Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Á leigumarkaði það sem eftir er

28.06.2014 - 20:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Einhleypur og barnlaus framhaldsskólakennari getur einungis borgað 20 þúsund krónur á mánuði í afborganir af húsnæðisláni, samkvæmt greiðslumati bankanna. Greiðslumatið gerir ráð fyrir 74 þúsund krónum á mánuði í ökutæki og samgöngur.

Margt ungt fólk hefur lent í erfiðleikum með að kaupa sínu fyrstu íbúð. Þar á meðal er Agnes Valdimarsdóttir, 28 ára gamall framhaldsskólakennari, sem ætlaði að kaupa sína fyrstu íbúð fyrr á þessu ári. Þá var hún bæði einhleyp og barnlaus. Hún ætlaði að kaupa um það bil 70 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu, og gerði ráð fyrir að hún myndi kosta um 20 milljónir. Þau áform runnu hins vegar út í sandinn þegar hún fór í greiðslumat.

"Þar kom fram að ég hefði 0-20 þúsund króna greiðslugetu á mánuði," segir Agnes. "Ég hefði aldrei getað keypt mér íbúð fyrir þá upphæð, ég gæti ekki einu sinni leigt fyrir þann pening. Ég bjóst alveg við að fá lágt greiðslumat. Ég vissi alveg hver launin mín væru. En ég bjóst aldrei við að mér yrði sagt: Sorrý, þú ert aldrei að fara að flytja í hús sem þú átt. Þú verður bara að vera á leigumarkaði það sem eftir er!"

Sem framhaldsskólakennari fær Agnes um 260 þúsund krónur útborgað á mánuði. Samkvæmt neysluviðmiði, sem miðað er við í greiðslumati, eyðir hún um 235.000 krónum á mánuði, þegar húsnæðiskostnaður er undanskilinn. Þar af er gert ráð fyrir að hún eyði rúmum 43.000 krónum í mat, 14.000 í föt, næstum 40.000 krónum í tómstundir og afþreyingu og 74.000 krónum í ökutæki og almenningssamgöngur. Því sé ekki mikið svigrúm eftir, til að eyða í húsnæði. Agnes hélt því áfram að leigja litla íbúð í kjallara í húsi foreldra sinna.

"Ég er háskólamenntuð og í fastri vinnu og oft í meira en einni vinnu á sama tíma. Samt get ég ekki keypt íbúð. Þetta er eitthvað svo fáránlegt að vera að detta í þrítugt og sjá ekki fram á að geta nokkurn tímann átt eign," segir Agnes.