarað honum til að nota í ritgerð eða fyrirlestur fyrir fjölmörgum árum – hann er sem fyrr segir klassík – en ég hlífi ykkur við því og vitna í verðlaunaþýðingu Brynju Cortes Andrésdóttur, sem þýddi þessa ágætu bók Italo Calvino:

„Þú fylgdir slóðinni og ruddist gegnum búðina fram hjá þéttum tálmum Bóka-sem-þú-hefur-ekki-lesið sem horfa á þig ábúðarmiklar úr hillum og af borðum og reyna að hræða þig. En þú veist að þú þarft ekki að finna til vanmáttar, að á meðal þeirra teygir sig hektari eftir hektara af Bókum-sem-þú-getur-alveg-sleppt-því-að-lesa, Bókum-ætluðum-til-annarra-nota-en-lesturs, Bókum-sem-þarf-ekki-einu-sinni-að-opna-til-að-vera-búinn-að-lesa-því-þær-tilheyra-flokki-bóka-sem-voru-þegar-lesnar-jafnvel-áður-en-þær-voru-skrifaðar. Og þannig kemst þú fram hjá fyrsta belti víggirðinga og á þig ræðst fótgöngulið Bóka-sem-þú-myndir-vissulega-gjarnan-líka-vilja-lesa-af-þú-ættir-fleiri-líf-til-að-lifa-en-því-miður-eru-dagar-lífs-þíns-ekki-fleiri-en-þeir-eru. Með skjótum hreyfingum klofar þú yfir þær og að fylkingum Bóka-sem-þú-ætlar-að-lesa-en-fyrst-ætlar-þú-að-lesa-aðrar-bækur, fylkingum Of-dýrra-bóka-sem-þú-bíður-eftir-að-verði-seldar-á-hálfvirði, Of-dýrra-bóka-sem-þú-bíður-eftir-að-komi-út-í-kilju, Bóka-sem-þú-gætir-fengið-lánaðar og Bóka-sem-allir-hafa-lesið-svo-það-er-eiginlega-eins-og-þú-hafir-líka-lesið-þær …“ (bls. 9-10) (tilvitnun lýkur.

Þessu lýkur aldrei

Þetta er sumsé eilíf barátta, og þegar maður lætur undan, eða, þegar kona fyrir austan lætur undan, hefst sú þunga þraut að finna nýja eintakinu pláss í hillum heimilisins. 

Að sjálfsögðu koma fleiri kerfi en Dewey til greina, til þess að halda stjórn, svo það sé sagt. Það má raða eftir stafrófsröð, eftir tegund (þ.e.a.s. sjönru), eftir lit, eða jafnvel í tímaröð. Annað hvort í þeirri tímaröð sem maður eignaðist bækurnar – sem hlýtur að vera martröð; blaðið Guardian lagði þetta einu sinni til í grein um efnið, og benti sem fyrirmynd á gaurinn í High Fidelity sem raðaði plötunum sínum þannig – eða í tímaröð viðfangsefnanna m.t.t. mannkynssögunnar, bækur um Forn-Grikki fremst o.s.frv. Nei, annars, tímaröð er vond hugmynd. 

Það er líka sama hvaða snjalla kerfi lagt er upp með, praktíkin splundrar þeim á endanum. Og svo eru sumar bækur sem vilja hreinlega ekki uppi í hillu, heimta að vera á náttborðinu, undir brotnum borðfæti, ofan í ferðatösku, inni á snyrtingu …

Heilu herdeildirnar

Fyrir þá sem eiga of djúpar bókahillur var Good Housekeeping einu sinni með gott ráð, að búa til upphækkun bakatil í hillunni, þannig að hægt sé að raða kiljum í tvær misháar herdeildir, þá hærri fyrir aftan. Upphækkunin getur t.d. verið umbúðir utan af álpappír og rúllan þá höfð í kassanum til stuðnings. Ég gæti laumað því að ykkur að það sé enn smekklegra að pakka álpappírsumbúðunum inn í sýrufrían pappír, t.d. í lit sem matsar við gólfteppið í borðstofunni, eða eitthvað, en það væri náttúrlega að æra óstöðugan. Samt væri það alveg í anda þessa pistils. Því við bókakonuna fyrir austan, og aðra sem héldu að þessi pistill myndi veita andlegt hjálpræði við að koma skikki á bókasafn heimilisins, vil ég segja þetta: Það getur tekið of langan tíma að raða bókum eftir kerfi, svo langan tíma að enginn tími er eftir til þess að lesa fjárans bækurnar! Þá er betur heima setið í haugnum en af stað farið með húsráð prúðra húsmæðra. Ekki raða bókum, hvort sem þið búið fyrir austan eða vestan. Það er ótrúlegur tímaþjófur. Einmitt. Þannig blasir Tímaþjófurinn óvænt við, jafnvel þegar maður hélt að maður hefði týnt honum.