Á mörkum sjálfsfórnar og sjálfsfróunar

Mynd: RÚV / RÚV

Á mörkum sjálfsfórnar og sjálfsfróunar

24.03.2017 - 15:10

Höfundar

Í Fórn, sviðslistahátíð Íslenska dansflokksins, leggja margir hæfileikaríkir listamenn hönd á plóg. Útkoman er á köflum hrífandi, en heildin líður fyrir formrænt agaleysi, að mati gagnrýnenda Menningarinnar, sem telja að 80 mínútna löng kvikmynd Matthews Barney hefði betur átt heima utan dagskrár.

Hátíð nýrra helgisiða

Fórn er samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins, Borgarleikhússins og sviðslistahátíðarinnar Lókal, en listrænir stjórnendur þess og upphafsmenn eru Erna Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson.

Verkið er í raun allsherjar sviðslistahátíð í sjálfu sér, en dagskrá kvöldsins tekur um fjóra tíma og felur í sér dansverkið Helgidóminn eftir Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson, myndbandsverkið Dies Irae eftir Ernu Ómarsdóttur, ballettinn Ekkert á morgun eftir Ragnar Kjartansson og Margréti Bjarnadóttur, og loks kvikmyndina Sameininguna eftir Matthew Barney.

Öll verkin hverfast um helgisiðina sem ramma inn mannsævina; Helgidómurinn og Dies Irae um greftrun og sálumessu, Ekkert á morgun um manndómsvígslu eða fermingu og Sameiningin um hjónavígsluna. Í tveimur hléum í dagskránni geta áhorfendur auk þess tekið þátt í haturs-yoga, stigið inn í öskurklefa og keypt vörur á markaðstorgi í anddyrinu.

Helgidómurinn: jarðneskt verk og Ernulegt

„Fyrsta verkið er mjög jarðneskt, og þetta er greinilega verk eftir Ernu Ómarsdóttur. Maður sér það á hreyfingunum, sem eru svona dýrslegar, allt að því ómennskar. Það er öskur, það er söngl og andardráttur er mikið notaður. Þetta er var mjög Ernulegt verk, sem var áhugavert að sjá, skemmtilegt að mörgu leyti og vel unnið að mörgu leyti,“ segir Sesselja G. Magnúsdóttir, dansgagnrýnandi, og bendir á að dansararnir hafi gefið sig í verkið af miklum krafti og séu búnir að tileinka sér að fullu sérstæðan stíl Ernu Ómarsdóttur.

Borgarleikhúsið
 Mynd: RÚV

Hlín Agnarsdóttir, leikhúsgagnrýnandi, bendir á líkindi við fyrri verk Ernu, svo sem hár-dans Hallgerðar úr Njálu, en ýmislegt við byggingu Fórnar minnti á karnivalíska stemningu nýlegrar Njáluuppsetningar Þorleifs Arnar Arnarsonar, sem Erna Ómarsdóttir samdi danshreyfingar við.

Dies Irae: Trúarlegar vísanir í takt við heildarkonsept

„Ég verð að segja að mér fannst þetta mjög vel gert,“ segir Hlín Agnarsdóttir um verk Gabríelu Friðriksdóttur, Dies Irae.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið - RÚV

„Það var unnið mjög skemmtilega bæði með myndatöku, klippingar, með negatífuna í myndinni og músíkin, sem er brot úr sálumessu eftir miðaldatónskáldið Tomas Celano, var leikið afturábak og skapaði sterka trúarlega stemmningu sem tengdist mjög mikið við heildarkonsept sýningarinnar,“ segir Hlín.

Ekkert á morgun: Gimsteinn kvöldsins

„Kassagítarinn verður mótdansari og mótleikari, og dansararnir hafa lært hreinlega að spila á þessa gítara, tónlistina sem er samin af Bryce Dessner,“ segir Hlín um verk Ragnars Kjartanssonar og Margrétar Bjarnadóttur, Ekkert á morgun.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Það sem er líka athyglisvert við það verk, sem skapar svo skemmtilega andstæðu í kvöldinu er að í fyrsta lagi er það bjart, en ekki dökkt eins og hin, og svo heitir það ballett, sem sjáum venjulega ekki talað um, því við höfum svo lítið af ballett hér á landi,“  segir Sesselja, og bendir á að ýmislegt í klassískri uppbyggingu verksins kallist á við balletthefðina, þótt engir séu táskórnir. „Þetta var gimsteinn,“ segir Sesselja.

Sameiningin: Þar sem sjálfsfórnin nálgast sjálfsfróun

Síðasti hluti Fórnar er 80 mínútna löng kvikmynd sem bandaríski myndlistarmaðurinn Matthew Barney leikstýrir. Sem fyrr er dansflokkurinn í aðalhlutverki, með Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson fremst í flokki, en myndin er tekin upp í Kringlunni og hverfist um hjónavígsluna. Steggja- og gæsapartý eiga sér stað hvort í sínum enda verslunarmiðstöðvarinnar, annars vegar í Hagkaupum og hins vegar í Útilífi, uns sjálf hjónavígslan fer fram á torginu framan við Dunkin' Donuts. 

„Aftur finnst mér margt ótrúlega áhugavert þarna og líkmamarnir eru í stóru hlutverki, það er mikil nekt, en hún er aldrei klúr, segir Sesselja.“ Hlín segir myndina dragast á langinn, og ekki ná að verða nógu áhugaverða, „svo þessi fórn listamannanna og fórnarhátíð – þessi sjálfsfórn – verður líka að einhvers konar sjálfsfróun. Það er að segja, þetta verður svo sjálfhverft, líka hjá listamönnunum sjálfum,“ segir hún. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Stærsta verkefni í sögu Íslenska dansflokksins